Apagildran og þolinmæðisverkin

by Nov 26, 2018Blogg, Forsíðufrétt, Pistill, Prédikun

Prédikun flutt í Laugarneskirkju, 25.11.2018

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ég hef verið að hugsa um apagildruna, sem meðal annars er sagt frá í bókinni „Zen og listin að viðhalda vélhjólum“ eftir Robert Pirsig.
Sagan segir að sumstaðar í Asíu tíðkist það að veiða apa með því að setja hnetu í krukku með opi sem er það lítið að hnetan komist ekki í gegn.
Þegar apinn stingur hendinni inn, hugsandi sér gott til glóðarinnar, festist hann í krukkunni með krepptan hnefa utan um hnetuna. Hann er fastur, því hann vill ekki sleppa.
Þetta gerir það að verkum að veiðimaðurinn getur náð honum.

Allt sem apinn þyrfti að gera til að vera frjáls er að sleppa tökunum.
En hann getur ekki hugsað sér það og er því fangi.

Hvar í lífum okkar eigum við erfitt með að sleppa tökunum?
Hvar erum við í fjötrum?

Það er sammannlegt að við eigum erfitt með að sleppa tökunum af gildismati okkar, jafnvel þegar það hefur sýnt sig að vera óþarft eða hreinlega skaðlegt.
Þannig höldum við okkur oft við hegðunarmynstur sem þjóna okkur ekki lengur, varnarhætti sem eftilvill reyndust eitt sinn gagnlegir en eru orðnir úr sér gengnir.

Við förum í vörn, því engum langar að virðast veikur fyrir.
Enda lifum við enn í menningu sem svo oft upphefur hugmyndina um hinn sterka.
Hugmynd og gildismat sem Jesús frá Nasaret vildi skora á og kallar okkur til þess að endurmeta í guðspjalli dagsins.

Við óttumst svo oft að virðast ekki sterk, við óttumst berskjöldun, rannsóknir hafa sýnt að við óttumst höfnun og félagslega útskúfun jafnvel meira en dauðann.
Þróunarsaga mannsins á sinn þátt í að útskýra þetta. Við lærðum sem tegund hratt og örugglega að okkur væri best borgið ef við störfuðum saman í hópum, því Guð veit að ekki höfum við líkamlega yfirburði gagnvart öðrum dýrategundum eða náttúruöflunum.

Það sem við höfum hinsvegar eru snjallir heilar, við höfum tungumálið og hæfileika til samvinnu. Margt í þróunarsögu okkar bendir til þess í að þau sem unnu í hópum og höfðu getuna til að vera hluti af hóp hafi frekar komist af. Því hafi þörfin fyrir félagslegt taumhald fest sig jafn rækilega í sessi.
Við viljum ekki hætta á að niðurlægja okkur eða verða okkur til skammar því líffræðileg minni vara okkur við því að það gæti jafngilt því að deyja.

,,Nakinn var ég og þér klædduð mig.“ Segir í guðspjalli dagsins.
Nektin er tákn um berskjöldunina sem við óttumst. Táknsagan af Adam og Evu sem segir frá hvernig þau reyna að hylja nekt sína fjallar um þessa mennsku tilhneigingu; að óttast að það sjáist hve viðkvæm og berskjölduð við öll erum í raun.

En Kristur staðsetur sig með þeim viðkvæmu og þeim berskjölduðu og klæðir þau elsku sinni og miskunn.
Í guðspjallinu talar hann um niðurlægða hópa samfélagsins, þau sem hafa svo gjarnan verið jaðarsett fyrr og nú.

Þegar Jesús talar um gestinn er hann að tala um útlendingafóbíuna.
Jesús talar um þau sem veik eru, hvort sem er andlega eða líkamlega. Þau fátæku sem hungrar og þyrstir. Jesús talar um fangana.
Jesús talar um fólkið sem samfélagið vill oft forðast að sjá.

Kristur staðsetur sig með þeim og segir: Til þess að þekkja Guð þurfið þið að þekkja þessar hliðar tilverunnar, gangast við þeim og reynast stuðningur – sjálfum ykkur og öðrum.
Þið þurfið að sjá þetta fólk, þið þurfið að sjá sjálf ykkur og aðra.
Þið þurfið líka að sjá þau sem ykkur finnst erfiðast að sjá.
Þau sem þið skiljið ekki. Þau sem þið hneykslist á.
Þau sem prýða forsíður blaðanna, þau sem við hræðumst og óttumst að líkjast.
Því bilið milli þess versta í okkur öllum og þess besta er styttra heldur en okkur langar að trúa.

Þannig leitast Jesús alltaf við í guðspjöllunum að breyta sýn okkar á því hvað sannur styrkur sé.
Því það er óumflýjanlega auðmýkjandi að vera manneskja.

Enska orðið „humility“, auðmýkt, á sér rót sína i orðinu „humus” – jörð eða mold. Það sama á  um enska orðið ,,human“, manneskja.
Hebreska orðið yfir mann er ,,adam“, á meðan hebreska orðið yfir jörð er „adamah“.
Auðmýkt er falin í því að vera ríkur af mýkt. Að geta leyft sér og öðrum að vera mennskur, vera hluti af jörðinni, sköpuninni. Að horfast í augu við skuggahliðar tilverunnar og lifa í ljósi reynslu okkar, jafnvel þó það geti verið ógnar sárt og erfitt.

Ég hitti nýverið mann sem hefur verið að takast á við mikla sorg. Við ræddum saman og maðurinn sagði mér frá því hve erfitt hann ætti með að slaka á. Í áföllum og spennu venst taugakerfið því að vera útþanið.
Þá sagði þessi maður mér frá því að þegar hann færi svo að eiga stundir þar sem hann náði aðeins að slaka á, þá jafn snöggt komi upp sektarkennd yfir því og spennan er keyrð upp á ný.
Eins og það sé eitthvað innra með honum sem vilji meina honum að slaka á, það geti ekki verið öruggt.
Þetta eru svo eðlileg áfallaviðbrögð, sem við getum eflaust mörg hér inni tengt við í gegnum eigin reynslu eða annarra.

Því það getur verið svo ofboðslegt þolinmæðisverk að treysta á ný.

Það er þolinmæðisverk að vona og vinna með lífsreynslu sína.
Það er þolinmæðisverk að rækta með sér hugrekkið til að vera séð, til að vera berskjölduð manneskja.
Það er þolinmæðisverk að vaxa sem unglingur sem er að leita áfram að leið sinni í gegnum lífið.
Það er þolinmæðisverk að halda áfram að læra og þroskast.
Það er þolinmæðisverk að hætta ekki að trúa.
Það er þolinmæðisverk að elska.

Slík þolinmæði felur ekki sér athafnaleysi.
Þvert á móti, þolinmæði kallar eftir ábyrgum athöfnum.
Maðurinn sem ég minntist á sagðist hafa verið duglegur að vinna með sorg sína og ætla að halda því áfram. Hann vill vinna með sjálfan sig áfram og taka þátt í lífinu. Líða vel.
Þrátt fyrir allt á hann von og því hefur hann þolinmæði til þess að halda áfram.

Það er rétt sem Páll segir í pistli dagsins. Vonin og þolinmæðin haldast hönd í hönd.
Mig langar að lesa fyrir ykkur nokkur orð um vonina. Þessi orð eru fengin úr pistli eftir heimspekinginn Gunnar Hersvein og eru fallegri en öll þau sem mér gæti dottið í hug:

,,Von er vænting, hún er tilgáta hugans um betri tíð. Hún lætur lítið yfir sér og stundum tekur enginn eftir henni, en hún hefur undramátt því hún er driffjöður verka

Vonin snýst um hið nýja og sterk von dregur jafnan kraft sinn frá einhverju sem getur hugsanlega orðið að veruleika. „Von er vakandi manns draumur,“ segir málshátturinn.

Von er bæn hjartans, þrá sálarinnar og ósk hugans – sem getur ræst.
Sérhver einstaklingur þarf að þekkja von sína. Sá sem vill þekkja sjálfan sig þarf að þekkja von sína því vonin færir nýjan kraft og gefur viljanum vængi, jafnvel til að fljúga þangað sem allir telja fjarstæðukennt. …

Þrauka má án ástar og gleði en ef vonin slokknar líka þá villast menn. Ferð án vonar er erfið og sporin svo þung en um leið og vonin vaknar aftur verða sporin léttari og viljinn sterkari. Þau sem bera von fyrir aðra og eru vonarberar samfélags, eru einnig fuglarnir sem syngja í dimmunni fyrir dögun.“  (http://tru.is/pistlar/2010/11/vonarberi)

Kristur skorar á okkur að vera vonarberar samfélags.
Að koma auga á sig í þeim nöktu og þreyttu. Hinum hungruðu og þyrstu.
Kristur skorar á okkur að sjá gestinn og útlendinginn sem vin. Að mæta og hlúa að hinum veiku og þeim sem eru í fjötrum.
Kristur skorar á okkur að koma auga á ljós sitt í okkur, líka þegar við sjálf erum berskjölduð, hungruð og þyrst, veik og í fjötrum    .
Kristur skorar á okkur að hætta að kreppa hnefana, slaka á, svo við getum losað lófann úr krukkunni.
Svo ný von geti leitt okkur áfram til móts við lífið sjálft. Guð gefi okkur á hverjum degi þolinmæði til þess.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður, um aldir alda.
Amen.

Prédikun: Hjalti Jón Sverrisson