Lífið inni í þér

by Mar 22, 2016Blogg

Bókin Reviving Ophelia, sem Mary Pipher skrifaði fyrir rúmlega tuttugu árum, sló í gegn og er ennþá mikið lesin og notuð í umræðunni um líðan og aðstæður ungra stúlkna og kvenna. Titillinn vísar auðvitað til hinnar ungu Ophelíu í leikritinu Hamlet eftir Shakespeare, sem hefur orðið nokkurs konar erkitýpa fyrir togstreitu umhverfisins sem ungar konur verða fyrir þegar kynverund þeirra kviknar og fullorðinsárin taka við.

Bók Mary Pipher leggur út af hinum döpru örlögum Ophelíu og heimfærir þau á það álag og þrýsting sem brýst út í lífi ungra kvenna í formi átraskana, þunglyndis, fíkna og fleiri einkenna vanlíðunar og meðvirkni. Það sem er fallegt við nálgun Pipher, finnst mér, er áhersla hennar á að hjálpina í þessum erfiðu aðstæðum sem ungar konur upplifa, er að finna í nánu tengslunum í lífi þeirra, styrkurinn í aðstæðunum liggur í tengslum við t.d. foreldra og vini, eins flókin og erfið þau tengsl geta líka verið.

Við íhugum í dag sögu annarrar ungrar konu, Maríu, sem Gabríel erkiengill segir að “njóti náðar Guðs” og að “Guð sé með henni”. Og frænka hennar, Elísabet, segir að hún sé blessuð meðal kvenna – að hún sé í raun og veru fremst í flokki kynsystra sinna. Og við heyrum líka Maríu orða þetta á mjög sjálfsmeðvitaðan hátt þegar hún segir: “héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja, því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört”.

Boðunardagur Maríu er sérstakur dagur í kirkjunni og hann er auðvitað haldinn hátíðlegur til að fjalla um undur og kraftaverk holdtekningarinnar, þess að Guð gerist manneskja og tekur á sig kjör og örlög mannsbarnanna. Sagan um engilinn og Maríu er umbúnaður þess sem koma skal, þess að Jesús fæðist og gengur inn í hlutverkið að þjóna og frelsa.

Sagan um ungu stúlkuna Maríu sem er ógift og óspjölluð og hrein mey og allt það, er margslungin og gefur meðal annars tilefni til að velta upp aðstæðum stúlkna sem eru settar undir móðurhlutverkið án þeirra vilja. Í samtímanum skýtur umræðan um þunganir, óskaðar og óvelkomnar, iðulega upp í samhengi við sjálfsákvarðanarétt kvenna yfir líkömum sinna. Í því samhengi getum jafnvel spurt okkur mjög krefjandi spurninga um söguna af Maríu – t.d. hvað hefði gerst ef hún hefði bara sagt nei við engilinn? Takk, sama og þegið, ég ætla ekki að bera þetta barn í heiminn, takk fyrir gott boð!

En það sem mig langar að skoða með ykkur í dag er hvernig við getum móttekið þessa sögu sem tákn um okkar eigin köllun, að taka á móti og fóstra nýtt líf, líf sem er merki um blessun Guðs og líf sem er lifað í náð. Eins og María. Blessuð er hún sem nýtur náðar Guðs. Drottinn er með henni.

Þetta er staða sem við öll myndum líklega vera í – að vera blessuð og njóta náðar Guðs. En hvernig ætli þetta hafi lagst í Maríu sjálfa þegar hún fékk fréttirnar um litla barnið sem hún bar undir belti, ung og ógift, og örugglega vakið athygli samferðafólks síns fyrir einmitt það. Og hvernig ætli það hafi verið fyrir hana að unnusti hennar Jósef tók sér tíma til að velta fyrir sér hvort hann gerði ekki réttast í því að slíta trúlofuninni og forða sér þannig úr þessum vandræðalegu aðstæðum?

Og hvernig kemur þessi náð og blessun heim og saman við að þurfa svo að eignast þetta barn í fjárhúsi og leggja það í jötu? Eða það að þurfa að taka þetta barn og leggja á flótta til að bjarga lífi þess? Og svo að fylgjast með syni sínum uppkomnum, vera handtekinn, misþyrmt og tekinn af lífi? Hvar er blessunin í því?

Getur þetta þýtt að þó við njótum náðar Guðs og blessunar í lífinu, þá sé lífið ekki endilega leikandi létt og eintóm hamingja? Getur sagan hennar Maríu sýnt okkur að náð og blessun Guðs sé einmitt ekki velgengnisverðlaun fyrir að haga sér rétt eða trúa réttu hlutunum?

Féll náðin og blessunin Maríu í skaut vegna þess að hún hlýddi orðum engilsins og sagði “já” – eða gat hún sagt jáið vegna þess að hún naut þessarar náðar?

Ég held að það sé mikilvægt í sögunni hennar Maríu að við skiljum þetta sambandleysi blessunar Guðs og þess að hamingja og farsæld sé stöðugur förunautur okkar í lífinu. Með öðrum orðum, þá getum við ekki lagt mat á hvort við njótum náðarinnar út frá því sem hendir okkur á lífsleiðinni. Þegar við göngum í gegnum erfiða hluti í lífinu, þegar við verðum fyrir sorg, vonbrigðum og missi, gæti það verið freistandi að draga þá ályktun að við njótum eftir allt saman ekki náðar og lífið okkar sé laust við alla blessun.

Sagan hennar Maríu kennir okkur hins vegar að líta lengra og dýpra eftir merkingu lífsins en á atburði líðandi stundar og það sem við þurfum að ganga í gegnum á hverjum tíma. Hún kennir okkur að líta inn á við og uppgötva Guð í okkar eigin veru og í djúpi okkar eigin sálar.

Í djúpi okkar sjálfra býr grundvallartraustið sem hjá Maríu lýsir sér í því að hún gat sagt já við verkefninu sem henni var falið og líf hennar átti að snúast um. Þar er traustið til þess að náð og blessun Guðs sé stærri en það sem við náum utan um með okkar eigin skilningi og stærri en það sem við getum séð og skynjað.

Þegar María spyr engilinn “hvernig má þetta verða?” upplifir hún þetta traust að Guð sé á bak við það sem hún er að upplifa, þótt hún sjálf sé ekki í þeirri stöðu að skilja það sem er að koma fyrir hana.

Og lífið sem kviknar í líkama Maríu er líka tákn fyrir að það er innra með okkur sem Guð býr og starfar. Það er innra með þér sem hið heilaga verður til og vex og dafnar, það er ekki einhvers staðar fyrir utan þig eða í atburðum sem henda þig.

Eins og María njótum við náðar Guðs. Nafnið þitt er blessað. Það er það sem þú ert. En kannski þurfum við að líta dýpra og meira inn á við í staðinn fyrir að láta ytra áreiti og áföll skilgreina upplifun okkar á því hvort blessunin nái til okkar yfirhöfuð.

Innra með okkur getur nýtt líf kviknað, umbreytt af náð og blessun, líka þegar við vitum ekki hvernig það á að geta gerst. Hvernig má þetta verða, spyrjum við kannski, eins og María þegar hún fékk sínar fréttir af lífinu sem var innra með henni, og skildi ekki hvernig það gerðist. Þótt við skiljum ekki eða vitum ekki, þá er Guð að verki innra með okkur, djúpt í okkar eigin sjálfi, og skapar nýtt líf þar sem við vorum viss um að ekkert myndi vaxa. “Guði er enginn hlutur um megn” segir engillinn við Maríu. Og eins og María fáum við þau skilaboð að innra með okkur, djúpt í sálinni, finnum við þetta nýja líf. Það er þangað sem við eigum að beina sjónum okkar, það er þaðan sem traustið og trúin á náðina og blessunina vex.

Við hugleiðum með Maríu þessa kveðju engilsins, þetta tilboð um að líta inn á við, þar sem lífið nýja verður til. Það gerist meðvitað, það gerist með því að opna sig og leggja niður varnirnar sem maður kemur sér upp til að geta fást við allt það erfiða og krefjandi sem reynum í lífinu.

Þess vegna er ekki rétt að líta á viðbrögð Maríu við boðskap engilsins sem viðbrögð þolanda sem engu fær ráðið um eigin örlög. Þar skilur á milli þeirra Maríu og Ophelíu Shakespeares. Boðskapur engilsins um barnið sem hún mun ala, er líka boðskapur til okkar um taka á móti náð Guðs í okkar eigin lífi og vera þannig þátttakendur í að leyfa henni að móta okkur. Að leyfa blessun Guðs að bera okkur í áfram, í hverju svo sem við lendum í á lífsleiðinni.

Þetta var það sem mig langaði að hugleiða með ykkur í dag. Og þetta verður áskorunin til okkar, að líta inn á við, sjá og finna lífið sem Guð ætlar okkur. Og treysta því að hvað sem á dynur, þá njótum við náðar Guðs og þess vegna erum við sæl.

Dýrð sé Guði, föður syni og heilögum anda. Amen.

Prédikun flutt á boðunardegi Maríu 2016