Kyrrðarbæn, alla daga í kyrruviku

by Apr 15, 2019Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir

,,Um allan heim nálgast þau sem játa kristna trú vikuna frá pálmasunnudegi til páskasunnudags með sérstökum hætti ár frá ári. Þessi vika, kölluð Dymbilvika vegna trékólfsins sem settur var áður fyrr í kirkjuklukkur til að gera tóninn daufari, heitir einnig Kyrravika, þó að almannarómur á Íslandi kalli hana í seinni tíð páskaviku. Hin heilaga kyrravika hefur alla tíð haft algjöra sérstöðu í trúariðkun kristninnar.”  
(úr pistli sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar, Dymbilvika og páskar,
http://tru.is/pistlar/2015/04/dymbilvika-og-paskar )

Það er vel við hæfi, nú þegar kyrravika er gengin í garð, að iðka kyrrðarbæn af krafti. Þessir dagar eru enda sérstaklega vel til þess fallnir að horfa inn á við og rækta andann.

15.-20. apríl verður kyrrðarbæn iðkuð daglega í Laugarneskirkju, kl.17:30.
Það eru allir velkomnir.
Fyrri reynsla af kyrrðarbæn er alls engin nauðsyn – í íhuguninni erum við öll ávallt í stöðu nýliðans.

Um kyrrðarbæn (af www.kristinihugun.is):

,,Kyrrðarbæn (e. Centering Prayer) er bæn án orða sem felur í sér að við samþykkjum nærveru Guðs og starf hans hið innra með okkur.

Í Kyrrðarbæninni drögum við athygli okkar í hlé frá hinu venjulega hugsanaflæði. Við höfum tilhneigingu til að samsama okkur þessu hugsanaflæði. En það býr meira undir, því djúpt hið innra með okkur er hið andlega svið (e. spiritual level). Kyrrðarbænin opnar augu okkar fyrir þessu djúpstæða sviði veru okkar.”


Leiðbeiningar við Kyrrðarbæn:

I. Veldu þér bænarorð (heilagt orð) sem tákn um þann ásetning þinn að samþykkja nærveru Guðs og starf hans hið innra með þér

II. Sestu og komdu þér þægilega fyrir með lokuð augu. Farðu í hljóði með bænarorðið sem tákn um samþykki þitt fyrir nærveru Guðs og starfi hans hið innra með þér.

III. Þegar hugsanir trufla okkur snúum við okkur ofur blíðlega að bænarorðinu á ný

IV. Að lokinni bænastund höldum við kyrru fyrir í þögn í tvær mínútur eða svo, með augun lokuð