Myndin af Jesú

by Apr 20, 2019Blogg, Forsíðufrétt, Prédikun

Guðspjall: Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig. Hann kemur þá að Símoni Pétri sem segir við hann: „Drottinn, ætlar þú að þvo mér um fæturna?“ Jesús svaraði: „Nú skilur þú ekki hvað ég er að gera en seinna muntu skilja það.“ Pétur segir við hann: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Jesús svaraði: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“ (Jóh 13.4-8)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Nákvæmasta Jesúmynd sem ég hef séð, eftir því sem ég kemst næst – alltjent frá vísindalegu sjónarhorni – er tölvuteiknuð. Hún sýnir þrekvaxinn, hraustlegan karlmann, suðrænan í útliti, nokkuð breiðleitan, með mikið nef, dökkeygan, augnbrúnamikinn, skeggjaðan og með stutt, hrokkið hár. Hann er með öðrum orðum allólíkur þessum dæmigerða Jesú sem við þekkjum af Biblíumyndum sunnudagaskólanna og flestum altaristöflum líka, þessum grannvaxna, síðhærða … oftast ljóshærða og bláeyga. Þessi Jesús er svolítið eins og Miðausturlanda útgáfan af Kolbeini kafteini.

Myndin er frá árinu 2002 og sýnir niðurstöður úr samstarfi breskra og ísraelskra fornleifafræðinga og réttarmeinafræðinga sem vildu fá vísindalega niðurstöðu í það hvernig Jesús leit raunverulega og endurgerðu í því augnamiði andlit dæmigerðs Palestínumanns við upphaf okkar tímatals. Í því skyni rannsökuðu þeir og mældu bein og höfuðkúpur Palestínumanna frá þeim tíma.

Ef við trúum frásögn guðspjallanna þá skar Jesús sig nefnilega ekki úr fjöldanum að ytra útliti. Þannig þekktu Rómverjar hann ekki í sjón, Júdas varð að benda þeim á hann með því að smella á hann kossi. Ef Biblíumyndirnar okkar væru réttar hefði Júdas ekki þurft að gera það. Hann hefði bara getað sagt: „Jesús er þessi ljóshærði, bláeygi sem er höfðinu hærri en allir hinir.“

Ekki neitt

En hvað segir þessi Jesúmynd okkur … um Jesú?

Mitt svar er … ekki neitt.

Hún segir okkur eitt og annað um okkur fylgjendur hans. Að til að við getum upplifað Jesú sem bróður okkar höfum við freistast til að breyta ytra útliti hans til að svipa til okkar, jafnvel þótt við vitum mætavel að Jesús var ekki Evrópumaður. Þetta er alþekkt. Víða í Afríku og í kirkjum svartra í Bandaríkjunum má til dæmis sjá myndir af Jesú sem greinilega er af afrísku bergi brotinn.

En um Jesú sjálfan segir þetta okkur ekki neitt sem skiptir máli… Þetta breytir engu um orð hans og gjörðir, á ekki að hafa nein áhrif á það sem hann er okkur. Þessi mynd hjálpar mér ekki að skilja Jesú eða dýpka vitundarsamband mitt við hann sem frelsara minn.

Hin myndin

En ég á mér aðra Jesúmynd sem er í miklu meira uppáhaldi hjá mér. Mynd sem hjálpaði mér að skilja … eitthvað sem mér fannst þá mikilvægt og finnst enn … og ég veit ekki alveg hvernig ég á að koma orðum að.

Sú mynd sýnir hinn dæmigerða, síðhærða, grannvaxna Evrópumann sem við þekkjum og er því án efa kolvitlaus út frá sjónarhóli vísinda og sagnfræðilegrar nákvæmni. Myndin er afsteypa af styttu eftir Bertel Thorvaldsen og hana er að finna á altari pínulítillar kapellu í Vatnaskógi. Kannski ræður staðsetningin einhverju um áhrif hennar á mig.

Þar stendur Jesús með útbreiddan faðminn og horfir niður. Ástæða þess er sennilega sú að frummyndin er ríflega þrír metrar á hæð og stendur í Vorrarfrúarkirkju í Kaupmannahöfn. Til er arfsögn um þessa styttu, sem afhjúpuð var árið 1838. Hún er á þá leið að upphaflega hafi Bertel Thorvaldsen gert litla útgáfu úr leir þar sem Jesús horfði til himins og hóf hendurnar til Guðs. Svo á Bertel Thorvaldsen að hafa tekið sér kaffipásu og þegar hann kom til baka höfðu hendurnar sigið og styttan lotið höfði og listamanninum fannst sú staða miklu betur heppnuð. Þetta er áreiðnalega hreinn skáldskapur.

En þessi stelling er dálítið ankanaleg á lítilli styttu sem stendur á altari fyrir framan mann því þegar maður stendur við altarið og horfir á hana er eins og Jesús líti undan, hann sé undirleitur og forðist augnsamband. Maður horfir eiginlega ofan í hvirfilinn á honum.

Ég starfaði um stund við fræðslu í Vatnaskógi og á mér hjartfólgnar minningar frá þeim tíma. Eftir erilsaman dag með misháværum og fjölmennum fermingarbarnahópum fór ég stundum út í kapelluna til að stilla hugann, fá ró í sinnið og eiga stund í næði. Stundum kom það fyrir að ég kraup við altarið og baðst fyrir.

Þegar ég kraup við altarið og leit upp … þá horfði Jesús beint á mig. Þessi Jesús er þannig gerður að til að ná augnsambandi við hann þarf að beygja hnén.

Og sú staðreynd segir mér miklu meira um Krist og samband mitt við hann heldur en vísindaleg úttekt á því hvernig hinn sögulegi Jesús gæti raunverulega hafa litið út á passamynd getur nokkurn tímann gert.

Að beygja hnén

Fyrir ofan dyrnar hér inn í þessa kirkju er letraður sálmur eftir Hallgrím Pétursson. Þennan sálm er víða að finna yfir kirkjudyrum. Hann er á þessa leið:

Þá þú gengur í Guðs hús inn,
gæt þess vel, sál mín fróma,
hæð þú þar ekki Herrann þinn
með hegðun líkamans tóma.
Beygðu holdsins og hjartans kné,
heit bæn þín ástarkveðja sé,
hræsnin mun síst þér sóma.

Í guðspjalli dagsins krýpur Jesús frammi fyrir lærisveinum sínum og þvær fætur þeirra. Við áttum okkur ekki á því hve mjög hann lítillækkaði sjálfan sig í augum samtímamanna sinna með því að vinna þetta verk. Enda sýpur Pétur hveljur, blessaður, og neitar að taka þátt í þessari sjálfsauðmýkingu meistarans.

En svar Jesú er skýrt: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“

Að fylgja Jesú

Jesús vill þjóna okkur en við eigum stundum erfitt með að þiggja það … því Pétur er við … blessaður karlinn sem svo oft misskildi og fattaði ekki alveg hvað var í gangi. Maðurinn sem vildi ekki að Jesús færi til Jerúsalem og fékk í staðinn kveðjuna „Vík frá mér, Satan.“ Maðurinn sem vildi gera þrjár tjaldbúðir á fjallinu til að gera öllum til hæfis. Maðurinn sem gekk á vatninu en trúði ekki sínum eigin augum og fór að sökkva. Maðurinn sem vildi verja meistara sinn og hjó eyrað af þjóni æðsta prestsins. Þetta er maðurinn sem Jesús grundvallaði kirkju sína á, gallagripurinn Pétur. Þú og ég og Pétur … við erum kirkjan.

Og öll viljum við væntanlega fylkja liði á bak við Jesú. Við viljum að hann eigi okkur að. Við viljum klæðast hertygjum ljóssins og berjast trúarinnar góðu baráttu. Við viljum að Jesús viti að við stöndum með honum, að hann geti stólað á okkur, að við erum hundrað prósent á bak við hann. Og jafnvel þótt við förum stundum fram úr okkur og föttum ekki allataf alveg hvað er í gangi frekar en Pétur … þá gerir það okkur ekki viðskila við veginn, sannleikan og lífið … frekar en Pétur.

Það er mikilvægt að við berjumst trúarinnar góðu baráttu. Að við brýnum raust okkar í þjóðfélagsumræðunni og gerum heyrinkunnugt hver grundvallaratriði kristilegs hugarfars og breytni eru og hvernig þau heimfærast upp á samtíma okkar hverju sinni. Að við tökum okkur stöðu með Jesú í baráttunni fyrir valdeflingu okkar minnstu bræðra og systra. Að við aðstoðum hann við að velta um borðum víxlaranna sem maka krókinn á óréttlætinu enn þann dag í dag og jafnvel ekki síður en þeir gerðu í Palestínu á fyrstu öldinni. Það er mikilvægt að við þegjum ekki um það að til eru skoðanir – jafnvel stjórnmálaskoðanir – sem eru ósamræmanlegar því að vera kristin manneskja. Ekki síst nú á dögum þegar slíkum skoðunum virðist illu heilli vaxa ört fiskur um hrygg, bæði hér á Íslandi og annars staðar. Þetta er mikilvægt og þetta er kristilegt.

Að þiggja Jesú

En við erum ekki stjórnmálaflokkur. Við getum tilheyrt þeim ýmsum, en við erum ekki hér vegna þeirra. Við erum samfélag. Kærleikssamfélag þar sem við samþykkjum hvert annað og umberum ágreining okkar um það sem ekki gengur beinlínis í berhögg við grundvallaratriði trúar okkar, umberum það að við föttum ekki alltaf öll nákvæmlega hvað er í gangi, ekki frekar en faðir kirkjunnar okkar gerði.

Við erum vissulega liðsmenn Krists og jafnvel á stundum talsmenn þeirra viðhorfa sem við samkvæmt okkar bestu vitund álítum að sé kristileg afstaða til helstu ágreiningsefna samtíma okkar.

En við getum verið svo miklu meira en það.

Ekki getum við bara verið í liði með Jesú, verið þátttakendur og fylgismenn og þjónað honum. Okkur ber líka að þiggja þjónustu hans. Annars eigum við enga samleið með honum. Ekki getum við bara verið lifandi limir á líkama Krists. Við getum gert Krist að lifandi sannleika í lífi okkar. Við getum innbyrt hann hér við altari Guðs og gert hann þannig að hluta af okkur sjálfum. Við getum þegið Jesú og þegið af Jesú … ekki bara gefið.

Og það ber okkur að gera.

Við getum öðlast andlegt vitundarsamband við okkar æðri mátt. Við getum kosið að trúa því að hann geri okkur andlega heil. Við getum ræktað og viðhaldið þessu sambandi, varðveitt andlega heilun og andleg heilindi okkar sjálfra.

Við getum beygt holdsins og hjartans kné frammi fyrir altari Guðs og horft beint í augun á Jesú Kristi.

Og hann horfir á móti með opinn faðminn.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju á skírdag, 18. apríl 2019