Að lesa Biblíuna

by Mar 22, 2016Blogg

Biblían er stundum kölluð orð Guðs. Það þýðir samt ekki að Guð hafi skrifað hana eða að allt þar sé frá Guði komið. Biblían er ekki Guðs verk heldur mannanna verk.

Samt lítur kristið fólk á Biblíuna sem hluta af sinni sögu sem inniheldur ávarp Guðs til sín hér og nú. Hvernig kemur það heim og saman?

Svarið liggur í snertifletinum sem við finnum við fólkið sem við lesum um í Biblíunni, við fólkið sem setti söguna sína í texta Biblíunnar og vitnar um leið um reynslu sína af því að vera manneskja í heiminum, að vera manneskja sem elskar, þráir, kreppist, óttast og missir, að vera manneskja sem trúir af því hún hefur reynslu af hinu heilaga sem birtist henni sem leiðarljós, fyrirheit um frelsi og frið.

Við þurfum að hafa í huga hvers konar textar eru í Biblíunni. Þar er að finna lagatexta. Þar er að finna ljóðræna texta. Þar er að finna sendibréf, þar er að finna sögulega texta. Þessir textar eru allir viðbrögð fólks við því sem Guð gerir og segir. Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga. Textar Biblíunnar eru mannleg viðbrögð við verkum Guðs.

Það að textar Biblíunnar eru ekki verk Guðs, heldur mannanna verk þýðir að ekki er allt í Biblíunni vitnisburður um hvað Guði er þóknanlegt. Ekki það hvernig Guðs útvalda þjóð brást við óvinum sínum eða þær reglur sem hún setti sér í umgengni og siðum. Ekki heldur allt sem postular Jesú setja í bréf sín til kristinna manna á fyrstu öldinni eftir að Jesús lifði.

En Biblían geymir sögu sem kristnir menn taka til sín með sérstökum hætti. Í henni heyrir kristið fólk Guð ávarpa sig. Þess vegna leitumst við við að vera opin fyrir því sem Guð vill segja okkur við lestur eða hlustun á þessum tetum sem eru skrifaðir af öðru fólki.

Sögunni sem Biblían geymir er miðlað á fjölbreyttan hátt því hún er hvorki einsleit í stíl né uppbyggingu. Ólíkt flestum öðrum bókum er Biblían ekki texti sem er lesinn frá upphafi til enda. Hún samanstendur af textum sem koma úr ólíkum áttum og urðu til á löngum tíma. Hver og einn kafli, hvert og eitt rit, er sjálfstætt verk þannig séð en aðferðafræði kristins fólks er að nálgast texta Biblíunnar í gegnum aðra texta hennar. Þannig er Biblían sjálf gleraugun sem við lesum hana með.

Þetta þýðir að við tökum Biblíuna ekki upp í leit að því sem Guð vill segja okkur og látum svo staðnæmast við það fyrsta sem við sjáum sem svar við knýjandi málum líðandi stundar. Þannig virkar það ekki. Tengsl hins trúaða og Biblíunnar eru allt önnur, miklu dýpri og flóknari.

Kannski getum við sagt að leið kristins fólks til að lesa Biblíuna sé að nota hana sjálfa sem gleraugu eða linsu. Þetta gerum við í hverri einustu guðsþjónustu eins og í dag. Þar eru lesnir tveir eða þrír textar úr Biblíunni, úr Gamla testamentinu og úr Nýja testamentinu. Að auki eru ótal vísanir í texta Biblíunnar í bænum safnaðarins og öðrum liðum messunnar.

Mikilvægasti textinn sem er lesinn í guðsþjónustunni er sóttur í guðspjöllin. Hann hefur sérstöðu því þar segir frá lífi og starfi Jesú. Iðulega geymir hann einnig einhver af orðum Jesú. Hinir lestrarnir sem eru lesnir í kirkjunni voru valdir með hliðsjón af guðspjallinu og efni þess.

Hver einasti helgur dagur ársins á sitt sett af lestrum. Og það er hugsað þannig að í öllum kirkjunum á Íslandi, séu sömu textarnir lesnir á sama degi.

Aðferðarfræði guðsþjónustunnar felst þannig í því að hlusta og meðtaka orð Biblíunnar úr fleiri en einni átt. Það er hlutverk prédikarans að túlka merkingu lestranna og tengja þá við líf og aðstæður þeirra sem hlusta. Og útgangspunkturinn er alltaf Jesús sjálfur og það sem hann segir og gerir. Það verður mælikvarðinn á allt sem við lesum í Biblíunni. Og margt í því sem Jesús segir, inniheldur “leiðréttingu” eða útskýringu á öðru sem stendur í Biblíunni. T.d. samtölin hans við fræðimennina um reglurnar í Mósebókum. Við munum eftir því þegar hann útskýrir hvers vegna það megi vinna kærleiksverk og hjálpa öðrum þótt það sé hvíldardagur. Það verður okkur sem lesum, hvatning til að meta það sem stendur í Biblíunni út frá skyldunni að elska náunga okkar. Ef það er eitthvað sem tekur okkur í aðra átt, getum við og eigum óhrædd og óhikað að þora að fara ekki eftir bókstafnum heldur breyta eins og Jesús myndi vilja að við gerðum.

Biblían er líka mkið barn síns tíma, og hennar tími var tími karlmannsins. Það sést vitaskuld fyrst og fremst í því hvað stór hluti hennar fjallar um karlmenn og gengur út frá samfélag þar sem karllæg gildi ríktu ofar öllu.

Á síðasta ári kom út bók eftir Lindsay H. Freeman um konur í Biblíunni og orðin sem eru höfð eftir þeim. Þar kemur fram 93 konur tala í Biblíunni. Af þeim eru 49 nefndar með nafni. Alls eiga þessar konur 14.056 orð (út frá enskri þýðingu) sem gerir u.þ.b. 1.1 % af orðum í Biblíunni.

Sumar konurnar eru vel þekktar eins og María móðir Jesú. Í bók Freeman kemur fram að hún eigi alls 191 orð í ritningunni. María Magdalena á 61 orð, en Sara, kona Abrahams segir 141 orð.

Höfundurinn bendir á að margar af þeim konum sem koma fyrir í Biblíunni hafa gengið í gegnum áföll og ofbeldi. Hún spyr sig hvort þöggunin sem beið þeirra bætist ekki ofan á það.

„Af einhverjum ástæðum hefur vitnisburður og reynsla kvenna verið sett skörinn lægra þegar kemur að trú, en það sem karlar hafa fram að færa“ segir Freeman. „Við erum loksins farin að leggja við hlustir þegar konur eru annars vegar.“

Biblíufræðingar taka undir þetta sjónarmið, því staðreyndirnar tala sínu máli. Miðað við þessar tölur er Biblían skrifuð af körlum og fyrir karla, þar sem rýmið er ekki mikið fyrir konur og reynslu þeirra. Lítil skref, eins og að lyfta upp þeim konum sem fá að tala í Biblíunni getur skipt sköpum í að gera trúarvitnisburðinn lifandi í lífi bæði karla og kvenna í dag.

Eitt af því áhugaverða sem bók Freemans leiðir í ljós er að Gamla testamentið, sem er sannarlega grjótharður vitnisburður um rótgróið feðraveldi, inniheldur fleiri orð kvenna en Nýja testamentið. Auðvitað er fleiri blaðsíðum til að dreifa, en það er líka umhugsunarvert að í 1. Mósebók er hlutfallið 11 konur á móti 50 körlum. Það er mun hagstæðara en heildarhlutfallið.

Biblían er fjársjóður á svo margan hátt. Hún er heldur ekki hafin yfir gagnrýni og í raun má segja að helsta viðfangsefni guðfræðinga sé að rýna í Biblíuna og reyna að fá hana meika sens! En það er ekki bara hlutverk guðfræðinga heldur okkar allra, og þannig getum við skilið dæmisöguna um sáðmanninn. Það fer nefnilega alveg eftir því hvernig við tökum á móti orðinu og túlkum það í okkar reynslu, hvað verður úr því í lífinu okkar. Það hugsum við um á biblíudaginn!