Bænadagur, maístjarna og list án landamæra 1. maí

by Apr 27, 2016Blogg, Forsíðufrétt, Sunnudagurinn

1. maí er sunnudagur í ár og að sjálfsögðu minnumst við þess í guðsþjónustu dagsins sem er kl. 11. Þennan dag minnumst við líka bænadagsins og gleðidagar páskahátíðarinnar halda áfram.

í messunni þjóna sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir sóknarprestur, sem prédikar, messuþjónar og kór Laugarneskirkju undir stjórn Arngerðar Maríu Árnadóttur tónlistarstjóra.

Einnig ávarpar söfnuðinn, Jóhanna María Eyjólfsdóttir, formaður samtakanna Pieta á Íslandi, sem eru forvarnarsamtök gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Samtökin, sem voru stofnuð fyrr á þessu ári, standa fyrir táknrænum gjörningi í byrjun maí í Laugardalnum, og fáum við að heyra meira um það.

Eftir messuna verður opnuð lítil listsýning undir merkjum Listar án landamæra. Það er listakonan Frida Martins sem hefur veg og vanda af sýningunni, sem er helguð samskiptum í ólíkum myndum og hvernig við náum saman yfir landamæri tungumáls og skilnings.

Barnastarfið verður á sínum stað og þar ríkir að vanda gleði og mikill söngur undir stjórn Hjalta Jóns og lærisveinanna hans.

Myndin er vatnslitamynd eftir Fridu Martins og verður á sýningunni sem opnar 1. maí í Smugunni í safnaðarheimili Laugarneskirkju.