„Já, ég þekki hann.“

by Mar 11, 2019Blogg, Forsíðufrétt, Fréttir, Prédikun

Guðspjall: Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti svo að hismið kæmi í ljós. En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.“ 
En Símon sagði við hann: „Drottinn, ég er reiðubúinn að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða.“ 
Jesús mælti: „Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag munt þú þrisvar hafa neitað því að þú þekkir mig.“
(Lúk.22:31-34)

1.

Ég leitaði í gær á hinum ýmsu brandarasíðum að brandara um afneitun. Sá skásti sem ég fann var þessi:     

Hafið þið heyrt um manninn sem var í afneitun um að vera háður bremsuvökva?
Hann sagðist geta stoppað hvenær sem er.

Afneitun getur verið ógnarsterkt afl.  Í sama kafla og Pétur fullyrðir við meistara sinn og vin að hann muni ekki afneita honum, hann muni fylgja honum í fangelsi og dauða komi til þess;        
Í þessum sama kafla segir frá afneitun Péturs.

Spádómur Krists sem við heyrðum lesinn áðan verður að veruleika.  

Afneitun Péturs virðist hafa komið til af þokkalega meðvituðum, en eftilvill þó ósjálfráðum, varnarháttum. Pétur er í hættulegum aðstæðum, líf hans liggur við. Við getum eflaust öll hér skilið að það er eitt að koma með yfirlýsingar um heilindi og hugsjónir, annað að fylgja þeim eftir þegar á hólminn er komið.
Theoría og praxis fara ekki alltaf saman.       

Þegar ógnin er eða virðist jafn raunveruleg orðin og raun ber vitni á þessum tímapunkti frásagnarinnar, þegar taugakerfið er útþanið og afkomuóttinn algjör, þá taka við tryggingakerfi tilvistarinnar.         

„Ég þekki hann ekki“ segir Pétur.        

Pétur fyllist undrun og djúpum sársauka þegar hann áttar sig á því hvað hann hefur gert.         

2.

Það er hægt að afneita á meðvitaðan hátt, en afneitunin getur ekki síður verið og er gjarnan, ómeðvituð. 
Afneitun getur aftrað bata okkar og vexti, en hún byggir líka grunnstoðir sínar oft á svo miklum sársauka.     
Þess vegna er síður en svo að afneitun sé í eðli sínu óeðlileg.    
           
Elisabeth Kubler-Ross sagði í samhengi við sorgarúrvinnslu að afneitun geti hjálpað okkur.
Í yfirþyrmandi aðstæðum getur afneitunin verið náðargjöf, hún er ein af leiðum náttúrunnar til þess að varðveita okkur og reyna að aftra því að aðstæður lífsins beri okkur ofurliði.  

Afneitun getur hjálpað um stund, en hún er ómögulegur endapunktur.       
Einhvern tímann verður afneitun að taka enda og hreyfing að eiga sér stað. Hreyfingin frá afneitun að ábyrgð.         
Oftar en ekki er fyrsta skrefið í átt að viðeigandi ábyrgð viðurkenning á vanmætti.           

Þegar við horfumst í augu við eitthvað í aðstæðum okkar og eðli sem við höfum ekki stjórn á, eitthvað sem er okkur um megn… en hrópar eftir breytingum.            

Kannski er það þegar streita og álag í starfi er orðin slík að það þarf að hægja á.   
Kannski er það þegar vínflaskan er hætt að vera þokkalega hóflegur hluti af góðri stundu og orðin hækja og harðstjóri, hvort tveggja í senn.     
Kannski er það þegar ríkasta 1% heims á meira en helming allra auðæfa.    
Kannski er það þegar okkur verður fyllilega ljós staða vistkerfa okkar, súrnun sjávar og bráðnun jökla.

Þegar við hugsum um guðspjall dagsins á þann hátt getur okkur orðið ljóst að það er á ýmsa vegu hægt að afneita Kristi.      

3.

Haninn galar, heimurinn hlýnar og hvað getum við gert?           

Undanfarin misseri hefur aukist umfjöllun um það hvernig rannsóknum á loftslagsbreytingum hefur verið afneitað.       
Á ensku er komið hugtak yfir þetta, „climate denialism“.           
Okkur hefur verið sýnt fram á með margvíslegum rannsóknum að bjálkinn standi fastur í auga okkar, en ákveðinn hópur fólks vill meina að það sé nú bara túlkunaratriði hvort það sé óhollt fyrir okkur eða ekki, eða hvort bjálkinn sé yfirhöfuð til – þó hann sé vissulega áþreifanlegur!   

Í grein Arnars Pálssonar og Hrannar Egilsdóttur á Kjarnanum frá 2017 er vandinn greindur og þrjú atriði talin upp til að skýra afneitun gagnvart loftslagsvandanum. Þau geti verið:     
1. Skortur á skilningi á því hvernig vísindalegar rannsóknir fara fram og því hlutverki sem vísindin hafa í samfélagi manna           
2. Vegna blindrar trúar á tæknilegar lausnir eða mátt markaðarins    
3.  Af eindregnum vilja til þess að ljúga, t.d. til að vernda eigin hagsmuni eða ganga erinda hagsmunaaðila.     

„Ég þekki hann ekki“, sagði Pétur.      

Meðvitund almennings virðist hinsvegar aukast frá degi til dags og pressan sem sett er á stjórnvöld með.     

Ein birtingarmynd afneitunarinnar er hvernig við getum fórnað höndum og litið undan þegar verkefni virðast okkur ofviða. Kannist þið við þetta?
Ég viðurkenni fúslega að hafa iðkað þessar hreyfingar í eigin lífi.         

Hvað loftslagsmálin varðar hef ég hinsvegar í vetur fundið fyrir innblæstri til þess að gefast ekki upp og gera betur, því ég hef verið svo lánsamur að vera í kringum fólk sem eru eldsálir og hafa trú á verkefninu. Í því samhengi langar mig að minnast á fermingarbörnin og þau ungmenni sem ég kynnist í æskulýðsstarfinu.        
Þau eru ljósárum á undan mér þegar ég var á þeirra aldri og þau vita og kunna helling sem ég geri ekki.      

Við getum ekki afneitað þeim verkefnum sem vistkerfi okkar mæta.  
Við getum aðeins reynt að taka rétta og viðeigandi ábyrgð.                  

Ein af afleiðingum hnattrænar hlýnunnar er staða flóttafólks og hælisleitenda.     
Við árslok 2017 kom fram skýrsla frá Columbia háskóla sem spáði því að haldi hnattræn losun gróðurhúsalofttegunda áfram með óbreyttum hætti næstu áratugina er von á að fjöldi hælisleitenda í Evrópu þrefaldist fyrir árið 2100.

Við vitum að nú þegar er gríðarlega stór hluti hælisleitenda og flóttafólks fólk sem finnur fyrir þörf til að flýja heimili sín vegna ótryggra aðstæðna tengda veðurfari.          

Aðstæðna sem stuðla ekki aðeins að fólksflótta, heldur einnig átökum og óstöðugleika.
Við sem samfélag höfum á undanförnum árum þurft að mæta þeirri spurningu hvernig við ætlum að mæta bræðrum okkar og systrum sem leita hingað í neyð.
Enn er verið að vísa fólki úr landi, enn er verið að senda börn úr landi í ótryggar aðstæður.      

4.

En hvað er ég eiginlega að ræða þessa þætti hér í kirkjunni?    
Hvað varðar þetta trú okkar?   

Þetta varðar trú okkar því viðfangsefni trúarinnar er lífið sjálft, lífið í heild sinni. Þar er ekkert undanskilið.            
Það hugrekki sem við ræktum hér er hugrekkið til þess að spurja okkur erfiðra spurninga. Hugrekkið til þess að efast. Hugrekkið til þess að trúa.    
Ég ætla ekki að þykjast hafa svörin og lausnirnar, ég er ekki handhafi sannleikans.           
En ég vil leitast við að vera hluti af samfélagi sem er að leita sannleikans.    
Í sameiningu, af eldmóð og íhugun.   

„Trúin.. er ópíum fólksins“ sagði Karl Marx. Margir hafa látið í veðri vaka að fólk umgangist trú og trúarbrögð til þess að sefa og afneita, til þess að sætta sig við það sem óásættanlegt er. Vel má vera að margir geri það.    
Mín reynsla er þó sú að ég hef mun oftar orðið vitni að annarri nálgun hjá fólki. Nálgun þar sem trúin er afl sem ekki er beitt til þess að afneita, heldur til þess að hjálpa okkur að horfast í augu við lífið.       
Hjálpa okkur að taka ábyrgð á sjálfum okkur.         

Nú á öskudaginn gekk tími föstunnar í garð í kirkjunni okkar og  fastan gefur okkur tækifæri til þess að leita inn á við.                 
Sjálfsskoðunin getur verið erfið, það getur verið okkur erfitt þegar við mætum þáttum í innra eða ytra lífi okkar sem kalla eftir endurmati.           
Þá er dýrmætt að vita af því að við göngum aldrei ein.    

Jesús glataði aldrei trú sinni á Pétri.   
Stöðugt hvetur hann Pétur áfram, eins og aðra vini sína, í guðspjöllunum.  
Í guðspjalli dagsins segir Kristur:          
„En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.“  

Trú Péturs þraut ekki að lokum, hún fann sína leið á ný.

5.

Einn af vinum mínum og samstarfsfélögum er frá Íran og þekkir það að hafa verið í stöðu hælisleitanda. Hann hefur þurft að upplifa margt sem ég myndi engum óska.

Nýverið vorum við að spjalla saman. Honum fannst ég eitthvað þreytulegur og virka áhyggjufullur og hafði orð á því við mig.       
Hann sagði mér að ég væri alltaf í bænum hans og í framhaldinu sagði hann mér nokkuð sem hreyfði djúpt við mér.     

„Málið er að þú veist kannski ekkert að fólk er að biðja fyrir þér, en það er verið að biðja fyrir þér. Það segir þér það sjaldnast frá því að ástæðulausu, en það biður fyrir þér.“    

Kæru vinir.  
Á hverjum degi er einhver sem á von og bæn í brjósti fyrir okkur, hvert og eitt.
Einhver sem nálgast hlýju okkur til handa í orðum, hugsunum, gjörðum.     
Einhver sem er að biðja bæn fyrir okkur eins og Kristur bað fyrir Pétri.         

Þegar við mætum freistingum afneitunarinnar, þegar við mætum aðstæðum og verkefnum sem geta virst okkur ofviða, já, líka þegar haninn galar í lífi okkar, líka þá – skulum við hafa hugfast að það er alltaf einhver sem á von fyrir okkur.    
Og við skulum reyna að vera stöðug í vonarbæn fyrir aðra.       

Þá megnum við kannski að segja og finna innra með okkur, áður en haninn galar þrisvar;          
„Já, ég þekki hann.“         

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður, um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 10.mars 2019