Að horfa og sjá, að hlusta og heyra, að skilja og skynja

by May 12, 2019Blogg, Forsíðufrétt, Prédikun


Guðspjall:
„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig. Ef þér hafið þekkt mig munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann.“
Filippus segir við hann: „Drottinn, sýn þú okkur föðurinn. Það nægir okkur.“
Jesús svaraði: „Ég hef verið með yður allan þennan tíma og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: Sýn þú oss föðurinn? Trúir þú ekki að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Það sem ég segi við yður eru ekki mín orð. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk. Trúið mér að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér trúið ekki orðum mínum trúið þá vegna sjálfra verkanna.

(Jóh.14:1-11)
    
1.
Ef ég ætti að tala um guðspjall dagsins í mjög stuttu máli myndi ég segja Jesú vera að kenna okkur að leita ekki langt yfir skammt.
Eins og Kristur segir: Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann.   

Það er svo gott að tengja við lærisveinana, því þeir eru eins og við getum verið – svolítið seinir að átta sig, það er svo oft sem vinir og fylgjendur Jesú flakka á milli þess að horfa og að sjá, flakka á milli þess að hlusta og að heyra.    
Þetta getur verið svo manneskjulegt. 
Við horfum, en sjáum ekki. Við hlustum, en heyrum ekki.      
Kannist þið ekki við þetta?     

Í pistli dagsins segir Páll: Ég horfi ekki á hið sýnilega heldur hið ósýnilega.

Kannist þið við það að vera að velta fyrir ykkur hvernig sé best að leysa vandamál og það er sama hvað þið hafið hugsað fram og til baka – svarið virðist svo óskaplega fjarlægt?     
Svo allt í einu, fyrirvaralaust, verður uppljómun.  
Ég veit ekki með ykkur en ég hef stundum þurft að stökkva fram úr rúminu og punkta hjá mér strax svo ég gleymi ekki.
Því hið nýja sjónarhorn getur verið svo mikil gjöf.         

Í starfi mínu fæ ég að hitta unga foreldra og oft fæ ég að heyra þau segja:   
„Ég vissi ekki að það væri hægt að elska svona.“ 
Sjónarhorn þeirra hefur breyst, það verður viðhorfsbreyting.   
Við erum kölluð til þess að horfa ekki aðeins á hið sýnilega, heldur einnig hið ósýnilega. Til þess að horfa eftir Guði.
 
Því hvað er að sjá kærleika? Hvað er að heyra í von og hvað er að skynja trú?
Þessa leyndardóma þekkjum við samt, þetta allt sjáum við með hjartanu.    

2.
Kínverski heimspekingurinn Mengzi (Mencius), sem fæddur var um 400 árum fyrir Krist, sagði: Það ætti ekki að vera örlög nokkurs að deyja í fjötrum.  
Fyrir Mengzi þýddi það að deyja í fjötrum að ná ekki að bregðast á heilsteyptan hátt við því sem hendir okkur.       
Í heimspeki sinni talaði Mengzi um að lífið er uppfullt af óreiðu; hæfileikaríkt fólk missir vinnuna, manneskjan sem við elskum hafnar okkur, það rignir yfir réttláta, já, við og við gerast atburðir í lífum okkar allra sem kippa undan okkur fótunum, allt í einu er eins og rökfesta heimsins hverfi.   
Í slíkum aðstæðum skiptir sjónarhorn okkar máli.

Mengzi (Mencius)

Við getum ekki réttlætt, rökrætt eða útskýrt burt óreiðuna og sársaukann sem getur birst fyrirvaralaust.      
En við getum reynt að mæta öllum verkefnum lífs okkar af virkri og lifandi afstöðu, keppst eftir því að halda áfram að horfa og sjá, hlusta og heyra.       

3.
Fyrr í vetur var mér boðið á fyrirlestur um sögu KFUM- og KFUK hér í Laugarnesi. Þar fékk ég að kynnast betur sögu Bjarna Ólafssonar.
Bróðir Bjarna, Friðrik Ólafsson, hafði verið fyrsti leiðtoginn í KFUM starfi drengja í Laugarnesi en Friðrik lést langt um aldur fram.  
Bjarni tók við uppbyggingu starfsins hér í Laugarnesi eftir andlát Friðriks.
Hér varð mikið og öflugt starf, það einkenndi Bjarna í starfi að vera skapandi og virkja drengina til þess að taka sjálfir ábyrgð á starfinu. Bjarni starfaði sem kennari í Laugarnesskóla og mér fannst magnað að heyra af því hvernig hann varði frídögum sínum í að skipuleggja skíðaferðir með krökkunum og aðra viðburði. Mér virðist sem hann hafi lifað og þjónað af mikilli köllun.
        
Hann teiknaði og byggði kapelluna í Vatnaskógi og ekki nóg með það heldur byggði hann einnig skólasel Laugarnesskóla í Katlagili. Þar sem svo óskaplega mörg börn hafa farið með kennurum sínum og samnemendum og átt góðar stundir.      
Blessuð sé minning Bjarna Ólafssonar og allra þeirra kvenna og karla sem tóku þátt í að byggja upp öflugt samfélag hér í Laugarnesi.

Kapellan í Vatnaskógi

Samfélag sem við stöndum enn vörð um, meðal annars nú í dag þegar við komum saman hér við kirkjuna kl.14:00 og göngum saman fylgtu liði á heimavöll Þróttar, því í dag er hverfishátíðin okkar Laugarnes á ljúfum nótum haldin hátíðleg.
Hátíð sem haldin hefur verið árlega um langt skeið. Allir sem að henni koma; skátafélagið Skjöldungar, foreldrafélög skólanna, grunnskólarnir og leikskólarnir, Þróttur, Ármann, Laugó, Laugarsel og Dalheimar, Skólahljómsveit Austurbæjar, áfram mætti telja…
… allir sem koma að þessari hátíð gefa af sér umfram það sem hægt væri að ætlast til og það er gert því fólk sér hvað það getur aukið seiglu og samheldni samfélagsins hér í Laugarnesinu.
Já, sjónarhorn okkar skiptir máli.


 
4.
Eins og við ræddum hér áðan þá veljum við ekki allt hvað hendir okkur, það er svo margt í reynsluheimi okkar sem við myndum ekki velja okkur. En það er okkar, eins og Mengzi vildi meina og eins og Jesús vill meina – að hafa áhrif á hvernig við vinnum með reynsluheim okkar.         

Lærisveinninn Tómas er alltaf táknmynd efasemdanna, hann spyr spurninganna sem við getum öll fundið brenna innra með okkur:   
En hvernig eigum við að hafa áhrif? Hvernig fer maður eiginlega að því að fylgja Guði? Hver er leiðin okkar? Hvað ef ég er ekki nógu góður, ekki verðugur? Hvað ef mér verður hafnað?   

Tómas spyr: Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?
Því Tómas er að hlusta á það sem Jesús hefur verið að segja þeim en hann hefur ekki enn alveg heyrt það.  

Jesús segir: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.         
Með því er Kristur að segja að vegferð okkar er ekki aðeins út á við, hún er jafn mikið, jafnvel enn frekar, inn á við.      

Við þurfum ekki að leggja í langferð í leit að Guði, Guð er hér. Guð er mitt okkar á meðal.     

„Þekkirðu mig ekki enn Filippus?“ Segir Jesús.    
„Sjáið þið ekki og heyrið ekki enn kæru vinir? Þið þurfið ekki að fara í langa vegferð til að finna Guð, þið þurfið ekki að yfirgefa þetta líf – þið þurfið bara að rifja upp annað sjónarhorn; í því er að finna nýja lífið“     
Þetta er það sem við stundum köllum hugarfarsbreyting.

Eitt algengasta goðsagnaminni menningar okkar er af vegferð hetjunnar sem leggur af stað í langferð í leit að kröftum og sigrum sem hún uppgvötvar að lokum að búi nú þegar innra með henni.         
Þannig verður það áhrifaríkari upplifun fyrir hetjuna að sigra Óttann, drekann innra með sér, heldur en þann dreka sem hún finnur í helli á ferðalagi sínu.    
Þegar hetjan hefur áttað sig á þessu og sigrast á sjálfri sér, snýr hún heim á ný og gefur áfram af þekkingu sinni. Hún hefur öðlast nýtt sjónarhorn.
Hún sér ekki lengur aðeins hið sýnilega, heldur einnig hið ósýnilega.

Við getum öll mætt drekanum hið innra og þegar óttinn grípur okkur er dýrmætt að muna fyrstu setningu guðspjallstextans sem við heyrðum í dag.         
„Hjarta yðar skelfist ekki, trúið á Guð og trúið á mig.“   

5.
Vorið sem ég var að klára 8. bekk átti ég um tíma svolítið erfitt með svefn. Það var á dögum eins og þessum sem við erum að lifa núna, dagurinn er allt í einu orðinn svo langur, nóttin svo stutt og svefn minn hefur reyndar oft ruglast á þessum árstíma.
Þetta vor hafði ég líka svolítinn kvíðaáhuga, það var ekkert sérstakt svo sem til að hafa áhyggjur af og óttast en þar sem ég sat andvaka upp í rúmi, ekki bara því ég hafði verið að lesa Stephen King, leitaði kvíðinn áhugasamur að viðfangi.  
Þá ákvað ég að grípa í Nýja Testamentið mitt, sem ég hafði fengið að gjöf í 7.bekk, aldrei stúderað neitt sérstaklega, en lá samt alltaf þarna á náttborðinu, til þjónustu reiðubúið.
Ég fletti handahófskennt upp á stað og las setninguna sem greip mig fyrst. 
Ég reyndar kannaðist við þessa setningu því þetta var sama setning og ég hafði dregið á miða í fermingarbúðum við Eiðavatn fyrr um veturinn.
„Hjarta yðar skelfist ekki, trúið á Guð og trúið á mig“    

Allt í einu varð kyrrð vornæturinnar áþreifanlegri, það varð eins og ég heyrði betur í kyrrðinni, eins mótsagnakennt og það hljómar en samt er ég viss um að þið skiljið mig.
Og allt í einu varð hljótt, innra með mér.    
Óttinn vék.
Sjónarhorn mitt hafði breyst.   

6.
Ég hef aldrei rætt þessa stund sérstaklega, fyrr en nú, en hún er mér dýrmæt.       
Því þó ég hafi svo óskaplega oft í lífi mínu villst frá veginum, sannleikanum og lífinu, þó ég hafi svo oft villst frá Guði og mun vísast gera aftur, þá rámar innsæi mitt alltaf í stundir sem þessar.       

Stundir sem við eigum og eru okkur áminningar um að það er satt sem Kristur er að segja við Tómas og Filippus í guðspjalli dagsins:      
Það er ekki svo langt í Guð. Guð er hér. Guð er núna.    
Guð er mitt okkar á meðal og Guð umvefur allt.   
Eftir ósýnilegum leiðum, eftir vegi sem við komum svo oft ekki auga á, sannleikanum sem kallar ekki aðeins eftir því að við hlustum, heldur að við heyrum, og lífinu sem kallar okkur til þátttöku og þjónustu.     
Þá vitum við að við þurfum ekki að hugfallast, jafnvel þótt okkar ytri maður hrörni þá endurnýjast dag frá degi okkar innri maður.
Við skulum því ekki leita langt yfir skammt. Guð er með okkur.       

Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju, 12. maí 2019.
Forsíðumynd eftir Kathrin Burleson