Kirkjan í skjól

by Sep 11, 2018Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir

Reykjavík, 11. september 2018

Kæru íbúar í Laugarnessókn,

Sóknarnefnd Laugarneskirkju ber samkvæmt lögum nr. 78/1997 ábyrgð á að „annast rekstur og framkvæmdir á vegum sóknarinnar og styðja við kirkjulegt starf í sókninni ásamt sóknarpresti og starfsmönnum sóknarinnar“. Allur rekstrarkostnaður kirkjunnar, þ.m.t. rekstrarkostnaður hússins, viðhald húss og lóðaumhirða, öll aðföng og laun allra starfsmanna kirkjunnar nema sóknarprests eru á ábyrgð sóknarnefndar. Tekjurnar koma frá sóknargjöldum sem nægja ekki til að standa straum af viðhaldi og rekstrarkostnaði. Laugarneskirkja, sem teiknuð er af Guðjóni Samúelssyni og var vígð árið 1949, er merkilegt hús í menningar- og sögulegu samhengi. Varðveisla og viðhald slíkrar byggingar krefst töluverðra fjármuna sem hafa fengist með styrkjum en ekki dugað til að leysa þann bráðavanda sem blasað hefur við undanfarin ár. Vegna þessa skorts á fjármunum til viðhalds hefur ekki tekist að verja húsið nægilega gegn veðri og vindum. Grunur leikur á að þrálátur vatnsleki hafi átt þátt í að orsaka takmörkuð loftgæði innanhúss. Í ljósi þess að hætta er á að skert loftgæði geti haft áhrif á heilsu og líðan starfsfólks og gesta hússins, þá sér sóknarnefnd sér ekki annað fært en að takmarka notkun kirkjunnar eins mikið og mögulegt er á meðan unnið er að viðhaldi og frekari rannsóknum í samstarfi við fagaðila.

Messur, guðsþjónustur og sunnudagaskóli á sunnudögum verða þó á sínum stað eftir sem áður, einnig verða samverur og athafnir, s.s. fastir fundir, útfarir, brúðkaup og skírnir haldnar í kirkjunni. Við búum í hverfi sem einkennist af samstöðu og samheldni og því höfum við fengið aðstöðu fyrir hópastarf kirkjunnar í hinum ýmsu stofnunum hverfisins. Þar á meðal fermingarfræðsluna, starf æskulýðsfélagsins, starf með eldri borgurum, börnum og ungmennum, auk þess hefur kór Laugarneskirkju fengið æfingaraðstöðu í Áskirkju. Foreldrar, forráðamenn, börn, ungmenni og aðrir þátttakendur í hópastarfi fá nánari upplýsingar um fyrirkomulag starfsins á vefsíðu kirkjunnar, www.laugarneskirkja.is og á Facebook síðu kirkjunnar,  https://www.facebook.com/laugarneskirkja/

Undirrituð hefur margoft orðið vitni að því undri sem á sér stað þegar manneskjur koma saman í kærleika og samkennd í Laugarneskirkju. Kirkjan er skýli fyrir okkur öll til að koma saman, veita hvert öðru stuðning, kærleika og virðingu af fordómaleysi og auðmýkt.

Nú er kominn tími til að hlúa að kirkjunni okkar svo hún geti áfram verið okkur skjól.

F.h. sóknarnefndar Laugarneskirkju,
Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir, formaður