Líf & fjör á Febrúarmóti í Vatnaskógi

by Feb 17, 2016Blogg, Forsíðufrétt

Hljómsveitin NEON

Það má með sanni segja að æskulýðsfélagið Týrannus hafi gert gott mót síðustu helgi, 12.-14.febrúar, en þá hélt æskulýðsfélagið á Febrúarmót ÆSKR í Vatnaskógi. Febrúarmótið sækja æskulýðsfélög allsstaðar af höfuðborgarsvæðinu og var mótið vel sótt í ár og stemmningin góð. Hópur Laugarneskirkju samanstóð af 22 unglingum á aldrinum 13-18 ára og eiga unglingarnir hrós skilið fyrir þátttöku sína, sem einkenndist af virðingu og gleði.
Dagskráin var fjölbreytt og skemmtileg og átti hópur kirkjunnar mikinn þátt í því. Ungleiðtogarnir Garðar og Arney sinntu öflugu sjálfboðaliðastarfi, hljómsveitarstarf kirkjunnar; Neon, fór á kostum á sal ítrekað og galdraði fram töfra tónlistarinnar, lið Laugarneskirkju í spurningakeppninni bar sigur úr býtum ásamt því að rappgrúppa (sem umsjónarmaður æskulýðsstarfs kýs kalla 105) sýndi frábæra takta og hæfileika í atriðakeppninni á laugardagskvöldinu. Allt þetta var svo rammað inn af jákvæðri almennri þátttöku allra úr hópnum og í raun það eina sem við hópinn er að sakast það að hann var tregur til í hópmyndatöku (svo ofboðslega hógvær líka…) og endaði það því svo að með þessari litlu frétt verður að nægja mynd af hljómsveitinni stórgóðu, Neon.
Við í samfélagi kirkjunnar megum vera stolt og þakklát fyrir ungmennin okkar og það er alveg kristaltært að framtíðin er björt.