Æskulýðsfélagið Týrannus á Landsmóti ÆSKÞ

by Oct 26, 2016Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt

Síðastliðna helgi hélt æskulýðsfélagið okkar, Týrannus, á Landsmót ÆSKÞ sem haldið var á Akureyri þetta árið. Það var góður hópur unglinga úr 8.b. og eldri sem fór úr Laugarnesinu á þessa hátíð, einn alstærsta viðburð Þjóðkirkjunnar á hverju ári þar sem koma saman ungmenni af öllu landinu. Í aðdraganda mótsins hafði hópurinn safnað fötum sem nýst gætu flóttafólki og voru í framhaldinu afhent Hjálparstarfi Kirkjunnar. Eftir rútuferð frá Digraneskirkju til Akureyrar tók við skemmtileg og fjölbreytt dagskrá en boðið var á föstudagskvöldinu meðal annars upp á sundlaugarpartý, lofgjörðarstund, spilakvöld og hressilega kvöldvöku.
Laugardagurinn var uppfullur af ævintýrum, meðal annars ratleik sem hópurinn úr Laugarnesinu var sérstaklega ánægður með. Þá fengu krakkarnir að þræða götur Akureyrar og spreyta sig á ýmsum þrautum. Fræðslustundin á laugardeginum var ekki síður eftirminnileg en þema fræðslunnar í ár bar heitið Flóttafólk & Fjölmenning. Þar stigu meðal annars á svið Muhammed Emin Kizilkaya, danskur múslimi sem býr hér á landi og starfar með samtökunum Horizon sem bæta sér fyrir aukinni samræðu milli ólíkra trúar- og menningarhópa, og þau Reem Khattab al Mohammad og Khattab al Mohammad, flóttafólk frá Sýrlandi sem nú er búsett á Akureyri. Þau greindu meðal annars frá stöðunni í heimaborg sinni, Aleppo, og töluðu um samlíf kristinna og múslima í Sýrlandi í aldanna rás.
Dagskrá mótsins endaði á sunnudeginum með messu í Akureyrarkirkju og svo hélt lúinn en glaður hópur heim á leið eftir viðburðarríka helgi. Það var virkilega gott að vera á Akureyri en á nú má láta sér fara að hlakka til þess að heimsækja Selfoss á næsta ári, en Landsmót ÆSKÞ 2017 verður haldið á Selfossi.