Mannleg reisn

by Sep 8, 2019Blogg, Forsíðufrétt, Prédikun

Guðspjall: Jesús var að kenna á hvíldardegi í samkundu einni. Þar var þá kona nokkur. Í átján ár hafði hún verið sjúk. Hún var kreppt og alls ófær að rétta sig upp. Jesús sá hana og kallaði hana til sín og sagði við hana: „Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn!“ Þá lagði Jesús hendur yfir hana og jafnskjótt gat hún rétt úr sér og lofaði Guð. En samkundustjórinn reiddist því að Jesús læknaði á hvíldardegi og mælti til fólksins: „Sex daga skal vinna, komið þá og látið lækna ykkur og ekki á hvíldardegi.“ Drottinn svaraði honum: „Hræsnarar, leysir ekki hver ykkar á hvíldardegi naut sitt eða asna af stalli og leiðir til vatns? En þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur fjötrað full átján ár, mátti hún ekki leyst verða úr fjötrum þessum á hvíldardegi?“ Þegar Jesús sagði þetta urðu allir mótstöðumenn hans sneyptir en allt fólkið fagnaði yfir öllum þeim dýrðarverkum er hann gerði. (Lúk 13.10-17)

Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Nú í vikunni dró ég fána að húni hér við Laugarneskirkju. Það var ekki íslenski fáninn, eins og alla jafna, heldur hinn fáninn sem við eigum og drögum að húni við sérstök tilfelli. Sá er í öllum regnbogans litum og af þeim ástæðum kallaður regnbogafáni. Sá fáni er dreginn að húni til að fagna fjölbreytileika mannlífsflórunnar. Fáninn er upphaflega tákn hinsegin hreyfingarinnar, samkynhneigðra, tvíkynhneigðra, transfólks og allra sem í gegn um aldirnar hafa mátt sæta ofsóknum og misrétti vegna kynhneigðar sinnar eða kynvitundar.

Tilefnið var að sjálfsögðu heimsókn varaforseta Bandaríkjanna hingað til Reykjavíkur, en hann ræddi við helstu ráðamenn þjóðarinnar hér rétt hjá okkur, um það bil einn kílómetra í burtu, rétt utan við sóknarmörkin. Það var sérlega ánægjulegt hve margir sáu ástæðu til að draga þennan fána að húni við þetta tilefni.

Núverandi varaforseti Bandaríkjanna er nefnilega einn þeirra manna sem harðast hafa gengið fram gegn fólki sem lifir tilfinningalífi ólíku hans sjálfu, sem ógnar honum af einhverjum torskiljanlegum ástæðum. Þetta gerir hann ennfremur í nafni trúar sinnar, en honum er í mun að ljóst sé að hann sé kristinn maður. Þó er eins og hann telji Guð fara í manngreinarálit, að fyrir Guði skipti kynferði meira máli en kærleikurinn eða jafnvel bara yfir höfuð einhverju máli. „Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“ (Gal 3.28) segir þó Páll postuli í Galatabréfinu og í Fyrra Korintubréfi segir hann: „Nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ (1Kor 13.13)

Guð elskar fjölbreytni

Þegar við virðum fyrir okkur Guðs góðu sköpun verður okkur ein staðreynd um Guð ljós og hún er sú að hann elskar fjölbreytileika. Hann skapaði ekki bara kónguló, hann skapaði 48.200 tegundir af kóngulóm. Hann skapaði ekki bara blóm og fugla og tré heldur fleiri tegundir af þessu öllu en við getum talið. Og hví skyldi hann ekki vilja hafa mannlífsflóruna fjölbreytta líka? Hvers vegna ætti hann að hafa skapað mannkynið þannig að stór hluti þess tengi tilfinningar sínar ekki kynferði eða tengi þær kynferði með öðrum hætti en flestir aðrir – ef hann síðan vill ekki hafa það þannig?

Samt hefur verið hamast gegn samkynhneigðum öldum saman. Gríski heimspekingurinn Platon fullyrti á fimmtu öld fyrir okkar tímatal að samkynhneigð væri ónáttúruleg og hana ætti að banna. Hvað segir það okkur? Jú, að samkynhneigð hafi verið svo þekkt fyrirbæri í grískum menningarheimi þegar á fimmtu öld fyrir Krist að Platon hafi séð sérstaka ástæðu til að gera hana að umfjöllunarefni. Hún hefur semsagt verið hluti af mannlegu samfélagi í a.m.k. 2500 ár og ekki horfið þrátt fyrir fordæmingu, ofsóknir, aftökur og limlestingar allan þann tíma. Ef það dugar ekki til, hvað þarf þá til að sýna fram á að samkynhneigð sé ákveðnum hluta mannkynsins náttúruleg? Ég bara spyr.

Á bak við þessi fáfengilegu rök sem engu vatni halda sé látið á þau reyna leynist auðvitað ekkert annað en ótti. Ótti við þá sem eru öðruvísi, ótti við þá sem hugsa öðruvísi en ég, líður öðruvísi en ég, sjá heiminn og annað fólk öðruvísi en ég. Ótti við þá sem ég get ekki speglað mig í að öllu leyti, ótti við þá sem ég get ekki að meira eða minna leyti litið á sem aðra útgáfu af mér sjálfum.

Og það er ótrúlega algengt að þessi ótti sé réttlættur með vísan í kristindóminn, jafnvel þótt í öllum guðspjöllunum hamri Kristur og klifi á boðunum: Verið óhrædd – óttist eigi.

Staðalmynd af manneskju

En við þurfum ekki að draga fram samkynhneigða til að finna dæmi um hóp sem sæta hefur mátt kúgun og undirokun, verið svínbeygður og bældur og haldið niðri fyrir þær sakir einar að samanstanda ekki af því sem í hugum marga er viðmiðið um „eðlilega“ manneskju: hvítur, kristinn, gagnkynhneigður, ófatlaður karlmaður. Og þetta hefur jafnvel verið gert í Jesú nafni, þótt Jesús fullyrði sjálfur að Guð fari ekki í manngreinarálit, þótt Páll postuli fullyrði að fyrir Guði séu kynferði og þjóðerni ekki til.

Konur hafa þurft að berjast fyrir því að fá að vera virkir þátttakendur í samfélaginu, ekki bara fyrir kosningarétti og eignarrétti heldur beinlínis fyrir yfirráðarétti yfir sínum eigin líkama eins og þrælar.

Og þegar gripið er til þeirrar líkingar blasa auðvitað við öll illvirki hvíta mannsins gegn fólki af öðrum kynþáttum. Árið sem ég fæddist var kynþáttaaðskilnaðarstefnan afnumin … ekki í Suður-Afríku heldur í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Ég var orðinn þriggja barna faðir þegar hún var afnumin í Suður-Afríku.

Guðspjall dagsins fjallar um mannlega reisn. Jesús mætir konu sem er kreppt og alls ófær um að rétta sig upp.

Táknið er augljóst og sterkt. Hún er beygð og bogin. Henni er meinað um að fá að bera höfuðið hátt, meinað um mannlega reisn. Og Jesús réttir úr henni. Og er átalinn fyrir það af sjálfskipuðum handhöfum hins eina rétta skilnings á góðu og illu: „Guð segir að þú megir þetta ekki. Að þetta eigi að vera svona.“

Ranglátar reglur og ólög

Þetta er saga sem endurtekur sig enn í dag. „Reglur eru reglur. Samkynhneigð er ónáttúruleg. Staður konunnar er heimilið.“ Kynþáttaaðskilnaðarstefnan var líka byggð á reglum. Reglum sem beygðu fólk og höfðu af því mannlega reisn. Jim Crow lögunum í Bandaríkjunum og Apartheid-löggjöf Suður-Afríku. Víða um heim, líka hér á Íslandi, höfðu konur ekki kosningarétt vegna þess að … jú, reglur kváðu á um það.

Okkur kristnum mönnum hættir stundum til að líta fram hjá því að frelsari okkar, sonur Guðs, leiðtogi lífs okkar sem við játum að sé vegurinn, sannleikurinn og lífið … var dæmdur glæpamaður. Hann braut reglurnar.

Hann var ekki tekinn af lífi fyrir að vera of leiðtamur og spakur, of hallur undir stjórnvöld, fyrir að fylgja reglum samfélagsins of vel. Fyrir slíkt er enginn maður tekinn af lífi – ef litið er fram hjá þeim andlega dauða sem það ber vott um að lifa þannig lífi. Nei, hann var tekinn af lífi fyrir að brjóta reglurnar.

Hann var saklaus af synd – en sekur eins og syndin um þann glæp sem hann var dæmdur og tekinn af lífi fyrir að hafa framið: Að ógna friðnum, að storka yfirvöldum, að rugga bátnum, að virða að vettugi þær reglur samfélagsins sem beygðu og undirokuðu, kúguðu og krepptu hans minnstu bræður og systur.

Að halda því fram að það eigi að vera einhver sérstök dyggð samkvæmt boðun kirkju hans að fylgja kúgandi og bælandi, beygjandi og kreppandi mannasetningum ber vott um alveg einstaklega útsmogið ólæsi á það hver boðskapur hans var í raun og veru, um hvað líf hans og starf snerist, um það hvað aftaka hans og upprisa tákna.

Glæpamaðurinn frá Nasaret

Í Guðspjalli dagsins brýtur Jesús lög Guðs – eins og þau voru túlkuð af þeim sem samfélagið hafði samþykkt að væru best til þess fallnir að gera það. Á því leikur enginn vafi. Brot hans er skýlaust og að yfirlögðu ráði. Hann getur ekki borið það við að hann hafi ekki þekkt reglurnar. Hann getur ekki borið við einhverjum neyðarrétti, að lífi hans eða öryggi hafi verið ógnað. Hann stígur fram og fremur glæp vísvitandi í vitna viðurvist. Og þeir benda honum á það.

Og hans svar er ekki: „Ó, afsakið. Ég skal aldrei gera þetta aftur.

Og hann svarar ekki heldur: „Eigum við aðeins að ræða það hvort ekki megi túlka þessa löggjöf með eilítið mannúðlegri hætti þannig að andi laganna sé látinn vega þyngra en bókstaflegur lestur þeirra?“

Nei, hans svar er í rauninni aðeins eitt orð: „Hræsnarar.“

Og svo rökstyður hann þá fullyrðingu.

Glæpur hans var nefnilega að rétta úr krepptum og bognum einstaklingi. Og það er hlutverk kirkju hans enn þann dag í dag. Guð fer ekki í manngreinarálit. Við eigum öll rétt á að ganga upprétt.

Og ef lög samfélagsins kveða á um að viðkomandi einstaklingur hafi engan rétt til að ganga uppréttur á meðal okkar vegna kynferðis eða kynhneigðar, uppruna eða trúarbragða, efnahags eða líkamlegs atgervis eða skorts á landvistar- og dvalarleyfum … þá eru það ólög sem okkur ber að hunsa og brjóta – eins og leiðtogi lífs okkar hunsaði og braut ólög síns samfélags sem krepptu og beygðu meðbræður hans.

Munurinn er sá að þegar við höfum hunsað og brotið þessi ólög þá eigum við að vera fær um að breyta þeim og afnema – ólikt Jesú frá Nasaret og allri alþýðu manna í samfélaginu sem hann lifði og starfaði í.

Og þess vegna drögum við regnbogafánann að húni hér í Laugarneskirkju upprétt og bein í baki hvenær sem okkur þykir ástæða til að minna okkur og þá sem leið eiga hjá á það að Guð elskar alla – að fyrir honum eru kynferði, kynhneigð, uppruni, ætterni, efnahagur og atgervi ekki til.

Við erum öll eitt í Jesú Kristi.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 8. 9. 2019