Kærleiksorðin

by Dec 29, 2015Blogg

Viltu koma með í ferðalag? Ferðalag í gegnum tíma og rúm, sem hefst og endar í hjarta þínu, leiðir þig í gegnum minningar, tilfinningar og atburði sem hafa gert þig að því sem þú ert? Komum og tökumst á hendur þetta ferðalag í sameiningu, í trausti, gleði og kærleika.

Jólin eru tímaferðalag í andlegum og tilfinningalegum skilningi. Þau taka okkur á staði sem við höfum áður verið á, á öðrum æviskeiðum og í annarri líðan. Þau taka okkur til bernskunnar, til upphafsins, til frumsjálfsins þar sem allt er satt og rétt, þar sem gleðin er fölskvalaus, öryggið algjört, fögnuðurinn fullkominn og kærleikurinn allsráðandi.

Þú þekkir þig á þessum stöðum. Þótt lífið sé erfitt og beri með sér ótal áföll, ert þú samt þú, einstök og falleg manneskja, sem ert elskuð, sem er nógu góð, og þarft ekki að óttast. Þú ert litla barnið sem mamma þín var svo glöð að fá í fangið, þú ert stóra stelpan sem ert svo dugleg, þú ert stóri strákurinn sem stendur sig vel, þú ert frábær mamma, frábær pabbi, ástríkur maki – þú ert ókei!

Það eru þessi skilaboð sem jólasagan – saga Lúkasar um barnið við brjóst Maríu, undrun og ótta fjárhirðanna og lofsöng englanna færir okkur. Hún býður okkur til stefnumóts við hið heilaga þar sem tíminn nemur staðar eitt augnablik – eða kannski mætast allir tímarnir í lífi okkar í þverskurði jólaguðspjallsins. Því í einfaldleika sínum dregur jólaguðspjallið upp mynd af mannlegum aðstæðum eru flóknar og þversagnakenndar.

Um leið og Lúkas dregur ekkert undan og bregður upp mynd af mannlegu samfélagi þar sem valdhafar ráðskast með fólk, manneskjur eru fátækar, sumar á vergangi og upp á velvild ókunnugra komnar á sinni viðkvæmastu og auðsæranlegustu stund, þá sprengir hann upp þessi lögmál með himnesku ljósi sem sýnir allt á nýjan hátt.

Jólaguðspjallið er sígilt og lifir af breytingar í alþjóðastjórnmálum, stjórnsýslu, fjölskyldugerðum og fæðingarhjálp. Frummyndir þess tala til okkar í gegnum kynslóðir og aldir, þær eru sammannlegar og eiga alltaf við.

Frummyndir jólanna eru til að mynda fjárhúsið og jatan sem tjá þrá manneskjunnar eftir skjóli, næringu, hlýju og öryggi – ekki síst í eigin hjarta þar sem óleyst vandamál geta hreiðrað um sig.  Fæðing barnsins er annað frumtákn sem hittir í hjartastað. Nýfætt barn snertir strengi í brjósti og vekur þrá eftir nýju upphafi, eigin bernsku, hreinleika og sakleysi. Ljósið sem kemur inn í myrkrið talar einnig sterkt til okkar, í Betlehemsstjörnunni og englakórnum bjarta sem flytur boðskap um að við þurfum ekki að vera hrædd.

Fjölskyldan og mikilvægi hennar er einnig ein af þessum frummyndum jólanna sem er tjáð með Maríu, Jósef og barninu. Þrátt fyrir ytra óöryggi og heimilisleysi finnum við öryggi og ást í faðmi fjölskyldunnar og þeirra sem elska okkur.

Þessi tákn lifa og varðveitast kynslóð fram af kynslóð. Í þeim er sannleiksgildi helgisögunnar fólgið, frekar en á sviði textarýni eða sagnfræði. Það eru ekki síst sálmarnir sem við syngjum um jólin sem vinna með þau og heimfæra á okkar eigið líf. Þar er jólasagan sögð út frá okkar eigin aðstæður og umhverfi. Sálmurinn Hátíð fer að höndum ein er gott dæmi um þetta. Fyrsta erindið er íslensk þjóðvísa en Jóhannes úr Kötlum orti fleiri vísur við hann eins og þessa:

Gerast mun nú brautin bein
bjart í geiminum víðum
ljómandi kerti á lágri grein
líður að tíðum
líður að helgum tíðum.

Hér eru Betlehem og íslenska sveitin allt í einu orðinn einn og sami staðurinn, þar sem undrið mikla á sér stað, og frelsari heimsins kemur í heiminn þegar Guð sjálfur tekur á sig mannleg kjör. Ljósið sem lýsti upp dimma nóttina á Betlehemsvöllum í englaskaranum sem söng fyrir fjárhirðana, er ljósið á lágri grenigrein á íslensku heimili. Hið heilaga á sér stað hér og nú.

Kvæði af stallinum Kristí sem kallast vöggukvæði var ort fyrir rúmlega fjögur hundruð árum og við þekkjum það betur sem sálminn Nóttin var svo ágæt ein. Þar er fléttað saman á listilegan hátt sögunni um fæðingu Jesú og innra lífi þess sem syngur sálminn. Eins og í þessu versi sem hljómar svona:

Þér gjöri’ eg ei rúm með grjót né tré,
gjarnan læt ég hitt í té,
vil ég mitt hjartað vaggan sé,
vertu nú hér, minn kæri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.
Með vísna söng ég vögguna þína hræri.

Þarna sjáum við skáldið bjóða fram sitt eigið hjarta til að hýsa litla Jesúbarnið, það býður ekki fram rúm úr steini eða tré, heldur hjarta af holdi og blóði. Hérna gerist umbreytingin, hér verður sagan lifandi í okkar eigin lífi, í okkar eigin líkama.

Eru þetta ekki töfrar jólanna sem við erum alltaf að reyna að höndla? Einhvers konar samhljómur líkama, anda, okkar eigin sögu og reynslu?

Við nutum þess hér í Laugarneskirkju að fá góðar heimsóknir á aðventunni, þegar börn úr Laugarnesskóla komu og fluttu frábæra dagskrá í tali og tónum sem þau höfðu undirbúið með kennurunum sínum. Meðal þess sem þau höfðu undirbúið voru örstuttar yrðingar um kærleikann, og þau fluttu þessi kærleiksorð fyrir framan hópinn.

Þegar börn tala um kærleikann þá gera þau það út frá sínum aðstæðum og inn í sínar aðstæður. Og þau gera það af heiðarleika og einlægni. Þess vegna er svo gott að heyra þessi kærleiksorð af munni barnanna í Laugarnesskóla og þau kenna okkur mjög mikið:

Kærleikur er að hugga þann sem meiðir sig.
Kærleikur er að hughreysta þá sem eru leiðir
Kærleikur er að vera góður og hjálpa öðrum
Kærleikur er að leyfa öðrum að vera með í leik.
Kærleikur er að launa illt með góðu.
Kærleikur er ljósið sem býr í hjarta þínu.
Kærleikur er að hjálpa þeim sem eiga erfitt.
Kærleikur er að elska jörðina okar og alla sem á henni búa.
Kærleikur er að faðma þann sem grætur
Kærleikur er að segja fyrirgefðu.
Kær5leikur er að hugga sorgmædda.
Kærleikur er umhyggja fyrir öllu sem lifir
Kærleikur er að biðja fyrir öllum, góðum sem slæmum. Kærleikur er að lifa sáttur við sjálfan sig og aðra.
Kærleikur er að dæma ekki.
Kærleikur er ljósið sem býr í hjarta sínu.
Kærleikur er hvert góðverk sem þú vinnur.
Kærleikur er hvert bros sem þú gefur.
Kærleikur er að gefa þeim sem þarfnast.

Og ein lítil kærleikssaga fylgdi með:

Einu sinni var lítil stelpa sem langaði í dúkku í jólagjöf en hún fékk bara knús frá mömmu og pabba. Það fannst henni rosa gott og henni leið vel. – Hún fékk líka dúkkur.

Er ekki gott að taka þessi kærleiksorð barnanna með í ferðalagið okkar? Taka þau inn og gera þau að nesti sem nærir okkur á ferðinni?

Af hverju segjum við að jólin séu hátíð barnanna? Vegna þess að sagan um barnið í jötunni er að vissu leyti sagan um barnið í okkur sjálfum, þar er snertiflöturinn við okkar eigin reynslu, okkar eigin þrá og tilfinningar, okkar eigin minningar og það sem við munum ekki en mótar okkur samt.

Hinn djúpi trúarboðskapur jólanna, er að á jólum rifjum við ekki bara upp fallega sögu um venjulegt fólk í óvenjulegum aðstæðum, aðstæður fátækra og flóttamanna, heldur hræra þau streng í okkar eigin brjóstum hér og nú, og snerta innsta kjarna okkar sjálfra. Þau leyfa okkur að vera barnið og taka við guðsríki eins og barn. Um þetta snýst ferðalagið okkar, hér hefst ferðin sem við verðum að fara til að verða heil að nýju. Guð gefi þér gleðileg jól.