Það er fjall í Laugarneskirkju – Hugvekja í tilefni æskulýðsdagsins

by Mar 11, 2018Blogg

Hugvekja flutt 11.03.2018 af Hjalta Jóni Sverrissyni, æskulýðsfulltrúa Laugarneskirkju.

Kæru vinir, ég heilsa ykkur í Jesú nafni.

Í safnaðarheimili Laugarneskirkju er fjall.
Í safnaðarheimili Laugarneskirkju er fjall sem Harðjaxlar, sem eru í 5.-6.bekk byggðu, meðal annars með það að markmiði að gleðja yngri börn sem kæmu í kirkjuna.
Það var þó strax ljóst að þetta fjall myndi gleðja fleiri en þau yngstu, því fyrstu vikurnar eftir að fjallið var tilbúið gat ég sjálfur ekki gengið framhjá því án þess að skælbrosa, í hvert einasta sinn.
Að í safnaðarheimilinu sé fjall byggt af ungum og skapandi höndum segir okkur sögu um samfélagið sem kirkjan í Laugarnesinu er.

Hér ríkir menning sem teygir sig áratugi aftur. Menning þar sem börn og unglingar hafa rödd, skipta máli og starf þeirra þykir ekki annars flokks eða aukaatriði. Ég hef á undanförnum árum hitt fólk sem rifjar það upp að hafa verið fyrir margt löngu í æskulýðsstarfi hjá sr. Garðari Svavarssyni í gamla hluta safnaðarheimilisins, litlu rými þar sem var oft hlegið mikið og er raunar enn.

Hér ríkir menning þar sem áhersla er lögð á að hinar ólíku kynslóðir nái saman. Þar sem við komum saman og erum fólk. Öll hálf áttavillt að finna út úr því hvernig er að vera að fólk, hvað sé fólgið í því. Og við reynum að finna út úr því í sameiningu.

Hér ríkir menning þar sem við leitumst við að meðtaka hið heilaga, innra með og ytra, á jafningjagrundvelli.  Á þeim árum sem ég hef starfað í Laugarneskirkju hef ég lært hvernig hið heilaga birtist hljótt og hversdagslega.
Hvernig það megi ganga að því jafn vísu og kirkjudjúsglasi eftir sunnudagaskóla, jafn vísu og vinaspjalli í messukaffi.
Hið heilaga birtist þar sem við sitjum saman í æskulýðsstarfinu niðrí safnaðarheimili og segjum hvort öðru frá meistaraverkum okkar og mistökum.

Í dag fögnum við æskulýðsdegi Þjóðkirkjunnar og við fögnum því að tilheyra samfélagi sem gefur. Í viku hverri koma hingað ungmenni á öllum aldri og gefa gjafir, flestar óafvitandi.
Gjafir nærveru. Gjafir sem margfaldast.
Það er vel við hæfi að það sé ungmenni í guðspjalli dagsins sem gefur gjöfina sem mettar allan þennan fjölda.

Lærisveinninn Andrés kemur til Jesú og segir frá piltunum sem hefur fimm byggbrauð og tvo fiska að gefa. Nafnið Andrés er grískt og þýðir maður. Sá mannlegi. Andrés og pilturinn í sögunni gera enda það sem er svo mannlegt. Þeir gefa af því sem til er.
Við sem störfum við æskulýðsstarf fáum að sjá og kynnast því hvað þetta virðist manneskjunni eðlislægt; að gefa af því sem hún á til.

Mín reynsla af krökkunum sem hingað koma er að þau gefa með hjartanu.
Þessar gjafir eru brauðin og fiskarnir sem fjallað er um í þessari sögu.
Þetta er næring andans og enginn fer svangur heim.
Fyrir þetta er ég þakklátur.

Á hverjum degi gefst okkur tækifæri til að iðka þakklæti.
Við sjáum í guðspjalli dagsins orðalagið ,,gerði þakkir”. Jesús iðkar þakklæti sitt, gerir þakkir og blessar brauðin. Svo gefur hann áfram til hvers sem svangur er.
Þetta orðalag, ,,gerði þakkir”, þekkjum við annars staðar frá. Það birtist okkur í Lúkasarguðspjalli þar sem segir frá hinni heilögu kvöldmáltíð.
,,Og hann tók brauð, gerði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: Þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefinn. Gerið þetta í mína minningu.” (Lúk.22:19)

Það er ekki margt sem Kristur kallaði okkur til þess að gera. Enda hefur kirkjan allsstaðar um heim verið að flækjast með þetta meira eða minna undanfarin 2000 ár. Við verðum vör við þetta stöðuga verkefni strax í bréfum Páls Postula.
Við vitum ekki um margt sem Kristur kallaði okkur til þess að gera en við vitum að hann óskaði þess að við tækjum skírn og hann óskaði þess að við kæmum saman sem vinir; að við borðum saman og gerum þakkir.
Þegar við iðkum þakklæti í lífum okkar áttum við okkur líka á því að þakklæti er ekki aðeins tilfinning, þakklæti er framkvæmd.
Stundum getum við þurft að iðka þakklæti okkar án sérstakrar þakklætis- eða gleðitilfinningar. Horfum til síðustu kvöldmáltíðarinnar, en eftir hana heldur Jesú í grasagarðinn að biðjast fyrir. Angistarfullur, kvíðinn, hræddur, sorgmæddur.
Það minnir okkur á að við sjáum í persónu Jesú Krists myndina af sönnum Guði og sönnum manni. Hið sanna er að meðtaka sig í heild, gangast við manneskjunni.
Og hvar fær maður hugrekki til þess að meðtaka sig og til þess að rækta þakklæti þrátt fyrir erfiðar aðstæður?
Ég trúi því að það sé í gegnum tengslin okkar. Við Guð, við okkur sjálf og við hvort annað. Það kemst enginn aleinn í gegnum þetta.

Við þökkum í dag gjafirnar sem börnin og unglingarnir gefa starfinu okkar hér í Laugarnesinu og um land allt. Við þökkum fyrir vonina sem við eigum fyrir lífum þeirra, fyrir nútíð þeirra og framtíð. Við þökkum fyrir hugrekkið sem við höfum til þess að halda með ungu fólki sem er að mótast, uppgvötva heiminn og sjálf sig. Við þökkum fyrir hláturinn og heimskulegheitin. Við þökkum fyrir meistaraverkin og mistökin. Við gerum það í framkvæmd.
Við þökkum fyrir Guð, sem er með okkur hér.
Amen.

Guðspjall dagsins: Jóhannesarguðspjall 6:1-14.
1 Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. 2 Mikill fjöldi manna fylgdi honum því þeir sáu þau tákn er hann gerði á sjúku fólki. 3 Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum. 4 Þetta var laust fyrir páskahátíð Gyðinga. 
5 Jesús leit upp og sá að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: „Hvar eigum við að kaupa brauð svo að þessir menn fái mat?“ 6 En þetta sagði hann til að reyna hann því hann vissi sjálfur hvað hann ætlaði að gera. 
7 Filippus svaraði honum: „Brauð fyrir tvö hundruð denara[ nægðu þeim ekki svo að hver fengi lítið eitt.“ 8 Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann: 9 „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska en hvað er það handa svo mörgum?“ 
10 Jesús sagði: „Látið fólkið setjast niður.“ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. 11 Nú tók Jesús brauðin, gerði þakkir og skipti þeim út til þeirra sem þar sátu og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. 12 Þegar fólkið var orðið mett segir Jesús við lærisveina sína: „Safnið saman leifunum svo ekkert spillist.“ 13 Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm sem af gengu hjá þeim er neytt höfðu. 
14 Þegar menn sáu táknið, sem hann gerði, sögðu þeir: „Þessi maður er sannarlega spámaðurinn sem koma skal í heiminn.“