Greta og grameðlurnar

by Sep 29, 2019Blogg, Forsíðufrétt, Fréttir, Pistill, Prédikun

Lexía: Það varð kvöld og það varð morgunn, hinn annar dagur. Þá sagði Guð: „Vötnin undir himninum safnist saman í einn stað og þurrlendið komi í ljós.“ Og það varð svo. Guð nefndi þurrlendið jörð og safn vatnanna nefndi hann haf. Og Guð sá að það var gott. Þá sagði Guð: „Jörðin láti gróður af sér spretta, sáðjurtir og aldintré af öllum tegundum jarðar sem bera ávöxt með sæði.“ Og það varð svo. Jörðin lét gróður af sér spretta, alls kyns sáðjurtir og aldintré af öllum tegundum sem bera ávöxt með fræi. Og Guð sá að það var gott. (1Mós 1.8a-12)

Guðspjall:  Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa. (Jóh 8.31-32)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Bandarískt dagblað nefnist Epoch Times. Um er að ræða afar óvandaðan fjölmiðil sem ítrekað hefur orðið uppvís að því að dreifa samsæriskenningum sem enginn fótur er fyrir. Nýlega birtist þar grein þar sem snúið var út úr og beinlínis haft rangt eftir Finnanum Petteri Talas, sem er yfirmaður WMO, veðurfræðistofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þar er hann sagður vara við því sem kallað var „ofstæki í loftslagsmálum“. Greinin er þvættingur frá rótum og full af rangfærslum um loftslagsmál. Það kom þó ekki í veg fyrir að íslenskur vefmiðill endursegði hana nánast orð fyrir orð og að íslenskur þingmaður læsi þá endursögn, tryði fullyrðingum hennar eins og nýju neti og bæri bullið á borð fyrir alþjóð úr ræðustóli Alþingis.

Hvernig stendur á því? Af hverju er þingmaður ekki vandari að virðingu sinni en svo að hann grennslist ekki aðeins fyrir um áreiðanleika og trúverðugleika þeirra heimilda sem hann byggir málflutning sinn á? Af hverju kokgleypir hann fullyrðingar úr vefmiðli af hægri útjaðri stjórnmálanna sem stangast á við allar marktækar vísindalegar niðurstöður sem kynntar hafa verið undanfarna þrjá áratugi?

Samsærið gegn sannleikanum

Svarið er einfalt. Af því að honum hugnast sá sannleikur betur. Það er betra fyrir hann að örfáir hægriöfgamenn hafi rétt fyrir sér heldur en gjörvallt alþjóðlega vísindasamfélagið samanlagt, þannig að hann ákvað að trúa því að þetta væri satt og að allir raunverulegir loftslagsvísindamenn veraldarinnar hefðu síðastliðin 30 ár verið í víðtæku, alþjóðlegu samsæri gegn sannleikanum til að fá athygli.

Staðreyndin er reyndar sú að við erum að upplifa um þessar mundir víðtækt alþjóðlegt samsæri gegn sannleikanum – en það eru ekki loftslagsvísindamenn sem þar eru að verki heldur hinir sem neita að viðurkenna loftslagsbreytingar af manna völdum. Þar er um að ræða net falsfréttamiðla sem rekið er og fjármagnað af auðkýfingum úr olíu- og kolaframleiðslu heimsins. Ákveðnir íslenskir fjölmiðlar og stjórnmálamenn af hægri vængnum eru þátttakendur í þessu samsæri, í besta falli sem nytsamir sakleysingjar, í versta falli af ráðnum hug fyrir veglega umbun.

Fyrir mig og eflaust fleiri, sem fylgdust með fréttum í vikunni sem var að líða, var engu líkara en að mannkynið væri að setja sér ný viðmið í auvirðuleika. Eða hvað er hægt að kalla það þegar UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sér ástæðu til að senda frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á valdamikla, vestræna, vellauðuga menn að hætta að leggja barn í einelti?

Hinn sári sannleikur

Barátta sænsku unglingsstúlkunnar Gretu Thunberg virðist kalla fram það besta og versta í fólki. Milljónir manna um allan heim hafa farið í mótmælagöngur og krafist aðgerða í lofslagsmálum eigi síðar en þegar í stað. En aðrir hafa spýtt galli. Óþarfi er að hafa eftir allan óþverrann sem úr þeim hefur gosið, en illa uppdregnir götustrákar hafa verið þvegnir um munninn með sápu fyrir saklausari munnsöfnuð.

Og hvað kallar á þessi heiftarlegu viðbrögð?

Svarið er einfalt: Sannleikurinn.

Greta Thunberg segir nefnilega aldrei neitt annað en sannleikann. Hvert orð hennar um loftslagsmál er staðreynd studd vísindalegum rökum.

Þrennt hefur legið fyrir í þrjátíu ár:

a) að hlýnun jarðar er staðreynd

b) að hún er af manna völdum

c) að það er slæmt

Þrátt fyrir að þetta sé ekki hægt að vefengja, þetta hafi hver maður, sem nennt hefur að kynna sér málið, mátt vita í þrjá áratugi – þá hefur mannkynið samt dælt meira magni af gróðurhúsalofttegundum út í lofhjúp jarðar á þeim tíma heldur en í allri sögu sinni fram að því.

Þetta er staðreynd.

Það þarf engan að undra að Greta Thunberg sé reið. Reiði hennar er réttlát. Greta Thunberg er af þeirri kynslóð, sem mín kynslóð bjóst við að myndi uppgötva líf á öðrum hnöttum, en dæmdi síðan til að þurfa þess í stað að berjast fyrir lífinu á þessum. Við höfum engan rétt til að vera hissa á því að henni sé mikið niðri fyrir eða gera lítið úr bræði hennar. Hún er fyllilega réttmæt.

Hin ljúfa lygi

Af hverju er svona erfitt að horfast í augu við sannleikann? Af hverju trúum við augljósum lygum? Eins og því að alþjóðlega vísindasamfélagið viti ekki um hvað það er að tala, en að áhugamaður um loftslagsmál sé að kynna okkur fyrir sannleikanum í fimm mínútna youtube-myndbandi? Að lítill hópur góðhjartaðra olíubaróna sé að afhjúpa alþjóðlegt samsæri vinstrimanna og vísindamanna um að ljúga upp loftslagsvá fyrir völd og peninga? Vill svo heppilega til að á sama tíma verða öfgafull veðurfyrirbrigði sífellt algengari og hitamet um allan heim eru slegin örar en dæmi eru um og þarna á milli er ekkert samband? Eða eru það kannski falsanir líka? Hafa þeir áhyggjur af því að þetta sé allt saman plat og við gætum lent í því að búa til betri heim fyrir afkomendur okkar … til einskis?

Það er auðvitað af því að lygin er þægilegri en sannleikurinn. Sannleikurinn gerir kröfur til okkar. Hann krefst þess af okkur að við breytum um hátt, að við bætum umgengni okkar. Hann leggur ábyrgð og skyldur á herðar okkur, hann er íþyngjandi. Og hann kostar marga mjög, mjög ríka menn mjög, mjög mikla peninga.

Lygin er aftur á móti ljúf og góð. En lygin veitir okkur svikalogn. Fyrr eða síðar mun sannleikurinn dynja á okkur af ógnarþunga. Við sem hér erum þurfum fæst að kvíða því, hann mun ekki snerta okkur persónulega. Greta Thunberg og fermingarbörnin sem hér eru stödd eru ekki það lánsöm. Það verður þeirra hlutskipti að súpa seyðið af gjörðum okkar sem eldri erum.

Gott og illt

„Sannleikurinn mun gera yður frjálsa,“ segir frelsarinn. Og nú er svo komið að líf okkar liggur við, ef við viðurkennum ekki sannleikann. Ekki bara okkar persónulega, heldur líf okkar sem tegundar, lífið á jörðinni eins og við þekkjum það er í húfi.

En hvað er ég að þusa um þetta í prédikun? Er þetta ekki pólitík?

Ef við trúum á Guð þá trúum við því að lífið á jörðinni eins og við þekkjum það sé gott. Guð segir það. Og mér ber að tala um orð Guðs. „Guð sá að það var gott.“ Gott stendur ekki þarna sem andheiti við „lélegt“. Það stendur þarna sem andheiti við „illt“. Lífið á jörðinni er gott í siðfræðilegri merkingu þess orðs, ekki bara praktískri. Og það er siðferðisleg skylda okkar sem kristinna manna að standa vörð um hið góða og berjast gegn hinu illa. Og það er efni í prédikun – hvað sem líður því hvað einhverjir vilja kalla pólitík.

Aðgerðaáætlun

En hvað er til ráða?

Við verðum að byrja á að taka lofslagsafneitarana úr umferð í umræðunni.

Ímyndum okkur að við værum að vinna að jafnréttisáætlun og í ljós kæmi að einhverjir í hópnum væru eindregið þeirrar skoðunar að staður konunnar væri á bak við eldavélina. Hvaða erindi ættu þeir í þá vinnu? Ekkert. Það væri eðlilegasti hlutur í heimi að biðja þá að yfirgefa vinnuhópinn eða að minnsta kosti að stilla sig um að taka til máls.

Ímyndum okkur, í upphafi jafnréttisbaráttunnar, að í hvert skipti sem einhver vefengdi að konur væru jafnhæfar körlum til að hugsa rökrétt og því varla treystandi fyrir atkvæði í almennum kosningum, þá hefði verið staldrað við og það rökrætt í þaula þar til einróma niðurstaða fékkst um þann ágreining áður en hægt hefði verið að halda áfram. Konur væru ekki enn komnar með kosningarétt.

Hvað ef við værum að vinna að mannréttindalöggjöf og í hópnum væri fólk þeirrar skoðunar að svartir menn ættu að vera ánauðgir þrælar hvítra?

Við erum í nákvæmlega þeim sporum núna. Málið er útrætt. Staðreyndir liggja fyrir. Úr því sem komið er verður vitinu ekki komið fyrir þá sem enn efast. Það er fullreynt.

Ef við ætlum að halda áfram að humma víðtækar og róttækar aðgerðir í loftslagsmálum fram af okkur í þrjátíu ár í viðbót af því að enn á eftir að sannfæra nokkra þverhausa um að hið augljósa sé að eiga sér stað … þá er voðinn vís.

Við verðum að gangast við sannleikanum og axla þá ábyrgð sem hann leggur á okkur. Og við getum krafið aðra um að gera það líka.

Krafa um ábyrgð

Til dæmis fjölmiðla. Hvað með ábyrgð þeirra? Af hverju flokkast það undir ritskoðun en ekki ritstjórn að neita að birta lygar og staðleysur? Það er ekki þöggun eða kúgun að vilja ekki vera vettvangur fyrir hættulegt lygaflæði, það er sjálfsvirðing – sem marga íslenska fjölmiðla virðist illu heilli skorta með öllu.

Hvað með samfélagsmiðla? Af hverju fær þessi jarðarhatandi lygadæla að malla þar athugasemdalaust? Hvernig væri að tilkynna alla slíka hópa jafnhratt og örugglega og við myndum tilkynna áróðursvélar hryðjuverkasamtaka, síður þar sem ungir menn eru glaptir til að ganga til liðs við hættulegar öfgasveitir?

Lofslagsafneitarar eru ekki minni ógn við lífið á jörðinni.

Við skulum afvina loftslagsafneitarana hratt og örugglega, eins og við myndum hiklaust gera við kynþáttahatara, hommahatara, útlendingahatara og nýnasista. Og trúið mér, það þarf ekki að eyða miklum tíma á vefsíðum lofslagsafneitara til að sjá að þessar skoðanir eiga mikla samleið. Og þegar allt kemur til alls þá eru skoðanir þeirra á loftslagsmálum síst hættuminni en hinar.

Heimskunni úthýst

Það verður einfaldlega að taka loftslagsafneitarana út úr jöfnunni. Framtíðin er allt of mikilvæg til að pláss sé fyrir heimsku þeirra við borðið þar sem við búum okkur undir hana.

Eða hvað viljið þið kalla það að finnast samsæri vísindamanna, sem helgað hafa líf sitt, starf og heiður leitinni að sannleikanum, trúverðugra heldur en að milljarðamæringar úr kolefnaeldsneytisiðnaði veraldarinnar séu að nota hluta af sínum gríðarlegu auðæfum til að standa vörð um hagsmuni sína á kostnað sannleikans?

Ég kalla það heimsku. Kannski af því að mér finnst það þægilegri tilhugsun en að kalla það illsku.

Reyndar hallast ég að því í æ ríkari mæli með tímanum að þessi tvö orð séu samheiti.

Sannleikurinn mun gera okkur frjáls. Og ef við ekki þegar í stað göngumst við sannleikanum og gerum það sem hann krefst mun sagan ekki fara um okkur mjúkum höndum þegar hrakspárnar – sem hingað til hafa allar gengið eftir – skella á okkur af fullum þunga.

Við verðum að horfast í augu við sannleikann, sama hve ljótur hann er. Því hvernig sem á allt er litið þá er sannleikurinn aldrei svo ljótur að lygin sé ekki ljótari.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 29. 9. 2019