Jólasamvera – Hugvekja Aðalbjargar Stefaníu Helgadóttur

by Dec 18, 2018Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir, Prédikun

Kæru vinir. Hér má lesa hugvekju Aðalbjargar Stefaníu Helgadóttur sem flutt var á Jólagospelkvöldi okkar í Félagsheimili Sjálfsbjargar, Hátúni 12, mánudagskvöldið 17. desember.
Stundin var ljósrík og gleðileg, mikið hlegið og sungið, hlustað og heyrt með hjartanu.
Hugvekja Öddu hér að neðan hefur margt að geyma sem hvert og eitt okkar getur tengt við nú þegar jólahátíðin nálgast. Njótið vel!

Jólasamvera í Hátúni 17. desember 2018

Kæru vinir,

Ég vil byrja á að þakka fyrir að fá að vera með ykkur hér í kvöld, nú þegar rétt vika er í að hátíð ljóss og friðar gengur í garð. Ég heiti Aðalbjörg, bý hér í Laugarnesinu og er formaður sóknarnefndar Laugarnessóknar. Þar fyrir utan starfa ég sem deildarstjóri hjúkrunar á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, kenni í Bataskóla Íslands og er auk þess gift Heiðari mínum og móðir fimm barna og á eina stjúpdóttur. Þannig að það má hæglega geta sér þess til að jólahátíðin á mínu heimili einkennist af notalegri samveru minnar stóru fjölskyldu. Og samveran er einmitt það sem jólin snúast um. Að vera saman, að vera til saman.

Á þessum árstíma þegar myrkrið er mest, þá ganga jólin í garð næstum sjálfkrafa og við finnum það hvernig samfélagið fær á sig annan brag. Eitt af því sem einkennir komu jólanna er að við finnum djúpt í innsta kjarna okkar hve áþreifanlega meðvituð við verðum um stöðu okkar í lífinu og í samfélaginu. Jólin eru þeim töfrum gædd að þau magna upp tilfinningar okkar og líðan; bæði góðar og sárar.

Ef við erum hluti af stórri fjölskyldu, þá finnum við fyrir þörf til að vera saman, þjappa okkur saman í skini jólaljósanna.

Ef við erum ein, þá gerist annað tveggja; við njótum einverunnar í sátt við Guð og menn, eða við söknum samverunnar og finnum tilfinnanlega fyrir einmanaleikanum sem umlykur hjarta okkar.

Á Heilsustofnun, þar sem ég starfa, koma allskonar gestir til dvalar sem heyra til, já mér er óhætt að segja, allra þjóðfélagshópa sem hér búa og eru að glíma við jafnt líkamlegar, andlegar sem sálfélagslegar áskoranir.

Fyrir nokkrum misserum kom gestur til dvalar á stofnuninni sem hefur mikinn áhuga á skák og pool, við getum kallað hann Hákon. Það háttar þannig til hjá okkur, að í setustofu gesta er pool-borð sem nýtur mikilla vinsælda. Þessi ágæti gestur, Hákon, tók upp á því, til að meðal annars þjappa saman gestahópnum, að setja upp það sem hann kallaði „Ólympíuleika Heilsustofnunar í pool“. Hann gekk á milli stofnana í Hveragerði og á Selfossi og fékk ótal marga vinninga, fór á stúfana inni á Heilsustofnun og fann gesti sem hann hafði tekið eftir að drógu sig í hlé og virtist ekki líða vel. Hann fól þeim ákveðin verkefni sem tengdust Ólympíuleikunum; t.d. að vera stigaverðir, tímaverðir, hafa yfirlit yfir þátttakendur, gæta að vinningunum og svo framvegis. Allir sem vildu gátu tekið þátt og mig minnir að það hafi verið rúmlega tuttugu gestir sem spiluðu. Best að taka það fram að það fengu allir verðlaun – því Hákon fékk ríflega þrjátíu vinninga!

Ólympíuleikarnir stóðu yfir í fjóra daga. Ég var sjálf að vinna meira og minna alla þessa daga og ég fór að taka eftir áhrifamikilli breytingu á yfirbragði og andanum í húsinu. Gestirnir mínir, sem ég hafði haft miklar áhyggjur af, m.a. vegna félagslegra aðstæðna þeirra, en þeir komu margir hverjir úr erfiðum félagslegum aðstæðum og/eða einangrun og einmanaleika, voru farnir að horfa upp og jafnvel í augun á mér. Þeir höfðu skilgreint hlutverk á Ólympíuleikunum, sem leiddi til þess að þeir voru farnir að spjalla við aðra gesti – mest um pool auðvitað, sitja til borðs með öðrum í matsalnum og ég sá að þeir höfðu fundið eina mikilvægustu kenndina sem er nátengdust hamingjunni sjálfri; að finna sig tilheyra.

Og um leið varð samkenndin í húsin áþreifanleg. Samkenndin sem verður til þegar við upplifum einlægan kærleika, virðingu og skilning, ekki vegna þess hver við erum heldur vegna þess að við já; erum.

Ég veit til þess að ólympíuleikarnir og samskiptin sem urðu til í kringum þá voru megin lækningin í lífum margra sem tóku þátt. Það er nefnilega lífsbjörg fólgin í samverunni.

Mikilvægasta forvörnin gegn vanlíðan samferðafólks okkar er nærvera, góðmennska og skilningur. Það er ekki flóknara en það.

Rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson skrifaði eftirfarandi texta í bók sína Fiskarnir hafa enga vængi sem kom út árið 2013 (bls. 55):

Við þurfum öll, einhvern tíma í lífinu, á faðmlagi að halda, stundum sárlega, faðmlagi sem getur verið huggun, leysandi grátur, eða skjól þegar eitthvað hefur slitnað í sundur. Við þráum faðmlag einfaldlega vegna þess að við erum manneskjur og hjartað er viðkvæmur vöðvi.

Við þurfum öll á því að halda að á okkur sé hlustað, að við séum séð og að það sé rými fyrir okkur í samfélaginu. Um leið og við tjáum líðan okkar, jafnvel þjáningar og einnig gleði, og sýnum öðrum raunverulega umhyggju, þá myndast traust. Traust, sem skapar vináttu og kærleiksríkt samfélag. Ástæðan er sú að við getum öll verið “brúin” sem tengir aðrar manneskjur við lífið og út úr einangrun sem byggist á angist og erfiðum tilfinningum. Og þá á sér stað bataferli vegna tengslanna sem verða til.

Ég trúi því að það sé ástæða fyrir því að við erum hér saman komin. Við komum hingað á ólíkum forsendum en erum hér sameinuð í einingu kærleika, trúar og samkenndar og ég bið þess að sá tæri kærleikur sem jólin boða okkur fylli hjörtun ykkar og gefi ykkur gæfuríka daga. Að lokum þakka ég fyrir mig; fyrir sam-veruna og sam-kenndina.

Guð geymi og blessi ykkur öll og gefi ykkur gleðilega hátíð.