Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það er gaman að eiga afmæli.

Það er að vísu ekki kristilegt í sjálfu sér að eiga afmæli. Afmælisveisla er ekki trúarhátíð, heldur meira eins konar sjálfshátíð. Þegar við fögnum afmælinu okkar erum við svolítið að halda upp á okkur sjálf og til eru söfnuðir sem líta slíkt mjög alvarlegum augum. Þar á bæ er afmælum ekki fagnað og gjarnan vísað til þess að í þau örfáu skipti sem minnst er á afmæli í Biblíunni endar það með ósköpum. Jóhannes skírari missti höfuðið í kjölfarið á afmælisveisluhöldum Heródesar konungs svo dæmi sé tekið. Og í Fyrstu Mósebók lætur faraó aflífa bakara nokkurn í tengslum við hátíðahöld vegna afmælis síns.

En við erum hvorki Heródes né faraó. Við gerum okkur ekki dagamun með því að valda dauða og tortímingu. Við erum um lífið og notum afmælið okkar til að fagna þeirri köllun okkar að þjóna lífinu og minna okkur á það hver við erum og um hvað við erum.

Í ár á Laugarneskirkja 70 ára afmæli. Við fögnum því vissulega … en það er ekki afmælið sem við fögnum í dag. Afmælisdagur Laugarneskirkju er 18. desember og því afmæli verður fagnað í kringum þá dagsetningu – nánar auglýst síðar.

Nei, í dag fögnum við miklu stærra og merkilegra afmæli. Reyndar vitum við ekki upp á hár hve gamalt afmælisbarnið er í dag, en það nálgast tvöþúsundasta afmælisdaginn sinn. Afmælisbarnið er kirkja Krists á jörð. Í dag minnumst við þess þegar hún varð til.

Í dag er nefnilega hvítasunnudagur.

Stofnfundurinn

Og hvað gerðist á hvítasunnunni? Var haldinn formlegur stofnfundur þar sem menn sammæltust um að koma á legg einhvers konar félagasamtökum um að heiðra og virða minningu Jesú frá Nasaret? Kannski með því að reisa af honum styttu eða boða til málþings um kenningar hans og áherslur í félagslegu, pólitísku og heimspekilegu samhengi?

Nei, það var nú ekki þannig. Það stóð ekki til að stofna eitt eða neitt. Lærisveinar Jesú komu saman til málsverðar, en þá … þeim að gjörsamlega óvörum … varð undur mikið. Við getum kallað það „tákn“ eins og Jóhannes guðspjallamaður kallar ævinlega kraftaverk Jesú. Í Postulasögunni er því lýst þannig:

„Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.“ (2.2-4)

Síðan er því lýst að þarna hafi verið staddir einstaklingar af fjölda þjóðerna og allir hafi heyrt lærisveinana mæla á móðurmáli sínu, máli sem þeir áttu ekki að kunna.  Arameískumælandi Galíleumenn hafi talað þannig að Partar, Medar, Elamítar, Mesapótamíumenn, Júdeumenn, Kappadókar, fólk frá Pontus-héraði við sunnanvert Svartahaf, fólk annars staðar frá þessu landsvæði sem í dag er kallað Litla-Asía en er bara kallað Asía í Nýja testamentinu, Frýgíumenn, Egyptar, Líbýumenn, Rómverjar, Kríteyingar og Arabar skildu það sem sagt var um stórmerki Guðs.

Þetta er vissulega mikið og magnað tákn … en hvernig tengist það því að kirkjunni sem stofnun hafi formlega verið hleypt af stokkunum?

Ekki neitt.

Ekki sem stofnun.

Sem samfélagi aftur á móti … heilmikið.

Hver á afmæli?

Það segir nefnilega heilmikið um kirkjuna, um sjálfsskilning hennar og köllun, að hún skuli miða upphaf sitt beinlínis við þennan atburð. Þar sem einstaklingar, innblásnir af heilögum anda, tala um stórmerki Guðs þannig að fólk skilur þá … þar er kirkja.

Þarna voru engir prestar eða biskupar, kardínálar eða páfar, engar kirkjubyggingar, klukkuturnar eða sáluhlið, engir vígðir helgigripir, ölbur, stólur, höklar og rykkilín. Ekkert orgel, enginn kór, enginn sálmasöngur eða helgisiðir. Aðeins menn sem fyrir gjöf heilags anda sögðu frá þannig að allir skildu.

Og þetta er það sem kirkjan á að gera enn í dag. Allt hitt er bara viðbót, góðra gjalda vert þegar það verður ekki miðpunkturinn og það sem allt snýst um. Kirkjan er ekki um helgisiði og sálmasöng, byggingarlist eða stigveldi vígðra embætta. Hún er um að segja frá stórmerkjum Guðs þannig að það skiljist.

Og þetta getur kirkjan aðeins gert fyrir gjöf heilags anda.

Hver er hún?

Þegar barn er skírt er gjarnan farið með bæn þar sem segir meðal annars: „Gef þessu barni heilagan anda að hann veki og glæði allt gott sem þú hefur fólgið í sálu þess.“

Mér þykir vænt um þessa bæn, mér finnst hún falleg og það sem meira er … mér finnst hún ná kjarnanum í því hvað gjöf heilags anda felur í sér samkvæmt mínum skiliningi.

Að hann veki og glæði allt gott sem Guð hefur fólgið í sálu okkar.

Við í kirkjunni eigum okkur fallega kveðju sem kölluð er postulleg og er höfð eftir Páli postula. Hún hljóðar svona: „Náðin drottins Jesú Krists og kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.“

Samfélag heilags anda.

Hús eða lýður Guðs?

Kannski ættum við að leggja þessu ógegnsæa og útlenska orði „kirkja“. Það er myndað út frá gríska orðinu „kyriakon“ sem merkir því sem næst „hús Drottins“ og var notað um samkomustaði kristinna manna. Ekki um þá sjálfa, ekki um samfélag þeirra heldur húsin þar sem þeir komu saman. Og Marteinn Lúther hefði sennilega sopið hveljur hefði hann einhvern tímann heyrt orðasambandið „lúthersk kirkja“. Honum hefði þótt það þversögn. Sjálfur var hann nefnilega eindreginn andstæðingur „kirkjunnar“ en í hans huga táknaði orðið einungis stofnunarbáknið sem miðstýrt var frá Róm. Sjálfur vildi hann losa sig undan kirkjunni og í skrifum hans notar hann aldrei orðið „kirkja“ um annað en Rómarkirkjuna, þá óbilgjörnu stofnun sem honum þótti hafa villst svo heiftarlega af leið. Sjálfur talar hann ævinlega um „Gemeinde“ eða „söfnuði“.

Orðið „kyriakon“ eða „kirkja“ var fyrst notað á þriðju öld eða um tvöhundruð árum eftir þá atburði sem greint er frá í Nýja testamentinu. Það var því engin kirkja sem talaði tungum á hinni fyrstu hvítasunnu, það var hópur lærisveina innblásinn af heilögum anda.

Það var samfélag heilags anda.

Í dag fögnum við því í raun ekki afmæli kirkju. Við fögnum ekki afmæli húss eða stofnunar. Við fögnum gjöf heilags anda. Við fögnum afmæli samfélags heilags anda.

Heilags anda sem vekur og glæðir allt gott sem Guð hefur fólgið í sálu okkar. Heilags anda sem gerir okkur kleyft að segja frá stórmerkjum Guðs þannig að við skiljumst.

Heilags anda sem lætur okkur skilja hvert annað.

Til hamingju með afmælið.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt við útimessu í tóftum hinnar fornu Laugarneskirkju á hvítasunnukvöld 9. júní 2019.