Boð og bönn

by Mar 24, 2019Blogg, Forsíðufrétt, Prédikun

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Stundum kemur setning, sem að mínu mati er ein ósanngjarnasta setning Biblíunnar upp í huga minn. Þetta gerist einkum þegar ég ræði við fólk sem líður illa vegna brotinna samskipta sem oft orsakast af óboðlegum aðbúnaði í uppvextinum, svo sem drykkjuskap og óreglu foreldra með tilheyrandi andlegu og stundum líkamlegu ofbeldi. Foreldrarnir höfðu þá undantekningalítið sjálfir haldið laskaðir út í lífið frá heimili þar sem andlegum og tilfinningalegum þörfum þeirra var ekki sinnt af foreldrum sem maður ímyndar sér að hafi enn og aftur verið vannærðir tilfinningalega allan sinn þroskaferil og þannig koll af kolli. Stundum fæ ég það á tilfinninguna að þjáning af völdum getuleysis til að eiga eðlileg og nærandi samskipti gangi í gegn um ættir eins og illur arfur kynslóð fram af kynslóð.

Ég efast um að þetta sé eitthvað nýlegt fyrirbæri í samfélagi manna. Svona hefur þessu áreiðanlega verið farið frá alda öðli.

Hinir fornu Hebrear höfðu Guðsmynd allólíka þeirri sem við flest gerum okkur í dag. Í þeirra huga var Guð einfaldlega valdur að öllu, hann skrifaði framvindu sögunnar, bæði hið góða og slæma. Uppskerubrestur var refsing Guðs og góðæri var umbun Guðs. Ef herinn tapaði orrustu var Guð að hegna honum, ef hann vann var það Guð sem gaf sigurinn.

Hvernig upplifir fólk með slíka Guðsmynd þetta arfgengi þjáningarinnar sem ég var að lýsa? Er hugsanlegt að það myndi leggja Guði orð í munn á borð við: „Ég refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig.“ (2Mós 20.5)

Það er gömul staðreynd og ný að syndir feðranna koma niður á börnunum. Það er líka óskaplega ósanngjarnt.

Er Guð ósanngjarn?

Boð og bönn

Við heyrðum boðorðin tíu lesin áðan. Í fullri lengd. Myndbannið líka, boðorðið sem kristnir menn eru stundum, með nokkrum rétti, sakaðir um að hafa ritskoðað burt. Þetta er langur lestur og Guð kann að virðast kröfuharður og ósveigjanlegur húsbóndi.

Sjálfum þótti mér Guðsmyndin sem þarna kemur fram mjög fráhrindandi megnið af mínum andlega þroskaferli. Þessi Guð valdboðsins að ofan, Guð reglna sem skikka okkur til að bæla tilfinningar okkar og kenndir, Guð hins bendandi fingurs sem byrjar allar setningar á „Þú skalt ekki …“, Guð boða og banna – hann er ekkert mjög aðlaðandi.

Ég átti tal við einn kollega minn í vikunni og hann sagði frá upplifun sinni af því að horfa á son sinn spila fótbolta við jafnaldra sína á skólalóðinni. Hvað var það fyrsta sem þeir gerðu? Sem þurfti að gera áður en leikurinn gat hafist? Jú. Það þurfti að koma sér saman um reglur. Hvenær er boltinn kominn út af? Hvar eru mörkin? Hvað leyfist markmanninum? Má hann taka boltann með höndum?

Þetta var nauðsynlegt til að hægt væri að hafa gaman af leiknum. Það gengur ekki að sá sem á boltann setji bara reglurnar jafnóðum eftir því sem hentar honum. Að sá stærsti og sterkasti, feitasti og frekasti í hópnum fái að tuddast og brjóta á öðrum og við því sé ekkert hægt að gera.

Eðlileg og heilbrigð samskipti krefjast þess að um þær gildi reglur. Og þótt okkur geti fundist reglurnar sem Guð setur okkur með borðorðunum tíu ósanngjarnar gagnvart okkur þá held ég að við myndum nú flest vilja lifa í samfélagi þar sem aðrir fara eftir þeim.

Friðhelgi

Lykillinn að þessum reglum er að þær gilda um alla. Ekki bara um bændur og búalið, þurfalinga og þjónustufólk heldur líka um háu herrana. Líka um þann sem á boltann og þann sem gæti neytt aflsmuna til að hafa sitt fram á kostnað hinna.

Og um hvað eru þær?

Þær eru um friðhelgi.

Þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast eigur náunga þíns. Eigur þínar eru friðhelgar.

Þú skalt ekki drýgja hór. Þetta hefur minnst með kynlíf  og kynhvöt að gera, stimpla, vígslur og skráningu hjúskaparstöðu í þjóðskrá. Þetta snýst um að virða trúnað, að standa við heitorð. Tilfinningalíf þitt, fjölskyldulíf þitt er friðhelgt. 

Þú skalt ekki ljúga upp á aðra. Mannorð þitt er friðhelgt.

Þú skalt hvíla þig einn dag í viku. Og ekki bara þú. Þjónar þínir og jafnvel útlendingarnir, heiðingjarnir sem dvelja hjá þér, skulu fá að hvíla sig einn dag í viku. Þú átt ekki að þræla þér út. Mannleg reisn þín er friðhelg.

Og það eru ekki bara samskipti þín við aðra sem varin eru í þessum reglum. Samskipti þín við Guð eru það líka. Sálarheill þín er friðhelg.

Þú skalt ekki falla fram og tilbiðja dauða hluti, ekki telja þér trú um að Guð búi í gullstyttu eða steinlíkneski, að hamingjuna sé að finna í steinsteypu eða stáli. Þú skalt ekki aðra Guði hafa. Því hvernig ætti lifandi Guð að geta tekið sér bólfestu í dauðum hlut? Við erum sköpuð í mynd Guðs. Öll. Þess vegna eigum við ekki að búa okkur til dauðar myndir af honum heldur koma hvert fram við annað eins og Guðsmyndirnar sem við erum – líka útlendingana sem dvelja meðal okkar.

Lögmál hjartans

Þetta eru góðar reglur. En eru þær nauðsynlegar? Gerir gott fólk þetta ekki af sjálfu sér?

Páll postuli talar í Rómverjabréfinu um að heiðingjar sem aldrei hafi heyrt lögmálsins getið hafi það skráð í hjörtu sín ef þeir breyta samkvæmt því af eðlisávísun. Það verður enginn hólpinn af því að hafa þetta lögmál, menn verða hólpnir af því að breyta samkvæmt því, hvort sem þeir hafa það fyrir framan sig á prenti eða ekki, hvort sem þeir hafa svarið eið að því að fylgja því eða ekki.

Það verður enginn saddur af því að lesa uppskrift að brauði. Það þarf að gera það sem stendur í uppskriftinni. Það er brauðið sem gerir menn sadda, ekki uppskriftin.

Þetta er góð uppskrift. En það þarf að baka brauðið og þá gildir einu hvort eða hvernig uppskriftin er fengin.

Það er aðeins einn galli á þessum reglum. Þær klifa á syndinni.

Í Rómverjabréfinu fullyrðir Páll postuli beinlínis að lögmálið hafi vakið með honum synd með því að útskýra hvað í hugtakinu felst fyrir honum, að án lögmálsins hefði hann aldrei vitað hvað synd væri. „Ég hefði ekki vitað um girndina hefði lögmálið ekki sagt: „Þú skalt ekki girnast,“ segir hann. (Róm 7.7) Þessar reglur segja hvað ber að forðast, ekki að hverju ber að stefna.

Jesús stillir þessu öðruvísi upp. Hann er spurður að því hvert sé æðsta boðorðið og hann leitar ekki fanga í boðorðunum tíu heldur vitnar í 6. kafla 5. Mósebókar þar sem segir: „Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.“ Svo bætir hann við setningu úr 19. kafla 3. Mósebókar: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Þetta er kallað tvöfalda kærleiksboðorðið og er bein tilvitnun í lögmál gyðinga.

En þetta eina kærleiksboðorð er kannski í rauninni þrefalt þegar grannt er skoðað.

Eitt eða tíu?

Galdurinn við þetta æðsta boðorð okkar kristinna manna er að það felur öll hin tíu í sér – án þess að minnast einu orði á syndina. Lygar, hórdómur, morð, þjófnaður og skurðgoðadýrkun … ekki eitt orð um neitt af þessu. Elskaðu Guð og náungann eins og sjálfan þig. Einfalt. Ein regla, ekki tíu. Við þurfum bara eitt boðorð.

Því sá sem raunverulega elskar Guð … hann tilbiður ekki dauða hluti, hann telur sér ekki trú um að gull eða steypa  geti gert hann hamingjusaman. Sá sem raunverulega elskar náunga sinn … hann er ekki að ljúga upp á hann eða stela frá honum.

En stöldrum við niðurlagið. „Eins og sjálfan þig?“

Þýðir það að ef ég elska sjálfan mig ekki þá sé ég stikkfrí frá því að elska aðra? Nei. „Eins og“ þýðir ekki „jafnmikið og“ heldur „sem og“. Það að við eigum að elska náungann eins og okkur sjálf þýðir að við eigum að elska okkur sjálf eins og náungann.

Sjálfselska hefur í gegn um tíðina þótt löstur, flokkast undir synd en ekki dyggð. En í raun skikkar þetta boðorð okkur til að elska okkur sjálf … ekki á kostnað annarra, ekki með leti og sérhlífni. Heldur að sýna okkur sjálfum sömu virðingu og eðlilegt er að sýna öðrum.

Þetta er nefnilega snúið. Margoft hef ég orðið vitni að skyldurækni sem fer út í hreinar öfgar. Fólk sem leggur á sjálft sig hluti sem það myndi aldrei leggja á aðra, hvorki sína nánustu né undirmenn sína. Fólk sem gerir kröfur til sjálfs sín sem það myndi aldrei gera til annarra. Fólk sem á erfitt með að fyrirgefa sjálfu sér hluti sem það er meira en reiðubúið til að fyrirgefa öðrum.

En Jesús segir: „Berðu sömu virðingu fyrir þér og þú berð fyrir öðrum, sýndu sjálfum þér sömu tillitsemi.“

Sjálfsvirðing þín er friðhelg.

Einn Guð

Jesús Kristur er ekki að segja okkur frá einhverjum allt öðrum Guði en þeim sem talar við okkur í boðorðunum tíu. Hann er að tala um nákvæmlega sama Guð, sömu reglur. Virtu friðhelgi sambands þíns við Guð, virtu friðhelgi mannlegrar reisnar þinnar og annarra, virtu tilfinningalíf þitt og annarra, virtu heit þín og annarra. Virtu sjálfan þig … og aðra.

En Jesús segir okkur allt öðruvísi frá þessum Guði. Jesús sýnir okkur ekki Guð hins bendandi fingurs sem dæmir okkur fyrir að bregða út af boðum hans. Jesús sýnir okkur Guð hins opna faðms sem segir: „Komið til mín, þið sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita ykkur hvíld.“ (Matt 11.28)

Og hann kallar okkur ekki í þennan náðarfaðm með því að banna okkur neitt heldur með því að bjóða okkur eitt:

Elskaðu!

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 24. mars 2019