Fjölskylduguðsþjónusta í Laugarneskirkju 31.mars kl.11:00

by Mar 29, 2019Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir

Kæru vinir, sunnudaginn 31.mars verður sérstök fjölskylduguðsþjónusta í Laugarneskirkju kl.11:00.

Sr. Hjalti Jón þjónar ásamt messuþjónum og ungleiðtogum. Tónlistarfólkið Hrafnkell Már, Leó Ingi og Emma Eyþórsdóttir flytja fyrir okkur framsamið efni auk þess sem við munum syngja saman vel valda sálma.
Ræðumaður dagsins verður Jakob Frímann Þorsteinsson, aðjúnkt við Háskóla Íslands og tómstundameistari með meiru. Jakob ætlar að vera með hugvekju í tengslum við þemaorð dagsins ,,Áhugamál & ástríður”.

Í guðsþjónustunni munum við í samhengi velta því fyrir okkur hvernig trúarlíf okkar eigi sér ekki aðeins birtingarmynd í hinni innri sálrænu sannfæringu, heldur í framkvæmd daglegs lífs.
Hvernig trú okkar og sú næring sem við drögum frá henni getur orðið og verður áþreifanlegri dag frá degi.

Í guðspjalli sunnudagsins segir:

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir hefur eilíft líf. Ég er brauð lífsins. Feður ykkar átu manna í eyðimörkinni en þeir dóu. Þetta er brauðið sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því deyr ekki. Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.
(Jóh.6:47-51)

Verið hjartanlega velkomin í Laugarneskirkju í fjölskylduguðsþjónustu!

Myndin sem fylgir með fréttinni er af þeim Írisi Eir Árnadóttur, Júlíu Helgu Kristbjörnsdóttur og Sólrúnu Dögg Jósefsdóttur, en þær eru allar starfandi ungleiðtogar í Laugarneskirkju.
Síðastliðinn miðvikudag útskrifuðust stúlkurnar úr Farskóla Leiðtogaefna. Við óskum þeim, fjölskyldum þeirra og söfnuðinum okkar í Laugarnesinu innilega til hamingju með þennan merka áfanga!