Lítil opinberun

by May 26, 2019Blogg, Forsíðufrétt, Prédikun

Um daginn varð ég fyrir einni af þessum litlu opinberunum sem öðru hverju verða í lífi mínu. Engu sem gjörbreytir þankagangi mínum og hugmyndum um lífið og tilveruna þannig að ekkert verður eins á eftir heldur meira svona … „aha!“

Það var fermingaræfing hér í kirkjunni. Fermingarbörnin voru saman komin ásamt foreldrum og við vorum að ganga í gegn um fermingarathöfnina svo að allir vissu hvar þeir ættu að standa og sitja og hvenær þeir ættu að gera hvort. Fermingarbörnin voru með sálmabækurnar sínar og við þurftum mjög oft að minna þau á að skilja þær eftir í sætinu þegar þau komu upp að altarinu til að fermast, svara þeirri spurningu játandi hvort þau ætluðu að leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs síns.

Skömmu síðar var ég með brúðkaupsæfingu. Hún þjónaði sama tilgangi, að brúðhjón, svaramenn og hringberar vissu nokkurn veginn hvar og hvenær þau ættu að standa og sitja. Þá varð ég að minna brúðina á að skilja brúðarvöndinn eftir í sætinu sínu þegar hún kæmi upp að altarinu til að játast eiginmannsefni sínu. Fyrir því eru aðallega praktískar ástæður, hún þarf að nota báðar hendur í annað, einkum til að draga hring á fingur eiginmanni sínum og það væri kauðskt ef hún þyrfti að leggja vöndinn frá sér á gólfið eða stinga honum undir handarkrikann á meðan.

En þá laust því niður í mig.

Maður kemur alltaf tómhentur að altari Guðs.

Allt skilið eftir

Maður skilur allt eftir í sætinu sínu. Ekki bara handfarangur eins og bækur og blóm … heldur allt hitt líka. Allt sem maður kemur með, allt sem maður burðast með í gegn um lífið. Fram fyrir Guð komum við öll, rík sem fátæk, sem allslausar beiningamanneskjur og biðjum. Þangað komum við aðeins til að þiggja. Þiggja skilyrðislausan kærleika Guðs.

Eða eins og segir í Passísálmum Hallgríams Péturssonar: „Þurfamaður ert þú mín sál.“

Þetta leiðir hugann að öðrum ummælum Jesú frá Nasaret þegar hann segir: „Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ (Mark 10.15)

Hvernig tekur barn við Guðs ríki?

Hvernig tekur barn við nokkru?

Ég myndi segja: Í fullkomnu trausti, í fullkominni auðmýkt. Hvítvoðungurinn spyr engra spurninga, gerir enga fyrirvara. Barnið kann aðeins eitt. Það kann ekki að efast, það kann ekki að vantreysta, kann ekki að vera stolt og hnarreist og yfir það hafið að þurfa á nokkru að halda frá nokkrum manni.

Barnið kann aðeins að þiggja. Og það er býsna flinkt í því. Líf þess beinlínis byggir á því að það sé fært um að þiggja. Þiggja ást, þiggja umhyggju, þiggja móðurmjólk. Barn sem skortir þennan hæfileika visnar upp og deyr.

Eini hæfileikinn sem við fæðumst með er hæfileikinn til að þiggja. Allt hitt lærum við seinna á lífsleiðinni.

Að viðhalda hæfileikum

En þessi hæfileiki … að kunna að þiggja … það er hægt að glata honum. Og það er miður þegar það gerist.

Það er algengara en tárum taki að fólk sem hefur allt sitt líf lagt upp úr því að vera sjálfstætt, standa á eigin fótum og vera engum háð … en lendir í því að þurfa að lokum á umhyggju og aðhlynningu annarra að halda, gangi í gegn um miklar andlegar raunir vegna þess. Andlegar raunir sem bætast ofan á bága líkamlega heilsu og gera illt ástand verra. Andlegar raunir sem stafa einvörðungu af því að þeim er um megn að sleppa tökum á stoltinu og reisninni og þiggja. Að þurfa á öðrum að halda.

Þessi hæfileiki, að kunna að þiggja, hann er mikilvægur og við ættum að standa vörð um hann og leitast við að halda honum við … að glutra honum ekki niður.

Og hvernig gerum við það?

Eins og við gerum allt annað sem við viljum vera fær í.

Við æfum okkur.

Og bænin er mjög góð æfing í því að þiggja.

Í bæninni göngum við til fundar við Guð og felum okkur honum á vald. Bænin er ekki, eins og margir virðast halda, aðferð til að sveigja vilja Guðs að sínum vilja, aðferð til að ná stjórn á Guði og fá hann til að gera það sem við viljum að hann geri. Þvert á móti. Bænin er aðferð við að gefa sig Guði á vald. Að leggja frá sér sálmabókina, blómvöndin, stoltið, reisnina, kenningarnar, dogmatíkina, okkar inngrónu skoðanir á því hvernig heimurinn ætti að vera … og lúta höfði og beygja kné í fullkominni auðmýkt.

Bænin felur nefnilega laun sín í sér sjálf. Til að biðja í sannri einlægni þarf auðmýkt. Og auðmýktin er dýrmæt gjöf.

Fullkomið traust

Sá sem haldið hefur á sofandi ungabarni í örmum sér veit hvað það er að hvíla í fullkomnu trausti í fangi einhvers og gera ekkert annað en að þiggja umhyggju og vernd. Hvílík sæla. Hvílíkt áhyggjuleysi.

Hvílík náð að geta lagt frá sér allt sem við burðumst með, við sem komum hingað með heiminn á herðunum, stoltið okkar og sjálfstæðið, reisnina, mannvirðingarnar, okkar virðulega stöðu í samfélaginu sem við höfum lagt svo mikið á okkur dag og nótt til að komast í og gætt þess vandlega að sýna aldrei veikleika, sofna aldrei á verðinum, gefa aldrei á okkur höggstað, vera með allt á hreinu … að skilja þetta allt eftir og verða eins og barn … og þiggja í fullkomnu trausti.

Gefandi samskipti í mannlegu samfélagi ganga út á þetta. Að gefa og þiggja … á víxl. Auðvitað er sælla að gefa en þiggja … það sjá allir í hendi sér. Auðvitað er betra að vera í stöðu þess sem til er leitað en hins sem þarf að leita ásjár. En að þiggja er að gefa … að gefa öðrum kost á að sýna hjartahlýju, að iðka kærleika, að rækta mikilvægasta og dýrmætasta grunngildi mennlegrar tilveru. Það er stórkostleg gjöf sem við gefum öðrum þegar við þiggjum kærleika þeirra.

Þannig má færa rök fyrir því að það sé argasta eigingirni að kunna ekki að þiggja, að vilja sitja einn að þeirri sælu að vera sá sem gefur og kunna ekki að veita öðrum hana.

Á sama hátt þiggjum við dálítið mjög dýrmætt þegar við gefum. Við þiggjum það að fá að ganga í ljósi Guðs. Við þiggjum það að fá að vera farvegur fyrir kærleika hans til allra manna.

Í guðspjalli dagsins lofar Jesús okkur því að Guð gefi þeim heilagan anda sem biðja til hans. Hann lofar ekki að Guð gefi okkur hvað sem við biðjum um. Hann gefur okkur ekki peninga eða lausn frá fjárhagsáhyggjum, hann gefur okkur ekki góða heilsu eða liðinu sem við höldum með sigur í næsta fótboltaleik. Hann gefur okkur heilagan anda.

Lykill bænarinnar

Þannig verður bænin lykill að samfélagi heilags anda. Kærleikssamfélaginu þar sem samskipti eru nærandi og gefandi, þar sem við gefum og þiggjum á víxl og mörkin þar á milli mást út þannig að engin leið er að henda reiður á því hver er að gefa og hver að þiggja hverju inni. Þar sem það að þiggja er að gefa og að gefa er þiggja og það er okkur svo eiginlegt að hlutirnir séu þannig að við veltum því ekki fyrir okkur hvort við séum að gera hverju sinni. Þar sem það að gefa og þiggja er ekki bara tvennt sem erfitt er að greina á milli heldur beinlínis eitt og hið sama.

Sá sem haldið hefur á sofandi ungabarni í örmum sér og upplifað hið fullkomna traust, hið fullkomna áhyggjuleysi veit ósköp vel að barnið er ekki bara að þiggja vernd og umhyggju. Að halda á litlu lífi í höndum sér og vera í vanmætti falið að vernda það og hlú að því … það er líka einhver dýrmætasta gjöf sem einni manneskju getur verið gefin.

„Sannlega segi ég yður,“ segir Jesús Kristur, „sá sem ekki tekur á móti Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“

Biðjið og yður mun gefast.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Náð og friður Guðs föður almáttugs, kærleiki Krists og samfélag heilags anda sé með okkur öllum.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 26. maí 2019, hinn almenna bænadag