Dæja á kirkjutröppunum

by Jan 10, 2016Blogg

Allar fjölskyldur eiga sögur sem gegna því hlutverki að skapa og viðhalda sameiginlega reynslu og grunn sem við sækjum reynslu okkar í. Svona sögur eru sagðar aftur og aftur og iðulega hlæjum við að þessu minningum. Stundum höfum við verið viðstödd atburðina sjálf en ekki endilega – stundum átti viðburðurinn sér stað án þess að við hefðum verið viðstödd en náinn fjölskyldumeðlimur var í miðpunkti þess sem gerðist.

Ég er viss um að þín fjölskylda á svona sögur. Ein saga sem lifir í minni fjölskyldu og er oft rifjuð upp við mikinn hlátur gerist á páskunum. Þá var familían öll samankomin í hátíðarmessu á páskadagsmorgni, í Háteigskirkju, þar sem pabbi minn var prestur. Þar voru líka frænkur, móðursystur, meðlimir stórfjölskyldunnar sem ætluðu síðan að taka strikið í stór-bröns hjá einni frænkunni að guðsþjónustunni lokinni.

Þegar messan var búin og komið var að því að hrúga í bílana og halda af stað í ristað brauð, rækjusalat, soðin egg og allt það gúmmelaði, varð hálfgert kaos – krakkar vildu fá far með uppáhalds frændanum og þar fram eftir götum, það voru margir bílar og margt fólk sem raðaðist í þá. Þegar komið var á áfangastað og fólk tíndist út úr bílunum, kom í ljós að það vantaði einn. Yngri systir mín, hafði orðið eftir á kirkjutröppunum. Allir höfðu einhvern veginn gengið út frá því að hún væri í einhverjum öðrum bíl ein þeirra, foreldrarnir voru rólegir af því að þeir voru vissir um að hún hefði fengið far með einhverjum öðrum í fjölskyldunni. Systurinni var náttúrulega ekki skemmt – en allt fór vel að lokum!

Í sögunni um Jesú í musterinu fáum við innsýn inn í svona fjölskyldusögu. Þar er fjölskyldan á ferðalagi með unglingnum sínum í stórri borg. Það ríkir hátíð og það eru margir á ferð. Að hátíðinni lokinni halda þau tilbaka og smám saman rennur upp fyrir foreldrunum að unglingurinn er ekki með í hópnum. Þau leita af sér allan grun meðal samferðafólksins og snúa að lokum aftur til borgarinnar. Þar leita þau í þrjá daga – og finna loks soninn sem situr í musterinu sjálfu og ræðir við fólk. Þeim var ekki skemmt og það er augljóst af viðbrögðunum þeirra þegar þau finna hann að þau voru orðin mjög hrædd um strákinn. Mamman spyr: af hverju gerðir þú okkur þetta? Og sonurinn svarar með týpísku unglingasvari, sem hefur alltaf rétt fyrir sér – af hverju þurftuð þið að leita að mér? Ég er nákæmlega þar sem ég á að vera!

En týnd börn eru að sjálfsögðu dauðans alvara og því miður finnast þau ekki alltaf þar sem þau eiga að vera. Fyrir örfáum dögum var sagt frá því í fréttum að búið er að ráða sérstakan starfsmann innan lögreglunnar sem hefur það hlutverk eitt að leita að týndum börnum og ungmennum á höfuðborgarsvæðinu. Fyrst var þetta verkefni tímabundið en nú hefur verið staðfest að það er þörf á manneskju í fullt starf til að sinna leit að ungmennum undir 18 ára.

Í sjónvarpsviðtali í vikunni segir þessi maður að hann hafi fengið áfall þegar hann fékk beiðni um að leita að 11 ára barni á síðasta ári, en það er yngsta barnið sem hann hefur leitað – og fundið – á þessum tíma. Á síðustu 14 mánuðum bárust alls 206 beiðnir um leit að ungmennum frá Barnavernd til lögreglunnar. Þar af voru 124 beiðnir vegna stúlkna en 82 vegna drengja. Inni í þessari tölu eru oft sömu einstaklingarnir, börn sem týnast eða fara frá heimilum sínum gera það oft ítrekað. Alls nær þessi málahópur utan um 82 börn og unglingar, 46 stúlkur og 36 piltar.

Það eru erfiðar og sárar fjölskyldusögur á bak við hvert og eitt tilfelli þegar leita þarf að týndum börnum og unglingum. Sumar þessar sögur eiga rætur í tímabundnum erfiðleikum í samskiptum, aðrar í dýpri og flóknari vandamálum.

Í bókinni Englaryki sem kom út fyrir tveimur árum fjallar Guðrún Eva Mínervudóttir um fjölskyldusamskipti og átökin sem geta fylgt því þegar stigið er yfir þröskuldinn sem aðskilur bernsku og fullorðinsár. Þar er sagt frá fimm manna fjölskyldu, sem fer í meðferð hjá geðlækni vegna þess að unglinsdóttirin, Alma, er farin að hegða sér undarlega. Fjölskyldan hafði verið í sumarfríi á Spáni þegar Alma fékk vitrun frá Jesú Kristi og er orðin heittrúuð í framhaldinu. Eftir vitrunina umturnast hegðun hennar og sýn á lífið, en það virðist ekki síður fara fyrir brjóstið á fjölskyldunni að Alma lætur sig litlu varða siðareglur samfélagsins í tilraunum sínum til að geðjast Guði og Jesú.

Það er greinilega ekkert grín að vera heittrúaður í þessari veröld og Alma lendir upp á kant við alls konar aðila – t.d. prestinn í fermingarfræðslunni sem á erfitt með að skilja afstöðu hennar.

Í samtölunum fjölskyldunnar við geðlækninn koma síðan ýmis mál upp á yfirborðið og það er ljóst að það er ekki bara Alma og samband hennar við Jesú sem er vandamálið, heldur eiga hinir fjölskyldumeðlimirnir sínar flækjur sem hafa áhrif á samskipti og líðan hinna.

Sagan um unglinginn Jesú þegar hann týnist og finnst í musterinu í Jerúsalem er eina sagan í Biblíunni um þetta æviskeið Jesú. Þar eru auðvitað sögurnar um ungbarnið sem fæddist í Betlehm og þurfti að flýja til Egyptalands, en langstærsti hluti guðspjallanna fjalla um síðustu árin í ævi Jesú, þegar hann er fullorðinn og er byrjaður að starfa sem spámaðurinn og Messías. Þess vegna er sagan um unglinginn dýrmæt innsýn inn í líf fjölskyldu sem þurfti að kljást við svo mörg sömu vandamálin og við þekkjum úr okkar eigin fjölskyldum og okkar eigin lífi.

Orðin í pistlinum sem Páll skrifar til kirkjunnar í Róm sýna okkur aðra mynd af fjölskyldunni – en notar líkinguna um líkamann til að útskýra eðli hóps. Hann segir að við séum eins og líkami, þar sem hver og einn limur eða hluti líkamans, hefur sitt hlutverk og geti ekki gengt neinu öðru hlutverki en því sem hann á að gera.

Þessi myndlíking dregur upp hvað það er sem einkennir hóp eins og fjölskyldu – eða kirkju – nefnilega að innan hópsins erum við ólík og höfum ólík hlutverk og að hvert og eitt okkar er mikilvægt og ómissandi. Það þýðir líka að við þurfum á hvert öðru að halda til að allt gangi upp. Það er góð áminning sem gildir líka um börn og unglinga, sérstaklega ef samskiptin eru erfið og krefjandi. Þess vegna er hvert týnt barn og hvert týnt ungmenni áfall fyrir heildina sem þau tilheyra, alveg eins og það er áfall fyrir líkamann að missa hluta af sér.

Sagan af Jesú í musterinu endaði vel, týndi unglingurinn sameinaðist fjölskyldu sinni og hefur örugglega oft þurft að heyra foreldra sína segja þessa sögu, rifja upp hvað þau voru hrædd og kannski hlæja í létti við endurminninguna. Fjölskyldusagan hans Jesú dregur athygli okkar líka að aðstæðum sem koma upp í öllum fjölskyldum og minnir okkur á að halda vel utan um hvort annað, í þeim fjölskyldum sem við erum og tilheyrum. Mættum við öll þegar við erum týnd, ná heim heil á húfi, og verða heil á ný.