Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“

Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“
(Mrk.12:28-34)

Við komum saman í kirkjunni til guðsþjónustu sunnudaginn næstkomandi, 25.september, kl.11:00. Þá fögnum við árlegum viðburði okkar, Regnbogamessunni, en þetta verður í fjórða sinn sem hún verður haldin. Guðspjallstexti dagsins, úr Markúsarguðspjalli, á vel tilefnið þar sem við komum saman til þjónustu við Guð og leggjum sérstaka áherslu á að fagna litrófi lífsins og fjölbreytileikanum öllum.

Arngerður María Árnadóttir, tónlistarstjóri kirkjunnar, leiðir tónlistina ásamt Hinsegin kórnum sem syngur undir stjórn Helgu Margrétar Marzellíusardóttur.
Þá verður Hjalti Jón Sverrisson með hugleiðingu og mun, ásamt messuþjónum kirkjunnar, leiða þjónustuna.

Sunnudagaskólinn verður á sínum stað og munu Bella, Hrafnkell, Gísli og Viktoría leiða börn og foreldra á vit ævintýranna.
Að stundinni lokinni verður boðið upp á messukaffi sem fer vel með hlýju og nærandi jafningjasamfélagi.