Það sem við þurfum oft að heyra

by Feb 3, 2019Blogg, Forsíðufrétt, Fréttir, PrédikunGuðspjall:
Tafarlaust knúði Jesús lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um meðan hann sendi fólkið brott. Og er hann hafði látið fólkið fara gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið var hann þar einn. En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum því að vindur var á móti.
En er langt var liðið nætur kom Jesús til þeirra, gangandi á vatninu. Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu varð þeim bilt við. Þeir sögðu: „Þetta er vofa,“ og æptu af hræðslu.
En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“
Pétur svaraði honum: „Ef það ert þú, Drottinn, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.“
Jesús svaraði: „Kom þú!“ Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. En er hann sá ofviðrið varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: „Drottinn, bjarga þú mér!“
Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: „Trúlitli maður, hví efaðist þú?“
Þeir stigu í bátinn og þá lægði vindinn. En þeir sem í bátnum voru féllu fram fyrir honum og sögðu: „Sannarlega ert þú sonur Guðs.“

(Matt 14.22-33)

   


1.Megi ljós sólarupprásar blessa augu þín, að þú sjáir hvílíkt kraftaverk dagurinn er.
Megi helgi sólseturs skýla öllum þínum ótta og myrkri af léttleika.    
Megir þú vita að þrátt fyrir ringulreið, kvíða og tómleika, þá stendur nafn þitt skrifað í himnaríki.        

Þessar línur eru lauslega þýddar á íslensku af mér og eru hluti af  ljóði John O‘Donohue, A blessing for beauty.       
Megir þú vita að þrátt fyrir ringulreið, kvíða og tómleika, þá stendur nafn þitt skrifað í himnaríki.          

Ég hef verið að hugsa um guðspjall dagsins í samhengi við kvíða.     
Í guðspjallinu heyrum við af einni af þessum ótrúlegu gjörðum Jesú, hann gengur á vatni.       
Það sem meira er, Pétur vinur hans og lærisveinn megnar það líka… til að byrja með. Þegar Pétur sér ofviðrið nálgast sig óttast hann, efast og tekur að sökkva. Getum við mátað okkur við þessa upplifun?                      
Guðspjallstexti dagsins er nefnilega eins og aðrar kraftaverkafrásagnir guðspjallanna, þær kalla eftir því að við lesum söguna ekki aðeins á bókstaflegan hátt, heldur að við rýnum í táknfræðina og trúarlegt gildi textans.

2.                 
Í janúar ræddi ég við fólk úr ýmsum áttum, á ólíkum aldri, í ólíkri stöðu, að fást við ólík verkefni.        
Í síðastliðinni viku áttaði ég mig allt í einu því á hvað sameinar allt þetta fólk;
það var allt að fást við kvíða, á einn eða annan hátt. Kvíðinn var og er misalvarlegur milli einstaklinga, en alltaf var hann þarna samt.
Þar sem ég rannsakaði þetta í huga mínum sá ég að ég sjálfur var engin undantekning, við áttum þetta öll sameiginlegt.   
 
Í samræðum mínum um kvíða í janúar tók ég eftir nokkrum endurteknum stefjum tengdum kvíðanum. Eitt þeitta var stef dómhörkunnar.       
Við getum verið svo dómhörð gagnvart sjálfum okkur.  
Dómharka kvíðans birtist í því að það er eins og kvíðinn hafi sérstakan ímugust á sjálfum sér.
Þetta birtist til að mynda í því hve erfitt hugurinn á með að una líkamanum þess að fá finna fyrir kvíðaeinkennum þegar þau koma upp, í mildi, án þess að dæma.
Ég held að hver sú manneskja sem hefur upplifað þann óttafulla hugsanaspíral sem getur fylgt kvíða þekki ofviðrið.     
Þessa stöðugu hringrás hugsana sem verður eins og biluð plata sem er alltaf að spila sömu 5 sekúndurnar af lagi sem þú ert búin/n að hlusta nú þegar allt of mikið á. Hver sú manneskja þekkir ofviðrið.    

3.
Í umræðunni um sjálfsvíg er stundum sagt nokkuð sem mér finnst útskýra á ágætan hátt eðli alvarlegra andlegra veikinda og ástandið; þegar það er orðið svo alvarlegt að veikur hugur reynir að rökstyðja sig burt frá lífinu.
Þá er sagt að engum langi til þess að deyja, en það treysta sér ekki allir til þess að lifa.
Það langar engum til þess að sökkva, en það treysta sér ekki allir til þess að ganga á vatni.      

Því stundum geta verkefni sem áður voru einföld og hversdagsleg virst jafn óyfirstíganleg og jafn mikið kraftaverk og að ganga á vatni.  
Ég trúi að það sé tilgangur í þeirri berskjöldun sem við sjáum færast í aukana í samfélagi okkar hvað viðkemur andlegu heilbrigði og veikindum.
Ég trúi að þar sé að finna batavon.    
Það er tilgangsríkt ferli fyrir okkur sem samfélag að takast á við að efla andlegt heilbrigði þjóðar okkar og opna alla umræðu.    

Undanfarin ár hef ég við og við heyrt talað um unga fólkið í samfélaginu og orðið ,,kvíðakynslóðin“ notað í því samhengi.     
Á sama tíma sé ég svo margt af þessu unga fólki stíga fram; segja sögu sína, leita sér hjálpar, rjúfa einangrun og skömm og ég kemst ekki hjá því að hugsa hvort við ættum frekar að tala um ,,lausnakynslóðina“ heldur en ,,kvíðakynslóðina“?

4.      
Því sjónarhorn skiptir máli. Það er mikilvægt að horfa til þess hvernig við staðsetjum okkur í eigin lífssögu.      
Ég er ekki að tala um að setja upp Pollyönnu-gleraugu og láta sem ekkert sé, heldur þvert á móti þá er tilgangsrík sýn á lífið í eðli sínu innblásin af bjartsýnni ábyrgð.
Ég hef sjálfur nokkrum sinnum þurft að staðsetja mig upp á nýtt í eigin lífssögumódeli. Það hefur ekki alltaf verið mér létt.
Ég hef líka kynnst því í starfi mínu við sálgæslu hve vandasamt verkefni það getur verið að endurskilgreina hlutverk sitt og sögu.
Ég hef rætt við fólk sem hefur orðið fyrir miklum áföllum, erfiðleikum, sorgum, veikindum.  
En þau eru ekki áföllin. Þau eru ekki erfiðleikarnir. Þau eru ekki sorgin. Þau eru ekki veikindin.  
Allt þetta er hluti af lífi þeirra og ætti ekki að horfa framhjá, ekki geri ég lítið úr því, en þau eru annað og meira.   
Veruleiki þeirra er annað og meira.   

Þú, kæri vinur, ert ekki kvíði þinn og ótti, þú ert ekki allt það sem getur fengið þig til þess að finnast þú vera að sökkva og drukkna.                 
Þú ert annað og meira, veruleiki þinn er annað og meira.
Í öllu þessu, sem er annað og meira, í því getum við mætt Guði.       
Og það gerum við nákvæmlega jafn vanmáttug og við erum.   

5.
Það gerðu Pétur og aðrir fylgjendur og vinir Jesú frá Nasaret.  
Saga þeirra er ekki saga sem var falin í skömm. Það er allt borið fram, því þrátt fyrir allt tókst þeim að lifa í ljósi reynslu sinnar fremur en skugga.      
Í gegnum guðspjöllin lesum við um trú þeirra og vantraust, hvernig þau gera mistök og misskilja, svo ótrúlega mennsk, alltaf eitthvað að ruglast.        

Sagan segir okkur frá því hvernig Jesús kallar Símon Pétur fyrstan til liðs við sig, strax þá fyllist Pétur vanmætti frammi fyrir Kristi – og hvert er svar meistarans frá Nasaret: ,,Óttast þú ekki.“
Jesús þreif seinna fætur Péturs, náðarverk sem Pétur átti svo erfitt með að þiggja. En Jesús sagði honum að til þess að þeir gætu átt samleið þá yrði hann að fá að þjóna Pétri.        
Það var líka Pétur sem upplifði sársaukann sem fylgdi því að afneita meistara sínum og vini, áður en haninn galaði þrisvar hafði Pétur sagt að hann þekkti Jesú ekki. Þeirri reynslu hefur Pétur þurft að vinna úr.  

Það er í lokakafla Jóhannesarguðspjalls sem Jesús spyr Símon Pétur:
,,Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“        
Þrisvar sinnum spyr hann Pétur þessarar spurningar.      
Alltaf er svarið það sama, í öll þrjú skiptin svarar Pétur:
,,Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“      
Þeir elskuðu hvorn annan.       
Jesús elskaði vin sinn Símon Jóhannesson og hann hafði trú á honum.        
Það var Jesús sem gaf honum nafnið Pétur. Það merkir klettur.         

Í ást sinni var Jesús líka heiðarlegur. 
Hafið þið tekið eftir því hvað við getum verið heiðarleg á stundum við fólkið sem við elskum mest? Á ögurstundu sagt nákvæmlega það sem okkur býr í brjósti, svo mjög að við gerum það svolítið glannalega? Jafnvel mjög glannalega, verðum svolitlar samskiptabrussur.
Og hafið þið tekið eftir því hvernig kærleikurinn okkar á milli getur dýpkað þegar við fótum okkur áfram í gegnum slík samskipti, þó það geti stundum verið óþægilegt?
Þegar Jesús ávítar Pétur í guðspjalli dagsins held ég að við séum að verða vitni að slíkum samskiptum.        

6.               
Í guðspjalli dagsins segir Kristur: ,,Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“
Englar Guðs segja ,,óttist ekki“ þegar Jesús fæðist og þeir segja ,,óttist ekki“ þegar Jesús deyr.
,,Hjarta yðar skelfist ekki, trúið á Guð og trúið á mig“ segir Jesús við vini sína þar sem þeir borða saman í síðasta sinn.     
,,Óttist ekki“ sagði Jesús við vini sína þegar hann birtist þeim eftir upprisuna.
,,Sjá, ég er með ykkur alla daga, allt til enda veraldar.“  

Þetta er sagt svo oft því Guð veit að við þurfum að heyra þetta svo oft.       
Og það er eðlilegt.         

7.
Í fermingarfræðslu á síðasta ári ræddi ég þetta guðspjall við fermingarbörnin og úr varð nokkurs konar einkahúmor á milli okkar sumra, þegar við mættumst spurðum við hvort annað við og við hvort við værum að ganga á vatni.    

Því fyrir okkur snýst sú ganga um kjarkinn til þess að stíga fram til móts við lífið, að reyna að ganga á vatni, ekki því við vitum að við erum tilbúin og getum það, heldur einmitt vegna þess að við vitum ekki hvort við séum það en við erum tilbúin til þess að láta á það reyna.    
Það heitir sigur.    

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda,    
Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 03.02.2019