Hringadróttinssögu maraþon á föstudaginn langa

by Apr 15, 2019Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir

Á föstudaginn langa, 19. apríl, verður boðið til sannkallaðrar kvikmyndaveislu í safnaðarheimili Laugarneskirkju. Sýndar  verða kvikmyndir Peters Jacksons eftir sögum J. R. R. Tolkiens um Hringadróttinssögu (The Lord of the Rings). Kvikmyndirnar hlutu einróma lof á sínum tíma, þóttu jafnvel hafa brotið blað í kvikmyndasögunni og unnu samtals til ellefu Óskarsverðlauna.

Kvikmyndirnar þrjár verða sýndar í fullri lengd í viðhafnarútgáfu leikstjórans sem kom út á DVD eftir að myndirnar höfðu verið sýndar í kvikmyndahúsum. Þær taka samtals rúmar ellefu klukkustundir í sýningu, þannig að það verður bíó allan daginn.

Á undan hverri mynd mun sr. Davíð Þór Jónsson flytja örstutt erindi (10 mín) um Biblíu- og trúarstef í myndunum.

Aðgangur er ókeypis og öllum heimill, en rétt er að taka fram að í kvikmyndunum eru atriði sem geta valdið óhug hjá ungum börnum.

Engar veitingar verða í boði af hálfu kirkjunnar en það má taka með sér nesti.

Dagskráin verður sem hér segir:

Kl. 10:00               Föruneyti hringsins (The Fellowship of the Ring (2001))

Kl. 14:00               Tveggja turna tal (The Two Towers (2002))

Kl. 18:00               Hilmir snýr heim (The Return of the King (2003))