Prédikun flutt í Laugarneskirkju, 16.12.2018.

1.
„Jóhannes bar klæði úr úlfaldahári og leðurbelti um lendar sér og hafði til matar engisprettur og villihunang. Menn streymdu til hans frá Jerúsalem, allri Júdeu og Jórdanbyggð, létu hann skíra sig í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar.“

Svona er Jóhannesi skírara lýst í 3. Kafla Matteusarguðspjalls.
Eins og margar af sögum ritningarinnar og persónum getur Jóhannes virst okkur sem frekar furðuleg týpa. Innan kristinnar kirkju á vesturlöndum er algeng myndin af Jóhannesi skírara sem sérvitring, með furðulegan fatasmekk og sérstaka bragðlauka.
En sé horft til þess að Jóhannes bjó ekki í borgarasamfélagi, heldur hafðist við í óbyggðum nærri Jórdan fyrir rétt rúmlega 2000 árum síðan, má færa fyrir því rök að klæðnaður hans hafi hreint ekki verið óvanalegur.
Það sama mætti segja um matarræði hans. Ekki var Jóhannes að fara að stökkva út í Fiskbúðina hér á Sundlaugavegi eða í Frú Laugu, heldur hefur hann matast á engisprettum og villihunangi því aðstæður hans í óbyggðinni hafa kallað eftir því.
Raunar er það svo að á tímum Jóhannesar hefði verið meira hneykslismál ef hann hefði fengið sér rækjukokteil heldur en engisprettur, sé horft til 3. Mósebókar. Þar er skelfiskur fordæmd fæða, á meðan sérstaklega er tekið fram að sjálfsagt sé að leggja ákveðnar tegundir af engisprettu sér til munns.

Við vitum einnig að spámenn á borð við Jóhannes voru á þessum tímum ekki óalgengir. Þeir voru þónokkrir, sem voru mótaðir af heimsslitahefðum og síðar dæmdir landráðamenn af rómverskum yfirvöldum. Það er í þessu menningarlega samhengi sem Jesús frá Nasaret stígur fram.

2.
Það er merkilegt hvernig það hjálpar okkur í öllum samskiptum að skilja hvaða ástæður liggja að baki hegðun fólks. Þegar við förum að skilja hvers vegna fólk er eins og fólk er.
Þegar við förum að skilja af hverju við sjálf erum eins og við erum.
Öll eigum við okkar sögur, okkar aðstæður og okkar ástæður.
Þegar við á virkan hátt leitumst við að skilja fólk og setja okkur í aðstæður þess förum við að sjá að það er meira sem sameinar okkur heldur en sundrar.

Fólki svipar saman, við erum glettilega venjuleg og furðuleg samtímis. Við erum öll, sama hvaðan við komum, sama hver við erum, í raun og sann – venjulegt fólk.

Þessi skilningur hjálpar okkur í samskiptum, að átta okkur á því hvernig við getum mætt fólki af æðruleysi. Það hjálpar okkur að halda sjálfum okkur, og öðrum, ábyrgum.
Að rækta með okkur vilja til að skilja er dýrmætt, því þó að ytra útlit geti virst ólíkt, þá eru líkindin oft að finna innra með.

Við getum séð þetta til að mynda í því hvernig fólk mætir sorg og áföllum.
Ég minnist samræðna sem ég átti við móður eina.
Hún á tvær dætur á svipuðum aldri sem voru að bregðast við áfalli. Önnur grét mikið, hin svo gott sem ekki neitt. Sú sem grét mikið horfði til systur sinnar og hugsaði með sér að hún hlyti að vera að gráta allt of mikið, það gæti varla verið í lagi að gráta svona mikið. Hin systirin horfði á systur sína og hugsaði með sér að hún sjálf hlyti að vera að gráta allt of fáum tárum, það gæti varla verið í lagi að gráta svona lítið.

Við getum á stundum verið merkilega tilbúin til þess að finnast annað fólk venjulegt, en ekki við sjálf. Þetta óöryggi sem stúlkurnar upplifðu, er óöryggi sem við getum öll kynnst.
Enda er fátt venjulegra en óörugg manneskja.

3.
Við erum að ræða leitina að skilningi.
Þegar við nálgumst texta Biblíunnar á ábyrgan hátt gerum við það með opnum augum fyrir því menningarlega samhengi sem textinn sprettur fram í. Margt finnst okkur furðulegt, úrelt, afleitt, annað virðist tímalaust og eiga alltaf við.
Virk og opin hlustun og fróðleiksfús hugur hjálpar okkur að skilja táknheim textans svo við skiljum betur undraverðar sögur af venjulegu fólki með venjulega kosti og galla.

Umhyggjan sem Jósef og María sýna nýfæddu barni sínu á jólanóttu er stórkostlega venjuleg umhyggja, hana þekkja foreldrar.
Vonin sem vitringarnar fundu þar sem þeir fylgdu stjörnu á himni er blessunarlega venjuleg von. Við þurfum öll á henni að halda.
Kærleikurinn sem knýr okkur áfram er venjulegur, stundum tökum við varla eftir honum, hann er svo rótgróinn tilverunni.
Allt eru þetta venjuleg atriði í lífi venjulegs fólks. Það gerir undrið engu minna.   

4.
Annað sem er svo venjulegt er óréttlæti.
Þetta óþægilega, venjulega óréttlæti.
Það er óþægilegt – því við verðum samdauna því.
Það getur verið erfitt að koma auga á það og jafnvel þegar við komum auga á óréttlætið, getur verið erfitt að motivera sig til þess breyta stöðunni og uppræta „venjulegt“ óréttlæti.
Það getur birst í þessari algengu tilhneigingu; að réttlæta sig. Jafnvel þegar við vitum betur.
Við grípum í afsakanir eins og:
,,Það eru allir að gera þetta, af hverju ekki ég?“,
,,Ég hef heyrt aðra segja og gera margt verra en það sem ég gerði og sagði“ osfrv.

Þá mætum við þeirri spurningu hvort nálgun réttlætingarinnar, ábyrgðarlaus og afsakandi, sé gagnleg fyrir þroska okkar sem einstaklinga og þroska okkar sem samfélags?
Eða erum við eftilvill að svíkja sjálf okkur um vöxt?
Ég get viðurkennt að ég svík sjálfan mig oft á þennan hátt.

5.
Það var svolítið skemmtilegt í fermingarfræðslutíma um daginn, þá var ég að segja krökkunum af hálfvitalegri hegðun stráka sem höfðu verið með mér í menntaskóla á sínum tíma.
Þau spurðu í framhaldinu út í minn eigin hálfvitaskap, hvort ég ætti engar sögur af sjálfum mér. Mér fannst þetta svolítið gott hjá þeim.
Það var eins og þau hefðu spurt mig eins og meistarinn forðum: „Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?“
Þau komu auðvitað ekki að tómum kofanum og í næsta tíma sagði ég þeim sögu af sjálfum mér og hvernig mér hefði mistekist svo ofboðslega.
Ég treysti unglingunum fyrir sögu úr eigin lífi og það gerðist nokkuð alveg merkilega venjulegt; þau virtu mig ekki minna fyrir vikið, heldur upplifði ég hitt.
Þar sem ég gekkst við eigin getuleysi í lífinu urðu tengsl okkar og gagnkvæm virðing sterkari.

6.
Í fyrsta sálmi Saltarans segir: „Sæll er sá… er eigi situr meðal háðgjarnra.“
Könnumst við eitthvað við slíkar aðstæður? Könnumst við kannski við hvað það getur verið auðvelt að sitja meðal háðgjarnra, vera einn af þeim?
Hvað það getur verið auðvelt að tapa sjónum af sjálfum sér og gildum sínum?
Hvenær er háð húmor og hvenær er það ofbeldi? Hvenær er háð farvegur fyrir réttlæti og hvenær missir það marks?

Þegar Jóhannes kallar eftir iðrun og sinnaskiptum í guðspjalli dagsins er hann að kalla eftir því að við látum af hinu venjulega óréttlæti, óréttlætinu sem við höfum vanist og bitnar á sjálfum okkur og öðrum. Hann kallar eftir því að við vöknum og segir: ,,Sýnið í verki að þið hafið tekið sinnaskiptum og farið ekki að segja með sjálfum ykkur: Við eigum Abraham að föður.“
Með því að vísa til Abrahams er Jóhannes að vísa til fyrirheitisins, sáttmála Guðs og Abrahams sem gyðingdómur hvílir á og kristin trúararfleið á rætur sína í. Hugsunin er sú að fólk gæti átt í hættu á að horfa til þessa fyrirheitis og hugsað sem svo: ,,Ef Guð elskar mig og meðtekur sama hvað, þá get ég vel leyft mér andlega leti og ábyrgðarleysi.“
Jóhannes varar við því og gefur fólki dæmi um hvernig það geti haft áhrif hér og nú og svarar þeim:
,,Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur. … heimtið ekki meira en fyrir ykkur er lagt. … Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum.“

7.
Það er margt sem venjulegt fólk getur gert til að hafa áhrif. Kannski er einna áhrifaríkust sú hljóðláta list að sýna fólki virðingu.
Þegar Jesús leitar til Jóhannesar til að taka skírn hjá honum vill Jóhannes í vanmætti sínum varna honum þess, en göngulag Krists birtist í auðmýkt hans.
Jesús sýnir Jóhannesi virðingu sína og staðfestu og segir:
,,Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“
Þannig er öll framganga Jesú mörkuð af því að horfa í augun á fólki, hann sýnir því virðingu, segir því sannleikann, hvort sem hann er þægilegur eða óþægilegur.

Jesús kallaði venjulegt fólk til þess að vera ábyrgt og andlega vakandi.
Enn í dag heyrum við ákall hans.
Hann skírir okkur með heilögum anda og eldi, svo við megum sjálf horfa í augun á fólki, segja sannleikann um okkur og gefa því af venjulegum kærleika okkar.

Guð gefi okkur náð sína til þess. Amen.

Prédikun: Hjalti Jón Sverrisson
Myndlist: Frida Adriana Martins