Fjötrar óttans

by Feb 17, 2019Blogg, Forsíðufrétt, Prédikun

Guðspjall: Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það. Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt. Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Matt 25.14-30)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Guðspjall dagsins fjallar ekki um peninga. Bara svo það sé sagt hreint út alveg strax.

Jesús er reyndar voðalega lítið upptekinn af peningum. Við játum hann vissulega sem leiðtoga lífs okkar, heitum því þegar við fermumst að ætla að „leitast við“ að hafa hann í því hlutverki í lífinu. En fjármálaráðgjöf er ekki eitthvað sem hann lagði fyrir sig. Leiðbeiningar um sparnað og vexti, ávöxtun fjármuna og skuldaálag verðum við bara að finna annars staðar en í Nýja testamentinu. Við getum leitað í dæmisöguna um eyri ekkjunnar ef okkur vantar leiðbeiningar um kristileg viðhörf varðandi framlög hinna ýmsu tekjuhópa til samneyslunnar … en þar með eru snertifletir hagfræði og guðfræði eiginlega upp taldir … eða því sem næst.

Guðs gjafir

Guðspjall dagsins er um Guðs gjafir. Við getum kallað þær hæfileika, jafnvel náðargáfur. Á sumum erlendum tungum eru þessar Guðs gjafir eða náðargáfur enn þann dag í dag kallaðar nafni þessa forna gjaldmiðils: Talent. Og öllum er okkur úthlutað einhverju slíku, mismiklu … en allir fá eitthvað. Engum er alls varnað. Og guðspjallið segir okkur til hvers er ætlast af okkur varðandi það hvernig við förum með það.

Við eigum ekki að fela það, ekki að grafa það í jörð. Við eigum að láta það bera ávöxt, rækta það og efla. Ekki í eigingjörnum tilgangi, ekki okkur sjálfum til dýrðar, heldur af því að þegar upp er staðið þá er ekki það sem skiptir máli hve mikið af slíku okkur var fengið heldur hvað við gerðum við það. Það er ekki spurt úr hve miklu við höfðum að moða heldur hvernig við moðuðum úr því … ef svo má að orði komast.

Þetta er ekki falleg saga ef hún er lesin bókstaflega. Herrann fer í manngreinarálit, hann gerir upp á milli þjóna sinna. Og sá sem hann treysti minnst sýndi kannski af hverju hann naut minnsta traustsins. Hann lét óttann ráða ferð, tók enga áhættu og skilaði upp á punkt og prik nákvæmlega því sem hann byrjaði með. Húsbóndinn verðlaunar þannig áhættusækni – að því tilskyldu að áhættan gangi upp.

En þessi saga er ekki um peninga.

Hún er um ótta.

Myrkur óttans

„Ég var hræddur,“ sagði þjónninn. Óttinn réð ferðinni. Hann treysti ekki guðsgjöfunum sínum. Hann faldi þær. Hann treysti sér ekki til að rækta þær og láta þær bera ávöxt.

Óttinn er eitt öflugasta verkfæri myrkursins. Enda er fæðing Jesú tilkynnt með orðunum: „Verið óhræddir!“ á Betlehemsvöllum (Lúk 2.10). Og upprisan líka. „Skelfist eigi,“ segir engillinn við konurnar sem fyrstar koma að hinni tómu gröf (Mrk 16.9). Og hvað eftir annað segir Jesús lærisveinum sínum að óttast ekki. Hann kallar Símon Pétur til fylgdar við sig með orðunum: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða“ (Lúk 5.10). „Það er ég, verið óhræddir!“ segir hann við lærisveinana þegar hann kemur gangandi til þeirra á vatninu og þeir halda að hann sé draugur (Matt 14.27). Ræðu sína yfir postulunum sem hann sendir út til að vinna máttarverk endar hann á orðunum: „Verið óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ (Matt 10.31). Þannig mætti lengi telja.

Þessi saga er um ótta og það hvað verður um okkur þegar við látum hann ráða ferðinni.

Í sögulok er þjóninum nefnilega varpað út í ystu myrkur þar sem er grátur og gnístran tanna. Það er ekki fallegt. En í ljósi þess að sagan er öll á táknmáli – húsbóndinn táknar Guð, þjónarnir okkur mennina, talenturnar Guðs gjafir – þá ættum við að halda áfram og spyrja hvað myrkrið tákni. Og í framhaldi af því hvar þjónninn hafi verið staddur í upphafi sögunnar. Var hann ekki umvafinn myrkri óttans allan tímann og endar á sama stað og hann byrjaði? Óttinn varnaði honum leiðar til ljóssins. Útilokaði hann frá fögnuði Herrans.

Það eina í þessari sögu sem ekki táknar eitthvað annað er sennilega gráturinn og tannagnístranin sem líkast til standa aðeins fyrir grát og gnístran tanna … í myrkri óttans.

Við erum föst í þessu myrkri óttans þegar við þorum ekki að láta ljós okkar skína. Og okkur er engrar undankomu auðið úr myrkrinu fyrr en við segjum skilið við óttann.

Himnaríki

Þessi saga er í 25. kafla Matteusarguðspjalls. Sá kafli inniheldur þrjár dæmisögur um himnaríki. Sú fyrsta líkir himnaríki við brúðkaup þar sem tíu brúðarmeyjar fara til fundar við brúðguma sem enginn veit almennilega hvenær kemur, en sumar höfðu ekki rænu á að taka með sér olíu á lampana sína. Þær voru því orðnar ljóslausar þegar brúðguminn birtist og misstu því af partíinu. Þá kemur þessi saga um talenturnar og hvað þarf að gera til að geta orðið þátttakandi í fögnuði herrans. Strax á eftir henni kemur síðan þekktasta dæmisagan, saga sem ætti að standa feitletruð í öllu sem kalla mætti „Inngang að kristinni siðfræði fyrir algjöra byrjendur“. Sú saga inniheldur meðal annars kjörorð okkar hér í Laugarneskirkju sem standa með stóru letri á heimasíðunni okkar: „Hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig.“ (Matt 25.35)

Það merkilega við þessar þrjár dæmisögur er að engin þeirra gerist í veislunni sjálfri. Í þeirri fyrstu ganga hyggnu meyjarnar inn til brúðkaupsins og dyrunum er lokað. Ekki orð um það sem þar gerist. Í þeirri næstu, þeirri sem við heyrðum í dag, ganga góðu og trúu þjónarnir inn í fögnuð herrans … án þess að honum sé lýst á nokkurn hátt. Í þeirri þriðju birtist Mannssonurinn í dýrðarhásæti sínu og skilur hafrana frá sauðunum og þeim síðarnefndu er tilkynnt að þeir fái að erfð ríkið sem þeim var búið frá grundvöllun heimsins (Matt 25.34). En svo snýst sagan ekkert um þetta ríki, heldur um það hvað það er sem aðskilur hafra frá sauðum. Engin þessara dæmisagna greinir frá því í hverju þetta himnaríki – sem bíður – er fólgið og það þótt þær tvær fyrstu hefjist báðar beinlínis á orðunum: „Svo er um himnaríki sem …“ eða „Líkt er um himnaríki og …“

Eru þær þá ekkert um himnaríki?

Laug Jesús?

Hérna megin

Nei, það gerði hann ekki. Þær eru vissulega um himnaríki. En engin þeirra lýsir þó einhverri eilífðarsælu hinna útvöldu eftir að jarðvistinni lýkur. Allar þessar sögur fjalla um hegðun okkar hérna megin grafar.

Sú fyrsta fjallar um mikilvægi þess að sofna ekki á verðinum og láta ljósið sitt slokkna. Sú næsta fjallar um mikilvægi þess að óttast ekki að láta ljós sitt skína. Og sú þriðja fjallar um að gefa hungruðum að eta, þyrstum að drekka, að hýsa gesti, klæða nakta, vitja sjúkra og heimsækja þá sem eru í fangelsi. Með öðrum orðum – um náungakærleika. Um það hvernig gott fólk kemur fram við annað fólk. Hún er um það hvað í því felst að vera gott fólk.

Ef þessar sögur fjalla um himnaríki – eins og Jesús fullyrðir að þær geri – þá er himnaríki hegðun okkar hérna megin, ekki umbun okkar fyrir hana hinum megin.

Vegna þess að ef eina ástæðan fyrir því að við leitumst við að sýna náungakærleika er óttinn við afleiðingar þess að gera það ekki, þá er það ekki kærleikurinn sem við stjórnumst af heldur óttinn.

Ef eina ástæðan fyrir því að við reynum að vera gott fólk er ótti við afleiðingar þess að vera það ekki … þá erum við ekkert sérstaklega gott fólk.

Þá erum við bara hrætt fólk.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 17. febrúar 2019