Við njótum öll góðs af því að líta inn á við, rækta kyrrðina og sækja aukinn styrk til þess að mæta daglegu lífi.
Í vetur verður boðið upp á Kyrrðarbæn frá kl.19:30 – 20:00 á þriðjudagskvöldum í kirkjunni.
Frá kl.20:00 – 21:10 verður í boði hópastarf í safnaðarheimili kirkjunnar. Unnið verður í anda Pílagrímaaðferðarinnar.
Kyrrðarbæn og aðferð Pílagríma eru leiðir sem henta vel þeim sem hafa stundað 12 sporastarf og vilja víkka iðkun sína á 10. og 11. sporinu. Starfið hentar einnig þeim sem ekki hafa reynslu af 12.Sporastarfi.
Kyrrðarbæn (e. Centering Prayer) er íhugunaraðferð sem byggir á aldagamalli hefð. Hún felur í sér bæn án orða og innra samþykki iðkandans til að þiggja nærveru Guðs og starf hans hið innra. (https://kristinihugun.is/tag/kyrrdarbaen/)
Pílagrímafundirnir byggja á aðferð sem dr. Greg Aikens og sr. Bjarni Karlsson hafa þróað þar sem markmið þátttakenda er að styðja hvern annan í því verkefni að lifa ósviknu andlegu lífi. Í viku hverri setjast saman félagar og eiga samtal og sjálfsskoðun á jafningaforsendum eftir ákveðinni forskrift. Pílagrímasamfélagið byggir á þremur heilögum venjum: Biblíulestri, heiðarlegu samtali og fyrirbæn.
Frekari upplýsingar veitir Hjalti Jón Sverrisson: hjaltijon@laugarneskirkja.is
Við undirbúum okkur fyrir hverrja viku með því að lesa sérvalinn ritningatexta. Í hverri viku svörum við Pílagrímaspurningunum 7. Einnig svörum við sporaspurningu vikunar. Eitt spor fyrir hverja viku. Gott að svara henni skriflega.
Pílagrímaspurningarnar 7:
- Hefur þú fundið Krist að verki í lífi þínu síðustu daga? Viltu útskýra?
- Hefur það skilast til þín í þessari viku að þú ert elskað Guðs barn? Viltu segja frá?
- Náðir þú að lesa og hlusta eins og til stóð?
- Hvað heldur þú að Guð sé að kenna þér?
- Þarftu að játa einhverja synd? Þ.e.a.s. eru einhver atriði í lífi þínu sem standa á milli þín og Guðs, fjarlæga þig vilja hans og skemma tengsl þín við sjálfa(n) þig og aðra?
- Hvernig ætlar þú að bregðast við þinni bestu vitund?
- Hefur einhver séð Krist í þér s.l. viku? Hefur einhver fundið á eigin skinni að þú sért vinur og nemandi Jesú?
Vika 1. 20. febrúar. Lestur: Markúsarguðspjall 13.-14. kafli
1. Sporið. Spurning vikunnar: Hvar er það helst í lífinu sem þér finnst þú hafa misst tökin?
Vika 2. 27. febrúar Lestur: Sálmarnir 40.-43.
2. Sporið. Spurning vikunnar: Hvað hindrar þig í að trúa því innilega að máttur þér æðri geti gefið þér heilbrigði á ný?
Vika 3. 6. mars Lestur: Matteusarguðspjall 13.-15. kafli
3. Sporið. Spurning vikunnar: Hvaða atriði í lífi þínu urðu til þess að þú vissir að þú yrðir að afhenda vilja þinn og líf handleiðslu Guðs?
Vika 4. 13. mars Lestur: Lúkasarguðspjall 12.-15. kafli
4. Sporið. Spurning vikunnar: Hvernig kemur stolt þitt í veg fyrir að þú sért hreinskilin(n) við sjálfa(n) þig?
Vika 5. 20. mars Lestur: 1. Mósebók 37.-43. kafli
5. Sporið. Spurning vikunnar: Hvaða yfirsjónir eru það sem þig langar mest til að segja einhverjum frá?
Vika 6. 27. mars Lestur: Fyrri Samúelsbók 1.- 5.kafli
6. Sporið. Spurning vikunnar: Hvaða brestir eru enn að tefja fyrir þér í bata þínum?
Vika 7. 3. april Lestur: Jóhannesarguðspjall 7.-9. kafli
- Sporið. Spurning vikunnar: 7. Sporið. Spurning vikunnar: Skráðu/ segðu frá að hvaða leyti þú finnur fyrir hindrunum varðandi þann árangur sem hefur náðst við að fjarlægja bresti þína?
Vika 8. 10.apríl Lestur: Harmljóðin 1.-3. kafli
- Sporið. Spurning vikunnar: Hvers vegna er það að fyrirgefa sér mikilvægur þáttur í að bæta fyrir brot sín?
Vika 9. 17. apríl Lestur: Hið almenna bréf Jakobs 1.-5. kafli
- Sporið. Spurning vikunnar: Þegar þú bætir fyrir brot þín og lagfærir þann skaða, sem þú veldur/ ollir, fær sjálfsmynd þín að vaxa. Hvernig líður þér þá með sjálfa(n) þig.
Vika 10. 24.apríl Lestur: Orðskviðirnir 7.-10. kafli
- Sporið. Spurning vikunnar: Hvaða nýi styrkleiki hefur komið í ljós hjá þér vegna nýlegrar reynslu?
Vika 11. 1.maí Lestur: Prédikarinn 9.-12. kafli
- Sporið. Spurning vikunnar: Hvað finnst þér um líf þitt í dag? Hvernig hafa gæði og innihald lífsins batnað vegna andlegrar vinnu þínnar?
Vika 12. 8.maí. Lestur: Jónas 1.-4. kafli
- Sporið. Spurning vikunnar: Á hvern hátt hefur Guð gefið þér styrk og færni til að deila reynslu þinni af andlegri vinnu og tólf sporunum með öðrum?