Fórnfýsi, bjartsýni, þrautseigja. – Prédikun frá innsetningarmessu 4.11.2018

by Nov 6, 2018Blogg, Pistill, Prédikun

Prédikun flutt í Laugarneskirkju, 4.11.2018.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

,,Á sínum tíma munum vér uppskera, ef við gefumst ekki upp“.
Í grein úr Kirkjuritinu frá árinu 1956 er vísað til þessara orða úr bréfi Páls til Galatamanna í tengslum við uppbyggingu safnaðarstarfsins í Laugarnesi. Greinarhöfundur segir að starfið hafi byggt á ,,traustum grunni fórnfýsinnar og bjartsýninnar og hins þrautseiga starfs.“
Þessi orð frá árinu 1956 virðast mér enn sönn í dag.

Síðastliðið fimmtudagskvöld hitti ég í safnaðarheimilinu sóknarnefndarmann sem var að vinna í loftræstikerfinu, svona eins og fólk gerir af fúsum og frjálsum vilja í sjálfboðaliðastarfi kl.19:30 á fimmtudagskvöldum. Ég sagðist vona að álag vegna viðhalds kirkjunnar reyndist honum og öðrum ekki of lýjandi. Hann svaraði með því að segja: ,,Þetta gefur mér líka mikið.“
Fórnfýsi, bjartsýni og þrautseigja.

Undanfarin fimm ár hef ég fengið að sjá þessi orð vera lifandi veruleika.
Fyrsta ár mitt í Laugarneskirkju starfaði ég með séra Sigurvini Lárusi Jónssyni sem kenndi mér þetta og margt annað. Sigurvin kenndi mér að alvöru frelsi er fólgið í því að taka hvorki sjálfan sig né aðra of alvarlega. Hann hjálpaði mér að átta mig á því að húmorinn er heilagur.
Í kirkjuprökkurum veturinn 2013 til 2014 kenndi Sigurvin okkur að fljúga.
Fyrir áhugasama þá er galdurinn víst fólginn í því að syngja Daginn í dag og meina hvert orð af gleði.
Ég veit ekki alveg hvernig þetta virkar, en þetta virkar og í dag fljúgum við enn í æskulýðsstarfi Laugarneskirkju.

Hér í Laugarneskirkju er enda rótgróinn skilningur á því að sönn kirkja er æskulýðskirkja og að slík kirkja getur flogið. Hér var stofnað eitt af fyrstu æskulýðsfélögum landsins, af prestshjónunum Vivian og séra Garðari Svavarssyni árið 1954.
Sönn æskulýðskirkja færir fólk saman. Þar mætast yngri og eldri kynslóðir og við leitumst við að þroska næmni fyrir því hvernig megi best valdefla okkur til þess að vera skapandi og ábyrgir þátttakendur í andlegu lífi okkar.

Þegar ég tók til starfa hér fékk ég að heyra margar sögur af því hvernig séra Bjarni Karlsson valdefldi fólk og reisti við á þennan hátt. Sögur af fólki sem hefur fundið rödd sína aftur.
Bjarni hefur enda sjálfur gjarnan sagt að Laugarneskirkja sé málþroska söfnuður.

Þessi málþroski birtist meðal annars í meðvitund um það að bænamál er margs konar.
Sérhver bæn er sögð í trausti þess að það sé tekið á móti hverju orði, sama hvernig setningar séu myndaðar. Hér í kringum altarið höfum við setið saman, börn og unglingar í bæn, hvert og eitt á okkar hátt. Sumir segja bænir sínar upphátt, aðrir þegja.
,,Þögnin er fyrsta tungumál Guðs“, sagði Thomas Keating (‘‘Silence is the first language of God, everything else is poor translation“).

Þegar Eiríkur Rögnvaldsson fékk heiðursverðlaun menningarverðlauna DV í október síðastliðnum, fyrir framlag sitt til íslenskra málvísinda og tungu sagði hann að eitt af því mikilvægasta sem við gætum gefið til að varðveita tungumál okkar væri umburðarlyndi. Við þyrftum að gefa fólki leyfi til að umgangast tungumálið, æfa sig, mótast, gera mistök, vera óhrædd við að tala.
Það sama á við um allar okkar bænir. Þegar við skiljum að barnahjal og babbl er bænamál, fermingarbarnaflissið líka, þá trúi ég því að við séum að meðtaka Guðs ríki.

Ég sé betur í dag en ég gerði þá að þegar ég hóf nám við guðfræðideild Háskóla Íslands og fyrstu árin sem ég starfaði innan Þjóðkirkjunnar var ég ekki jafn umburðarlyndur og mig langaði að halda.
Mínir fordómar og minn hroki birtist kannski einna helst gagnvart kirkjunni.
Oft held ég að ég hafi verið að beita fyrir mig góðri gagnrýnni og skapandi hugsun en ég óttast einnig að ansi oft hafi verið um hroka, hégóma og ótta að ræða.
Hvað var ég hræddur við? Út af hverju hef ég svo oft verið hrokafullur, inn á við og út á við?
Út af hverju fannst mér svona mikilvægt að staðsetja mig aðeins út á kanti, að vera ekki alveg hluti af?

Ég held ég hafi verið hræddur við höfnun, hræddur við að glata sjálfræði mínu og að ég hafi efast um hvort rými væri fyrir að við værum lík en ólík, viss og óviss, leitandi, týnd og fundin.

Þið hafið kennt mér að þessi ótti er ástæðulaus.
Fólkið hér í þessum söfnuði, safnaðarmeðlimir, sjálfboðaliðar, messuþjónar, börn og unglingar, ungleiðtogar og leiðtogar, kirkjukórinn, sóknarnefndin, starfsfólkið, prestarnir, þið hafið öll kennt mér að það er hægt að tilheyra samhengi,
það er hægt að finna sér stað, án þess að glata sjálfræði sínu.

Ég hef starfað með sóknarnefnd, sjálfboðaliðum og starfsfólki sem hefur staðið saman og verndað söfnuðinn í gegnum tíma sem hefur oft reynt á en aldrei hefur glatast getan til þess að trúa að jafnvel þrengingatímabil geti reynst vöxtur til góðs.
,,Á sínum tíma munum vér uppskera, ef við gefumst ekki upp.“

Fórnfýsi, bjartsýni og þrautseigja, sagði ég áðan og ég endurtek þessi orð, nú í samhengi við samstarfsfólk mitt: Arngerði Maríu, Elísabetu, Evu Björk, Davíð Þór og Vigdísi sem ég hef séð gefa meira af sér í starfi en hægt væri að krefjast. Þau eru eldsálir og þau hafa sýnt mér og kennt að halda neistanum á lífi, sama þó hann kunni að flökta. Neistinn logar og lýsir leiðina.

Leiðina hvert spurjið þið?
Í átt að því að taka á móti Guðs ríki eins og barn.
Hér í Laugarneskirkju er ég að læra að taka á móti Guðs ríki eins og barn.

Í 10. Kafla Markúsarguðspjalls segir:
Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá:
,,Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.“
Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.

Kæru vinir, hugsum hér aðeins saman um vonbrigði okkar í lífinu. Óttann. Gremjuna. Áföllin okkar og sorgina. Hugsum um það hvernig við höfum á einn eða annan hátt glatað sakleysi okkar og tilfinningunni fyrir sakleysi þessa heims. Hvernig oft hefur verið brotið á okkur og hvernig við höfum oft brotið af okkur.

Og samt, þrátt fyrir allt sem hefur gengið á og mun ganga á, er fólgið í kröfu Jesú trú á að við höfum enn getuna til þess að taka á móti Guðs ríki eins og barn.

2000 árum síðar heiðrum við enn þessi orð vinar okkar og kennara frá Nasaret og við keppumst eftir hugrekkinu til þess að fylgja þeim, því við finnum að þau eru sönn. Við finnum að þetta er hægt.
Þegar Jesús segir okkur að við tökum ekki við Guðs ríki nema eins og barn, er okkur trúað til þess að vona áfram. Okkur er trúað til þess að elska áfram. Okkur er trúað til bata.
Okkur er trúað til fórnfýsi, bjartsýni og þrautseigju.

Því er trúað að þrátt fyrir að við höfum glatað sakleysi, þá þurfum við aldrei að glata voninni.
Við getum enn átt líf í fyllstu gnægð.

Það mun ekkert réttlæta þjáninguna, þess þarf ekki og það er rangt. Hún verður ekki smættuð.
Krossinn er staðreynd, enn í dag. En það er upprisan líka. Það er vonin líka.
Vonin verður ekki heldur smættuð.
Hún vill mæta þér í andvara vetrarmorgunsins og í því birtist kærleikur heimsins.
Hún hefur mætt mér í manni sem sagði einu sinn við mig: ,,Þetta verður allt í lagi.“
Hún mætir okkur í húmornum. Þannig birtist guðs ríki eins og hlæjandi barn að lélegum brandara sem okkur þykir öllum vænt um að einhver hafi samt sagt upphátt.
Enn er trú. Enn er von. Enn er kærleikur. Enn tökum við á móti Guðs ríki eins og barn.

Næst þegar þú kæri vinur strögglar, erfiðar, finnur fyrir vonleysi… þá máttu treysta því að í Laugarneskirkju verður lifandi samfélag sem er að rækta þessa trú, þrátt fyrir allt heimsins mótlæti.
Ég fagna og er þakklátur fyrir að fá að halda áfram að vera hluti af slíku samfélagi.
Þannig finnum við styrkinn til að fara út í heiminn og halda áfram að keppast eftir réttlæti.
Við finnum styrkinn hvort í öðru og við finnum styrkinn í Guði.

Við finnum styrkinn í guðspjalli dagsins, orðum sem við skiljum aðeins hvernig geta verið sönnhvernig geta verið okkur leiðarljós, þegar við tökum á móti þeim eins og barn tekur á móti Guðs ríki:

Sælir eru fátækir í anda,
því að þeirra er himnaríki.
Sælir eru sorgbitnir,
því að þeir munu huggaðir verða.
Sælir eru hógværir,
því að þeir munu jörðina erfa.
Sælir eru þeir, sem hungrar
og þyrstir eftir réttlætinu,
því að þeir munu saddir verða.
Sælir eru miskunnsamir,
því að þeim mun miskunnað verða.
Sælir eru hjartahreinir,
því að þeir munu Guð sjá.
Sælir eru friðflytjendur,
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir,
því að þeirra er himnaríki.
Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum.

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.
Amen.

Prédikun: Hjalti Jón Sverrisson
Listaverk: Frida Adriana Martins