„Höldum ekki áfram“

by Feb 11, 2019Blogg, Forsíðufrétt, Prédikun


Guðspjall: Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra og klæði hans urðu fannhvít og skínandi og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gert. Og Elía og Móse birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir. Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ Og jafnskjótt litu lærisveinarnir í kringum sig og sáu engan framar hjá sér nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bannaði Jesús þeim að segja nokkrum frá því er þeir höfðu séð fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum. (Mrk 9.2-9)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

„Þetta er gott. Svona skulum við hafa það. Varðveitum nákvæmlega þetta ástand, þessa stund. Dveljum hér. Höldum ekki áfram héðan.“

Okkur hefur eflaust öllum liðið þannig einhvern tímann á ævinni. Framtíðin var óráðin, stórar ákvarðanir, sem hafa myndu mikil áhrif á líf okkar til langs tíma, biðu handan við hornið. Þær fylltu okkur kvíða, við vissum ekki hvað við ætluðum að gera eða hvort það væri góð ákvörðun að velja þá leið sem við vorum einna helst á því að fara. Hvað ef hin ákvörðunin myndi nú reynast betur?

En þessi ákvörðun beið okkar og það var engin undankomuleið, krossgöturnar nálguðust og við myndum standa á þeim og verða að velja okkur leið. En akkúrat núna … á þessu augnabliki … var þetta fínt. Svona. Af hverju gátu hlutirnir ekki bara verið svona áram?

Guðspjall dagsins segir frá krossgötum … og mannlegum … alveg einstaklega mannlegum … viðbrögðum.

Konungurinn er kominn

Sagan er náttúrlega þrungin táknum. Jesús tekur þrjá lærisveina sína með sér upp á hátt fjall. Fjallið er gegnumgandi tákn í Markúsarguðspjalli fyrir öryggi og skjól. Það er griðastaður. Jesús segir að Júdamenn skuli flýja til fjalla þegar „viðurstyggð eyðileggingarinnar“ blasi við (Mrk 13.14). Fjallið táknar líka nálægð við Guð. Jesús fer ævinlega upp á fjall til að biðjast fyrir, eftir að hafa mettað mannfjöldann í eyðimörkinni (Mrk 6.46) og áður en hann er handtekinn í Getsemane (Mrk 14.26). Enda var fjallið staður opinberunarinnar í sögu, bókmenntum og menningararfi gyðinga. Móse fékk boðorðin afhent á fjallinu og Guð birtist Elía á fjallinu – og báðir birtast þeir Jesú og lærisveinunum á fjallinu í þessari frásögn.

Loks er fjallið staður konungsvígslunnar. Í einum Davíðssálma segir Guð: „Konung minn hef ég krýnt á Síon, mínu heilaga fjalli.“ (Slm 2.6) Í Babýlón stóð guðkonungurinn, sem rann saman við guðinn Mardúk, uppi á fjallslíkinu, Ziggúratinu sem gnæfði yfir borginni. Og sagnaritarinn Jósefus greinir frá því að í fönísku borginni Týrus hafi konungurinn klæðst silfurskrúða sem ljómaði í sólskininu og fyllti lýðinn ótta og lotningu. Hér ljómar Jesús, en takið eftir því að „enginn bleikir á jörðu fær svo hvítt gert“, enda er ríki Jesú ekki af þessari jörðu.

Þessi saga er eitt stórt tákn um krýningu guðkonungsins.

Elía og Móse, eru holdgervingar lögmálsins og spámannanna.

Og hvað eru lögmálið og spámennirnir?

Á krossgötum

Jesús svarar þeirri spurningu: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir“ segir í Matteusarguðspjalli.(Matt 7.12). Og síðar í sama guðspjalli segir hann: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Matt 22.37-40)

Hér birtast lögmálið og spámennirnir til að afhenda Jesú kefli trúarinnar. Nýir tímar eru komnir. Lögmálið og spámennirnir, trúararfurinn, er allur saman komin í hinum nýja konungi lífsins og ljóssins: Jesú Kristi.

Við erum á krossgötum.

Og hvernig bregst Pétur við?

„Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina,“ segir hann.

Hér er gott að vera. Þetta er gott. Verum áfram hér … svona … reisum þrjár tjaldbúðir … höldum ekki áfram.

En lífið hélt áfram. Þeir fóru niður af fjallinu og lærisveinarnir þurftu að velja sér leið; að fylgja Jesú eða lögmálinu og spámönnunum. Að fylgja hinum nýkrýnda konungi eða hinum sem voru búnir að afhenda honum konungdæmið.

„Gerum þrjár tjaldbúðir,“ segir hann. Veljum ekki leið, veljum þær allar.

En það er ekki hægt að fara allar leiðir. Einn maður getur ekki dvalið nema í einni tjaldbúð. Hann hefur enga þörf fyrir þrjár. Á þessum krossgötum er ekki í boði að setjast að og halda ekki áfram. Það þarf að velja sér leið, velja sér tjaldbúð.

En hvaða tjaldbúð á að velja?

Samfélag gallagripa

Lærisveinarnir og ég og þið sem eruð hér … við höfum valið leið kristindómsins, valið leið Jesú Krists. Öll höfum við einhvern tímann hvikað af þeirri leið, efast, jafnvel villst. Það hef ég svo sannarlega gert og það gerði Pétur postuli líka og ég leyfi mér að fullyrða að það gildi einnig um ykkur öll.

Pétur er hinn breyski maður. Pétur er sá sem afneitar Jesú þrisvar þegar lífi hans er ógnað. En um leið er Pétur sá sem gerir hið ómögulega … gengur á vatni … en fer að efast … og sökkva. Og það er hann, þessi breyski maður, þessi gallagripur, sem er kletturinn sem Jesús reisti kirkju sína á.

Kirkja Krists er nefnilega af holdi og blóði, hún er samfélag gallagripa. Eins og öll samfélög samanstendur hún af breyskum manneskjum en ekki óskeikulum dýrlingum og englum. Kirkja Krists er staður fyrir mig og þig, haldið uppi af fólki, viðhaldið af fölki eins og mér og þér í gegn um aldirnar. Hún er ekki staður ofurmenna sem aldrei bregðast, aldrei óttast, aldrei efast. Þess vegna er hún staður náungakærleika og umburðarlyndis – af því að við sjáum okkur sjálf hvert í öðru.

Þegar hún hættir að vera það er hún ekki lengur kirkja Krists. Þá hættir hún að vera staður þar sem við komum fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur, þá hættir hún að vera staður þar sem við elskum Guð og þarafleiðandi náungann eins og okkur sjálf. Þá hættir hún að vera griðastaður hans sem allt lögmálið og spámennirnir hvíla á: Jesú frá Nasaret.

Mér finnst það gott. Ég segi eins og Pétur í þessari frásögn: „Það er gott að við erum hér.“ Af því að hér megum við halda áfram með þessa setningu og segja tóma vitleysu eins og Pétur. Það er samt pláss fyrir okkur hérna. Við erum samt velkomin, þótt við fáum galnar hugmyndir eins og að vilja gera öllum til geðs og reisa þrjár tjaldbúðir, fara allar leiðir frekar en að velja eina og halda sig við hana, baða út öngunum eins og risaeðlan í Toy Story og hrópa í örvæntingu: „Ég þoli ekki að taka afstöðu!“ Það er í lagi. Það má. Við höfum öll verið þar.

Lífið heldur áfram

En lífið heldur áfram. Leið okkar heldur áfram í gegn um allar krossgöturnar sem eru á henni. Á engum þeirra er það í boði að setjast niður og segja: „Verum bara hér. Þetta er ágætt. Höldum ekki áfram.“ Sama hve miklum kvíða það kann að fylla okkur að verða að velja okkur leið þá er ekki annað í boði.

Því jafnvel það að velja ekki leið … er leið. Afstöðuleysið er afstaða.

Okkur er hvað eftir annað stillt upp – ekki síst af fjölmiðlum – frammi fyrir álitamálum. Þessi segir eitt og annar annað og við vitum ekki hverjum við eigum að trúa. Hvoru megin línunnar sem er dregin í sandinn ætla ég að taka mér stöðu? Eða ætla ég að slá upp tjaldbúðum á línunni, hreiðra um mig þar og taka ekki afstöðu?

Þegar aldurhniginn stjórnmálaleiðtogi, svo dæmi sé tekið, sem er sakaður um ósiðlegt athæfi af fjölda kvenna, sver af sér allar sakir enda engar beinharðar sannanir til staðar, þá er auðvelt að yppa öxlum og hugsa sem svo að þetta komi manni ekki við. Til hvers að hafa skoðun á þessu? Af hverju að taka afstöðu? Hvað veit maður svosem? Hverju á maður að trúa?

Þegar útvarpsstöð leggur þá í einelti með ósannindum og lygum, sem eru í veikastri stöðu í samfélagi okkar og eru ekki í neinni aðstöðu til að bera hönd fyrir höfuð sér eða leita réttar síns … þá er auðvelt að horfa í hina áttina og láta það óátalið af því að það snertir mann ekki persónulega og maður hlustar hvort sem er aldrei á þessa útvarpsstöð. Af hverju að taka afstöðu?

Knúin svars

Málið er að við erum spurð: Með hverjum stendur þú? Og þegar þeirrar spurningar hefur verið spurt þá er ekki í boði að ýta á einhvern pásutakka á framrás tímans og slá upp andlegum tjaldbúðum í því augnbliki frystu í tíma til að hlífa sér við framhaldinu. Við getum ekki komið okkur undan því að svara spurningunni með því að öskra „Sto!“ á heiminn.

„Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra það hafið þér gert mér“ (Matt 25.40) segir Jesús Kristur. Með öðrum orðum: Í hvert skipti sem við tökum ekki afstöðu með okkar minnstu bræðrum og systrum erum við ekki að taka afstöðu með Jesú Kristi. Í raun má því segja að með því einu að vera hér, með þeirri ákvörðun okkar að vilja leitast við að vera kristnar manneskjur, þá séum við búin að taka afstöðu. Spurningin er hvort við séum reiðubúin að standa við hana eða hvort við ætlum að afneita henni um leið og það verður erfitt.

Ætlum við að reisa einar tjaldbúðir og bjóða okkar minnstu bræðrum og systrum að dvelja í þeim með okkur?

Eða ætlum við að reisa þrjár tjaldbúðir, eina fyrir þolendurna, eina fyrir gerendurna og þá þriðju fyrir okkur sjálf, svo við þurfum hvoruga að umgangast og getum verið út af fyrir okkur í friði í afstöðuleysi okkar?

Svar Jesú Krists er einfalt.

Það er ekki í boði.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 10. febrúar 2019