Fræðslukvöld á föstu

by Mar 24, 2017Blogg, Forsíðufrétt, Sunnudagurinn

Áhugi íslendinga á að rækta sitt andlega líf, til að mynda með leiðum íhugunar, hugleiðslu og bænar, er æ sýnilegri. Leiðirnar sem hægt er að feta eru margar og hverjum og einum það vafalítið hollt að máta sig áfram í vaxtarrækt andans.
Þriðjudagskvöldin 28. mars og 4. apríl verður boðið upp á fræðslukvöld í Laugarneskirkju fyrir alla þá sem hafa áhuga á að finna leiðir til að dýpka og hlúa að andlegu lífi sínu í hversdagsins önn. Stundirnar hefjast 19:30 og eru opnar öllum.

Þann 28. mars mun sr. Bjarni Karlsson fræða um Pílagrímafélagið.
,,Aðalhlutverk pílagrímafélagsins er að hjálpa hvert öðru að lifa ósviknu andlegu lífi. … Tveir eða þrír af sama kyni hittast reglulega til að iðka þrjár heilagar venjur: Biblíulestur, heiðarlegt samtal og fyrirbæn fyrir öðrum.” (http://www.lifequalitynetwork.org/p-lagr-maf-lagi-)

Þann 4. apríl verður það sr. Grétar Halldór Gunnarsson sem kemur til með að segja frá kristilegri íhugun, en Grétar er formaður Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi.
Þessi íhugun, kyrrðarbæn eins og hún er kölluð á íslensku (Centering Prayer á ensku), er í kjarna sínum orðlaus bæn þar sem manneskjan mætir Guði hið innra og hlustar eftir anda hans. Á meðan hefðbundin bæn, sem flestir þekkja, felur það í sér að við séum sífellt að tala við Guð þá má segja að í íhugunarbæninni þá þögnum við og leyfum Guði að komast að.