Samstaða með hælisleitendum

by Feb 18, 2016Blogg, Forsíðufrétt, Sunnudagurinn

Laugarneskirkja vill standa með hælisleitendum svo þeir fái réttláta málsmeðferð þegar þeir sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. Í dag var þessi hvatning og áskorun lesin upp í Innanríkisráðuneytinu þegar fólk safnaðist saman til að sýna samstöðu með hælisleitendum sem hafa fengið úrskurð um brottvísun.

***

Til Innanríkisráðherra, frú Ólafar Nordal

Efni: Samstaða með Idafe, Christian og Martin

Við viljum tala máli hælisleitenda sem er synjað um efnislega meðferð í kerfinu okkar Íslands þegar þeir sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Við viljum benda á það ranglæti og skort á mannvirðingu, sem felst í því að vísa úr landi manneskjum sem hafa verið hér svo árum skiptir og lagt gott eitt til samfélagsins.

Við þekkjum Christian Kuwaku Boadi og Martin Omulu. Þeir eru bræður okkar og tilheyra fjölskyldunni sem kemur saman í viku hverri í bæn og samfélagi í skjóli kirkjunnar. Þar eru líka Eze Okafor, Amir Shokrgozar, Reza Moghadam, Mehdi Neyayati, Morteza Dongolzadeh, Ilirjan Peco og margir fleiri – sem sumir hafa þegar fengið tilkynningu um brottvísun.

Við viljum standa með þessum bræðrum sem við höfum kynnst i gegnum kirkjustarfið í söfnuðinum okkar. Hver þeirra er einn af okkur. Við þekkjum sögurnar þeirra og vitum að enginn gerir að gamni sínu að flýja heimaland og leita hælis í ókunnugu landi.

Við viljum líka styðja Idafe Onafe Oghene sem er frá Nígeríu en er ekki kristinn. Öllum ber sama virðing og sama réttlæti. Við erum öll Guðs börn.

Við lítum á það sem köllun kristinnar kirkju að sameinast í baráttu fyrir réttlæti til handa þeim sem standa höllum fæti af hvaða ástæðu sem er. Í dag er flóttafólk og umsækendur um alþjóðlega vernd stór hópur sem þurfa á málsvara og stuðningi að halda.

Við hvetjum þig, frú Ólöf Nordal, Innanríkisráðherra, til að tryggja að Dyflinnarreglugerðinni verði ekki beitt þegar um er að ræða yfirlýst óörugg lönd fyrir flóttafólk, s.s. Ítalíu og Grikkland og einnig lönd þar sem lífskjör flóttafólks eru í vafa eins og Ungverjarland eða Búlgaría.

Við ítrekum að virðing fyrir mannslífum og mannhelgi eigi að ráða efnismeðferð í málefnum hælisleitenda. Hælisleitendur eru líka fólk.

Við trúum því að við getum opnað faðminn okkar fyrir Idafe, Christian og Martin, veitt þeim vernd og tækifæri til að blómstra og eignast gott líf á Íslandi.
Reykjavík, 18. febrúar 2016


F.h. Laugarneskirkju

Kristín Þórunn Tómasdóttir, sóknarprestur