Hann mun boða þjóðunum frið

by Mar 22, 2016Blogg

Trump er maður fólksins, er haft eftir íslenskri konu sem býr og starfar í Oklahoma í Bandaríkjunum í einum af prentmiðlum helgarinnar. Það er mikill órói hér í Bandaríkjunum og fólk treystir ekki Washington en það virðist treysta Trump. Hann er ekki undir þumlinum á neinum, hvorki fjárhagslega né á annan hátt og þess vegna hefur hann þetta mikla fylgi. Fólk treystir því að hann geri það sem hann er að segja.

Þessi íslenska kona virðist tala fyrir munn margra Bandaríkjamanna því nú stefnir allt í að Trump verði frambjóðandi annars stóru flokkanna þegar kosið verður um forseta þessa öfluga ríkis seinna í ár. Það sem þessi “maður fólksins” hefur áttað sig á er gamall sannleikur og nýr, og sem samflokksmaður hans, Richard Nixon, orðaði svo vel á sínum tíma: Fólk bregst við því sem það óttast, ekki því sem vekur því kærleika. Þeir kenna þér það ekki í sunnudagaskólanum – en það er satt (People react to fear, not love. They don’t teach that in Sunday school, but it’s true.)

Hver tími á sinn ótta sem stjórnar ákvörðunum, pólitísku fylgi og efnahag. Sum okkar ólumst upp við sterka ógn af kjarnorkustríði, og vorum viss um að heimurinn myndi farast í stigvaxandi kjarnavopnaátökum þáverandi stórvelda. Það sem Trump hefur tekist að sannfæra landa sína sem fylgjast með átökum og flóttamannastraumi fyrir botni Miðjarðarhafs um, er að stærstu ógnina við frelsi þeirra og afkomu sé að finna í Bandaríkjunum sjálfum, í formi innflytjenda úr suðri og þeirra sem játa Islam, hvort sem þeir koma frá öðrum löndum eða búa í næstu götu.

Að höfða til ótta fólks um öryggi sitt og afkomu virðist vera að nýtast Trump til að fá fjöldann til að flykkjast um framboð sitt og öðlast nafnbótina maður fólksins. Og komist þessi maður fólksins til valda virðist hann ætla að beita verkfærum heimsveldisins til hins ítrasta. Heimsveldið treystir á vopn, hernað, efnahagslega yfirburði og vald, til að tryggja hagsmuni hins sterka, og lætur sér í léttu rúmi liggja mannhelgi og mannréttindi þeirra sem ekki passa inn í forgangsröðun þess. Það hirðir heldur ekki um afleiðingar stríðsrekstursins fyrir afkomu karla, kvenna og barna í löndum þar sem átök standa yfir, eða um áhrifin á jörðina og vistkerfið.

Aðferðir heimsveldisins ættu að vera okkur kunnugar því þær hafa verið fylgifiskur okkar um ómunatíð. Þær slá tóninn í guðspjalli pálmasunnudags, dagsins sem markar upphaf hinnar viðburðaríku og dramatísku dymbilviku þegar við fylgjum Jesú og lærisveinum hans í gegnum sársauka, svik og dauða, vonbrigði, ósigra og skipbrot.

Á þessari viku fylgjumst við með einstaklingum lúta í lægra haldi fyrir heimsveldinu og aðferðum þess. Við sjáum undirokaða þjóð, við sjáum samfélag sem stjórnast af ótta og ofbeldi, við sjáum grímulausa valdbeitingu hernaðarlegs stórveldis og harðneskjulega útilokun trúarleiðtoga. Við sjáum hvernig mannvirðing og reisn víkur fyrir skrílslátum og kerfisbundnu ofbeldi. Við sjáum hvernig lífsgleði, von um betra líf í frelsi, réttlæti og jöfnuði, er kramin af ofurefli valdsins á krossinum á Golgata.

En í dymbilvikunni sjáum við líka hið andstæða, við sjáum hugrekki, samstöðu, ást. Við sjáum fólk sem er tilbúið að leggja allt í sölurnar fyrir trúna á að kærleikur og friður sé sterkara afl í mannsálinni en ótti og ofbeldi. Við sjáum fólk sem er tilbúið að leggja allt undir fyrir þessa trú, sitt eigið orðspor, öryggi og líf. Við fáum að skyggnast inn í náin samskipti Jesú við þau sem hann elskaði, við sjáum sannar tilfinningar og sanna elsku, við sjáum óttaleysi við að hleypa Guði inn fyrir varnir og veggi og við sjáum það sem við þorðum ekki að trúa verða að veruleika. Hið óvænta stígur inn á sviðið.

STÓLVERS

Við erum stödd í þorpinu Betaníu, það eru sex dagar í páskahátíðina og fólk flykkjist að venju til Jerúsalemborgar. Það eru blikur á lofti. Mikið hefur gengið á en hér er Jesús staddur í húsi vina, sem hafa leikið stórt hlutverk í þjónustu hans og verið nærverandi á stórum stundum í lífinu. Þetta er heimili systkinanna Maríu, Mörtu og Lazarusar. Aðeins fáum dögum áður var þetta sorgarhús þegar systurnar fylgdu Lazarusi bróður sínum til grafar. Aðeins fáum dögum áður var þetta hús vettvangur hins stóra og öfluga tákns sem Jesús vann og sem vakti athygli almennings – og yfirvalda – á því sem hann var og því sem hann stóð fyrir.

Jesús hafði kallað Lazarus aftur til lífsins og í staðinn fyrir erfidrykkju er fjölskyldan samankomin í gleði og fögnuði yfir lífinu og því að fá að vera saman í eitt skipti enn. Jesús er með þeim og fjöldi annarra vina. Fólk sat til borðs, og heimilisfólk gekk um beina. Hér er öryggi og gestrisni við völd. Þetta er greinilega góð veisla þar sem fólk er farið að slaka á, gleymir óróa líðandi stundar og fer á trúnó. Deilir reynslu, vonum og vangaveltum með sessunaut sínum. Langþráð stund sem maður vonar að vari að eilífu. Maður fær að vera maður sjálfur, í öruggu umhverfi og lætur vaða – segir hluti sem kannski hafa kraumað undir yfirborðinu langa hríð eða sýnir atlot sem undir öðrum kringumstæðum hefðu aldrei flogið manni í hug.

Það var það sem María gerir. Í sögunni segir: “Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna.”

Það gerist stundum í veislum að einhver fer yfir strikið að mati þeirra sem fylgjast með. Hér er það María. Smyrslin sem hún velur að taka og nota til að smyrja fætur síns elskulega og kæra vinar eru yfirgengilega kröftug og allt of dýr til að nota í einu lagi. Við erum að tala um allt, allt of dýr. Verðmæti þeirra lá í árstekjum alþýðu manna. Við vitum ekki hvers vegna þessi smyrsl voru til taks fyrir Maríu, kannski var verið að geyma þau til að nota í eitthvað stærra og meira, kannski var fjölskyldan bara svolítið vel stæð og hafði efni á svona lúxus.

Hvað sem því líður er erfitt að komast hjá þeirri hugsun að þessi aðgerð Maríu hafi sprottið fram af djúpum og sterkum tilfinninum í garð mannsins sem hafði sýnt henni og fjölskyldu hennar svo mikinn trúnað og mikla ástúð. Nú vildi María endurgjalda það fyrir sína parta. Hún tók þessa miklu gersemi og notaði líkama sinn til að tjá ást sína, von og trú.

En það að spandera þessum smyrslum í eitt partý kallaði á sterk viðbrögð. Kannski var það líka þetta með hárið, síða hárið hennar sem hún notaði til að þerra og strjúka fætur Jesú. Og það stóð ekki á viðbrögðunum. Hvað er konan að gera? Hvers vegna sýnir hún þessa framkomu? Hefði ekki verið hægt að nýta þessi smyrsl betur? Af hverju lætur hún tilfinningarnar stjórna sér svona?

Þegar hér er komið sögu leiðir guðspjallamaðurinn aftur athygli okkar að yfirvofandi atburðum og svar Jesú kemur heim og saman við uppbyggingu sögunnar sem stefnir óðfluga að örlögum Jesú og því sem beið handan við hornið: komu Jesú til Jerúsalem, fögnuði fólksins og dauða Jesú. “Látið hana í friði, hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns – fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt”.

Svar Jesú um hin fátæku fær okkur til að staldra við. Hvernig eigum við að skilja þetta svar? Er hér sett fram hagfræðilegt lögmál um að aldrei takist að útrýma fátækt og því skipti svo sem litlu hvernig tilteknum verðmætum sé útdeilt?

Eða er hér dregið upp andsvar við því viðhorfi að allt sé reiknað út í krónum og aurum og metið út frá því? Er Jesús að segja að sumt í lífinu sé ekki metið til fjár og ekki til sölu? Að manneskjan sjálf, virði hennar og ástin sem hún er fær um að tjá og taka á móti, nái út fyrir alla útreikninga yfir landsins gagn og nauðsynjar?

Getur verið að hér sé hið raunverulega mótvægi við heimsveldið, auðvald og herstyrk þess? Getur verið að Jesús sé að benda á að þegar upp er staðið er kærleikurinn og náungaelskan óháð hagkerfi heimsveldisins sem byggir allt sitt á tvenndum eins og sterk-veik, rík-fátæk, gott-illt, við-hin?

Mér finnst þetta vera spennandi sjónarhorn á orð Jesú, ekki síst þar sem komandi atburðir halda áfram að snúa upp á ríkjandi gildismat og valdajafnvægi. Hann kemur til Jerúsalem með vinum sínum og mannfjöldinn safnast strax saman, fagnar honum með pálmagreinum og hrópar hósíanna, konungur Ísraels! En hann var ekki konungur. Hann var ekki kominn til að láta sverfa til stáls og steypa ríkjandi valdhöfum af stóli.

Nokkrum dögum eftir fagnaðarlætin var hann tekinn af lífi af heimsveldinu, á þann hátt sem það kunni best, með því að krossfesta glæpamenn og óróaseggi. Bæði vegna þess að það var trygg leið til að lífláta og hafði sannarlega viðvörunargildi. En krossinn, þetta tákn kúgunar og valdbeitingar heimsveldisins lifði síðan sem tákn um boðskap Jesú sem snýr á hvolf hugmyndum um í hverju styrkur og verðmæti liggur, sem lyftir upp manneskjunni og frelsi hennar til að fá að elska og lifa með reisn.

Hann mun boða þjóðunum frið, segir í lexíu dagsins sem við heyrðum áðan. Eini alvöru valkosturinn við heimsveldið og hernaðarstyrk þess er friður. Fyrir það stendur Jesús. Hann er maður fólksins, því leið hans sviptir burt ótta við náungann og afhjúpar tómleika og tilgangsleysi hernaðar og valdbeitingar. Þess vegna þurfum við ekki að óttast, heldur megum taka á móti konungi okkar sem kemur í nafni Drottins og boðar þjóðunum frið.

Prédikun á pálmasunnudag 2016