Sunnudagurinn 14. október er stór dagur fyrir Laugarnessókn, þá verður Hjalti Jón Sverrisson vígður en hann hefur verið skipaður prestur í Laugarnesprestakalli. Þar með höfum við aftur tvo presta starfandi við sóknina. Hjalti hefur gengt starfi æskulýðsfulltrúa Laugarneskirkju síðastliðin fimm ár, undanfarin tvö ár hefur hann sinnt sálgæslu í Hátúni 10 ásamt ótal öðrum verkefnum. Hjalti Jón lauk mag.theol prófi frá guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands í febrúar á þessu ári. Við teljum okkur afskaplega heppin að fá Hjalta í prestsþjónustu en hann hefur sinnt ómetanlegri þjónustu við fólk á öllum aldri hér í hverfinu og mun halda því áfram.

Athöfnin fer fram í Dómkirkjunni klukkan 11 þar sem biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir vígir tvo guðfræðinga til prests og er hún öllum opin.

mynd: siggaella