Áhugamál & ástríður, leirað & lifað.

by Apr 1, 2019Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir

Sunnudaginn 31.mars var sérstök fjölskylduguðsþjónusta í Laugarneskirkju, þar sem þemað var ,,áhugamál og ástríður”.

Þetta þema settum við í samhengi við guðspjall dagsins:

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir hefur eilíft líf. Ég er brauð lífsins. Feður ykkar átu manna í eyðimörkinni en þeir dóu. Þetta er brauðið sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því deyr ekki. Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.

Kristin trú er áþreifanleg. Orðið varð hold (Jóh.1:14).
Þannig getur helgun trúar okkar orðið áþreifanleg í okkar daglega lífi, þegar við fáumst við verkefni okkar og störf, áhugamál okkar og ástríður með sama hugarfari og Kristur (Fil.2:5).

Við vorum svo lánsöm að fá frábæran ræðumann, Jakob Frímann Þorsteinsson, sem ræddi við okkur um að lifa og starfa á þann hátt að áskoranir og færni haldist hönd í hönd og uppbyggi hvort annað.
Þannig geti skapast það sem kallast flæði.
Samkvæmt skilgreiningum getur flæði einkennst af því að við erum:
– Hugfangin
– Fókuseruð
– Finnum innri ró
– Höfum trú á því sem við erum að gera
– Höfum ekki áhyggjur af sjálfum okkur
– Gleymum sjálfum okkur
– Finnur ástríðu fyrir því sem við erum að fást við, köllun.


Í framhaldinu leiruðum við saman, börn og fullorðnir, á meðan sungið var Í bljúgri bæn.
Allir leiruðu eitthvað tengt áhugamáli eða ástríðu í eigin lífi.
Á meðan Hrafnkell og Leó sungu fyrir okkur um veginn, var gengið til altaris.
Vanalega mætum við til altaris með tvær hendur tómar og þiggjum altarissakramentið. Í þetta sinn lögðum við listaverk okkar úr leir fram fyrir altarið, ekki sem fórn heldur sem tákn um helgun okkar í daglegu lífi.
,,Miskunnsemi vil ég, en ekki fórnir” sagði Kristur. (Matt.9:12).

Á þennan hátt fengum við sem söfnuður tækifæri til að kynnast betur og rækta með okkur getu til að koma auga á þá næringu sem við þiggjum, ræktum og gefum áfram, dag frá degi.
Eins var í þessu fólgið tækifæri fyrir okkur til að minna okkur á að Guð er með okkur í öllu því sem við fáumst við, eins og segir í sálminum:
,,Nær en blærinn, blómið,
barn á mínum armi,
ást í eigin barmi,
ertu hjá mér Guð.”

Trú er annað og meira en einungis sálræn sannfæring, hún er lifandi veruleiki.
Hún mótar eins og leir líf okkar, bæði hvernig við erum og hvernig við gerum.