Sagt til syndanna

by Dec 21, 2015Blogg

Það er gott að vera með ykkur hér í dag, þegar 4 dagar eru til jóla! Þið eruð náttúrulega búin að öllu?

Það er á svona dögum eins og þeim sem eru framundan, sem það gildir að vera skipulagður og effektívur, og þá kemur til sögunnar uppáhalds verkefnastjórnunartækið mitt – sem er að gera lista! Ég elska lista – af því að það er svo gaman að strika út atriðin sem maður klárar… Taka til í geymslunni – tékk! Passa upp á að allir á heimilinu eigi jólaföt – tékk! Fara í jólainnkaupin – tékk! Osfr. Svona listi getur verið langur – og eins og listafríkin vita þá eru þeir þeir betri eftir því sem þeir eru ítarlegri – því þá getur maður verið duglegri að strika út hluti sem eru búnir.

Við erum heldur ekkert mjög gömul þegar við byrjum að skrifa niður lista yfir það sem okkur langar til að fá í jólagjafir, á hann skrifum við óskir um það sem við viljum eignast, hversu raunhæfar eða óraunhæfar þær óskir eru.

En svo eru til annars konar listar og það er svolítið í anda jólanna að gera þá. Þeir ganga ekki endilega út á það að strika út hlutina, heldur leyfa þeim að vaxa og þroskast. Þessi listi á nefnilega ekki að innihalda hluti sem við þurfum að kaupa og redda, heldur er þetta listi yfir það sem okkur langar til að breyta í okkar lífi, listi yfir það sem við viljum jafnvel taka burtu og fjarlægja.

Og þú getur byrjað á þessum lista t.d. svona:

Skrifaðu niður, ekki það sem þig langar að eignast eða kaupa, heldur það sem þig langar til að verði, t.d. í samskiptum þínum við þau sem standa þér næst.

Skrifaðu niður það sem þig langar til að trúa á, eða vona.

Vertu djarfur/djörf í óskum þínum, sjáðu fyrir þér það sem þig langar að geti gerst, og settu á listann.

Kannski byrjar það að gera heiminn betri á því að gera lista yfir það sem okkur langar til að sjá og gerast? Þora að vona.

Vonin er nefnilega eitt af stóru þemum aðventunnar – vonin eftir ljósinu, bæði þessu bókstaflega, að daginn taki að lengja, og þessu táknræna sem lýsir okkur upp að innan og rekur burtu skugga reiði, eftirsjár og fjandskapar, sem er svo auðvelt að festast í.

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst það algjör snilld og bráðnauðsynlegt að tileinka þennan tíma sem kemur einu sinni á ári, þessum pælingum. Það veitir ekkert af því að lyfta upp jákvæðum og vonarríkum hlutum, og þjálfa okkur í því að taka nefið út úr eigin nafla og taka eftir því hvar skórinn kreppir hjá náunga okkar. Þess vegna geta jólin verið svo hollur og heilbrigður tími.

En þau geta líka snúist upp í andhverfu sína, það gerist ef geggjunin og kapphlaupið og kauphlaupið nær yfirhöndinni. Og fyrir allt of marga eru jólin þungbær og erfiður tími. Þau eru erfið fyrir fátæka og þau sem lifa við ranglæti. Þau eru erfið fyrir fólk í sorg, þau eru erfið fyrir fólk sem lifir við ófrið á heimilinum sínum eða í nánum samböndum. Þau eru erfið fyrir fólk í skuldum, því neysluhjólið snýst með miklum þunga í desember og getur skilað sér í feitum VISA reikningi, sem þarf að borga, þótt síðar sé.

Jólin hafa þessa hlið – og við gerum vel í því að minnast þess. Jólin eru ekki kærkomin víma sem fær okkur til að gleyma því hvernig lífið er í raun og veru í smá tíma. Jólasagan inniheldur grundvallar raunveruleikatékk fyrir okkur og þess vegna er svo mikilvægt að við heyrum hana aftur og aftur, á hverju einasta ári.

Jólasagan kippir okkur niður á jörðina þótt hún kallist á við hið himneska – kannski vegna þess að hún kallast á við hið himneska. Í fegurð sinni og sannleika afhjúpar hún hvað heimurinn okkar er í sífellu á skjön við það fagra og sanna. Hún afhjúpar hvað heimurinn okkar fer illa með sumt fólk og hvað hin fátæku og valdalausu eru í sífellu kúguð og haldið niðri. Hún afhjúpar hvað hervaldið er yfirþyrmandi í samhengi mannsævinnar. Guð minn góður, er það ekki satt enn þann dag í dag?

Jólasagan er heldur aldrei sögð án þess að minna okkur á að barnið sem fæðist í Betlehem er sá sem gekk inn í aðstæður hinna fátæku og sjúku, þeirra sem samtíminn lítur á sem smælingja. Þau sem hafa orðið undir í gildismati umhverfisins. Þar er Jesús. Munum hvað María móðir hans segir um hann: “…drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað. Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja.

Þetta er örugglega ástæðan fyrir því að á síðasta sunnudegi í aðventu íhugum við söguna um Jóhannes skírara – spámanninn og frænda Jesú sem stóð við ána Jórdan og þrumaði yfir lýðnum, sagði þeim bókstaflega til syndanna og brýndi fyrir þeim tengsl trúar og breytni. Ef þú átt tvo kyrtla gefðu þá annan þeim sem engan á! Ekki rukka of mikið ef þér er trúað fyrir því að innheimta gjöld, ekki trampa á náunga þínum og halda því fram að þú sért góð manneskja af því þú trúir á Guð!

Í guðspjallinu sem við hlýddum á í dag heyrum við af rannsókn ráðamanna á því hvað Jóhannes var að boða og hver hann var. Hver ertu? spyrja þeir, ertu Kristur? Ertu Elía? Ertu spámaðurinn? Við verðum að geta svarað þeim sem sendu okkur!

Þrumuræða Jóhannesar er nauðsynleg á öllum tímum og kannski sérstaklega í aðdraganda jólanna. Jóhannes minnir okkur á nauðsyn þess að undirbúa ekki aðeins ytra umhverfið okkar til að taka á móti Jesú, heldur líka það innri. Og við gerum það með því að huga að þeim sem minnst mega sín í samfélaginu okkar.

Jóhannes minnir okkur líka á að tilhneigingin okkar er að fara í ranga átt þegar kemur að því að gera hlutina. Af einhverjum ástæðum er eins og manneskjan hafi innbyggða smá skekkju í kompásinum sínum þegar kemur að samskiptum og ákvörðunum. Það er það sem stundum er kallað synd. Í máli Nýja testamentisins þýðir synd það sem missir marks – eins og ör sem er miðað á skotmark en skýtur fram hjá. Það er reyndar ágætis samlíking á mörgu í samskiptum og lífi okkar, það er kannski lagt upp með góða hluti en af einhverjum ástæðum fara þeir úrskeiðis?

Eftir fjóra daga hittumst við aftur til að ganga inn í jólin, helgi þeirra, frið og birtu. Við gerum það eftir að hafa hlustað á Jóhannes segja okkur til syndanna, og íhugað að barnið í jötunni sem við fögnum með öllum ljósunum og öllum gjöfunum og allri gleðinni, mætir okkur fyrst og fremst í náunga okkar, þegar hann þarf á okkur að halda.