Listin mun bjarga heiminum

by Aug 5, 2019Blogg, Forsíðufrétt, Prédikun

Lexía: Orð Drottins kom til mín: Áður en ég mótaði þig í móðurlífi valdi ég þig. Áður en þú fæddist helgaði ég þig og ákvað að þú yrðir spámaður fyrir þjóðirnar. Ég svaraði: „Drottinn minn og Guð. Ég er ekki fær um að tala því að ég er enn svo ungur.“Þá sagði Drottinn við mig: „Segðu ekki: Ég er enn svo ungur. Þú skalt fara hvert sem ég sendi þig og boða hvað eina sem ég fel þér. Þú skalt ekki óttast þá því að ég er með þér til að bjarga þér, segir Drottinn.“ Síðan rétti Drottinn út hönd sína, snerti munn minn og sagði við mig: „Hér með legg ég orð mín þér í munn. Ég veiti þér vald yfir þjóðum og ríkjum til að uppræta og rífa niður, til að eyða og umturna, til að byggja upp og gróðursetja.“(Jer 1.4-10)

Pistill: Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla. Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist kom allur hópurinn saman. Þeim brá mjög við því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Menn voru frá sér af undrun og sögðu: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál? Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.“ Allir voru furðu lostnir og ráðalausir og sögðu hver við annan: „Hvað getur þetta verið?“ (Post 2.1-12)

Guðspjall: Síðan hélt Jesús úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns. Þá færa menn til hans daufan og málhaltan mann og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: „Effaþa,“ það er: Opnist þú. Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum en svo mjög sem hann bannaði þeim því frekar sögðu þeir frá því. Menn undruðust mjög og sögðu: „Allt gerir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“ (Mark 7.31-37)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ritningartextarnir sem við heyrðum lesna hér í kvöld eru ekki textarnir sem gert er ráð fyrir að lesnir séu á þessum sunnudegi í kirkjum landsins. Það eru innihaldsríkir og áhugaverðir textar, en ég valdi þessa fyrir þetta tilefni.

Allir eiga þeir það sameiginlegt að þeir fjalla um þá gjöf að mega mæla, að geta talað, að hafa eitthvað að segja. Og allir lýsa þeir því sem einhvers konar kraftaverki að geta haft áhrif með því að opna á sér munninn. Kraftaverki frá Guði föður, Jesú Kristi og heilögum anda.

Sjálfur Guð faðir almáttugur snertir munn spámannsins Jeremía og segir honum að fara og boða það sem honum er falið. Og Guð tíundar mátt orða hans. Með orðum sínum getur Jeremía beinlínis upprætt og rifið niður, eytt og umturnað … en líka byggt upp og gróðursett.

Heilagur andi kemur yfir lærisveinana og þeir fara að tala tungum. Fólk, sem þeir hefðu annars aldrei getað nálgast með orðum, aldrei getað snert með hugmyndum sínum eða hugsunum, skilur allt sem þeir segja. Komið er á sambandi. Og orðin hafa mátt.

Og Jesús Kristur, frelsari okkar, snertir tungu hins heyrnar- og mállausa og eyru hans opnast og hann talar skýrt. Hann er kominn í samband. Og Jesús frelsar manninn úr fangelsi og einangrun þagnarinnar og gerir honum kleyft að skiptast á hugsunum og hugmyndum við aðra með orðum sínum – með orði sínu. Orðið er „Effaþa“, „opnastu“. Máttur þessa orðs er slíkur að hinn heyrnarlausi heyrir það og verður frjáls.

Textarnir fjalla allir um mátt orðsins.

Og um yfirnáttúruleg kraftaverk.

Um kraftaverk

En hvað er kraftaverk?

Við höfum flest þann bókstaflega skilning á því orði að kraftaverk sé það þegar eitthvað gerist sem brýtur í bága við náttúrulögmálin, við grunnreglur eðlis- og efnafræðinnar og annarra raunvísinda. Þegar vatn breytist í vín, þegar menn ganga á vatni, þegar menn rísa upp frá dauðum – þá er það kraftaverk.

Og sá skilningur er í sjálfu sér ekki rangur. Hann snertir aftur á móti aðeins yfirborðið á því hvað kraftaverk í raun felur í sér.

Kraftaverk eru nefnilega alltaf kærleiksverk. Kraftaverk eru ekki bara eitthvað hókus pókus til að sýna mátt og megin. Kraftaverk Jesú eru aldrei í þágu hans sjálfs. Og þegar á hann er gengið að gera kraftaverk til þess eins að sýna að hann geti það … þá lætur hann það ógert.

Við skulum skoða kraftaverkin sem þessar þrjár sögur segja frá með þeim gleraugum. Þau eru kærleiksverk. Í öllum tilfellum er greinilega litið svo á að það sé á einhvern hátt frelsandi, lífgefandi og lífsfyllandi … að það sé þrungið heilagri merkingu og tilgangi að mega mæla. Og að sem slíkt sé það Guðs gjöf.

Þess vegna skulum við aldrei gleyma því að orðin okkar eru ekki bara eitthvað skraut. Þau eru ekki bara eitthvað hljóðrænt veggfóður til að gera umhverfi okkar notalegra og huggulegra. Og þau eru ekki einu sinni bara listaverk, ljóð og sögur, helgisögur – hvort sem þær standa í heilagri ritningu eða standa hjarta okkar nær á einhvern annan hátt og eru okkur þannig heilagar – ljóð og sögur sem miðla okkur dýpri og merkingarbærari sannleika um líf okkar og tilveru heldur en nokkur raunvísindi – með fullri virðingu fyrir þeim – fá nokkru sinni gert.

Þau eru verkfæri.

Um verkfæri

Þau eru verkfæri sem okkur eru gefin. Og með þeim getum við byggt upp og rutt brautir. Byggt upp kærleiksrík og manneskjuleg samfélög og greitt götu nýrra hugmynda, fegurðar og kærleika. Og við getum líknað og læknað og heilað með orðum okkar. En við getum líka, eins og spámaðurinn Jeremía, upprætt og rifið niður, eytt og umturnað. Meitt og skemmt.

Og við þurfum ekkert að lesa athugasemdakerfi fjölmiðla lengi til að sjá dæmi um orð sem ekki eru sett fram í neinum öðrum tilgangi en þeim einum að meiða og skemma. Og við þurfum ekki að fylgjast mjög ítarlega með fréttum til að verða vör við að þeir sem síst skyldi, þeir sem við treystum til að byggja upp samfélag okkar og stýra því á farsælan hátt, noti orð sín til að upphefja sjálfa sig á kostnað annarra, til að miðla … ekki nýjum og uppbyggilegum hugmyndum og leiðum að því að gera samfélag okkar farsælla og manneskjulegra … heldur aðeins eitri og hroða.

Orðum fylgir ábyrgð.

Við erum með máttugt eggvopn í höndunum … eða á tungunni … þegar við beitum orðum. Notum við það til að stinga og skera okkar minnstu bræður og systur, til að höggva mann og annan á leið okkar sjálfra til metorða eða að kjötkötlunum? Eða notum við það til að stinga á kýlum og skera burtu mein samfélagsins?

Við eigum val um það.

Skáldin okkar hafa valið að nota orðin sín til að snerta aðra með fegurð og sannleika. Sem í mínum huga fer alltaf saman. Því jafnvel þótt sannleikurinn geti verið ljótur er lygin alltaf ljótari. Og ekkert inniheldur dýpri og fegurri sannleika en góður skáldskapur.

Um ógnir

Hver eru brýnustu verkefni okkar? Hvar þarf allt gott fólk að taka til hendinni og beita þeim verkfærum sem því eru gefin til að byggja upp og gróðursetja, breyta og bæta?

Margt kemur upp í hugann.

Uppgangur þjóðernishyggju er vandmál og þetta orð, „þjóðernishyggja“, er gott dæmi um mátt orðanna. Það hljómar svo miklu betur að vera „þjóðernissinni“ heldur en að vera „útlendingahatari“ þótt á þessu tvennu sé enginn merkingarmunur, alltjent ekki ef litið er til orða og framgöngu þeirra sem mæla fyrir munn þessarar meintu „þjóðernishyggju“.

Hlýnun jarðar er sennilega langmesta ógnin sem steðjar að mannkyninu um þessar mundir. Allir marktækir vísindamenn hafa árum saman keppst við að vara okkur við því að fari sem horfir muni mannkynið standa frammi fyrir meiri náttúruhamförum og hörmungum en nokkru sinni fyrr í sögu sinni. Hörmungum sem leiða munu af sér flóttamannavanda án hliðstæðu í veraldarsögunni. Og það grátbroslega er að þeir sem vilja að sem minnst sé gert fyrir flóttafólk virðast vera þeir sömu og helst vilja skella skollaeyrum við þessum aðvörunum vísindamanna. Það er eins og þeir ímyndi sér að þegar búsvæði tugmilljóna manna verða orðin óbyggileg þá verði þrjúhundruðþúsund manna eyþjóð yfirhöfuð spurð að því hvort hún vilji hleypa fólki inn í sitt byggilega land.

En hvað er til ráða?

Um lausnir

Ég sá nýverið tilvitnun í virtan raunvísindamann sem benti á að til að bjarga reikistjörnunni okkar, að til að bregðast við þessari ógn, til að forða mannkyninu frá yfirvofandi hörmungum, þurfi engar frekari tækniframfarir. Það þarf ekki að uppgötva neitt sem ekki er búið að uppgötva til að snúa þróuninni við. Við vitum hvernig við getum skorið niður losun gróðurhúsalofttegunda. Við búum yfir tækni til að framleiða vistvæna orku. Við ráðum yfir aðferðum til að hreinsa höfin og bregðast við súrnun sjávar. Vísindin eru búin að vinna vinnuna sína.

Það sem vantar er hugarfarsbylting. Það þarf að breyta hugsunarhætti og gildismati manna til að bjarga þeim. Eða öllu heldur: Til að þeir bjargi sér. Og ekki bara breyta heldur bylta. Og það er ekki á sviði raunvísindanna að gera það.

Þar kemur til kasta þeirra sem snerta fólk andlega.

Það er á ábyrgð okkar sem höndlum með hinn djúpstæða sannleik trúarinnar í hjörtum manna að virkja hann upp í heila og fá þá, sem á annað borð játa trú, til að átta sig á því að það að gera það í raun krefst fórna.

Og það er á ábyrgð skálda og listamanna, þeirra sem miðla hugmyndum og hugsunum beint og milliliðalaust inn í vitund meðbræðra sinna, að beita náðargáfu sinni í þágu sköpunarverksins, náttúrunnar og mannsins. Í þágu sannleikans og fegurðarinnar

Með öðrum orðum, í þágu Guðs.

Raunvísindin eru búin að vinna vinnuna sína.

Við erum á þeim stað núna að það sem mun bjarga okkur, sé okkur yfirhöfuð viðbjargandi … er listin.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt við ljóðamessu í Laugarneskirkju 4. 8. 2019