Okkur mistekst

by Sep 3, 2019Blogg, Forsíðufrétt, Prédikun


Guðspjall: Lúk 7.36-50
Farísei nokkur bauð Jesú til máltíðar og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, nam staðar að baki Jesú til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. Þegar faríseinn, sem hafði boðið honum, sá þetta sagði hann með sjálfum sér: „Væri þetta spámaður mundi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug.“
Jesús sagði þá við hann: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“
Hann svaraði: „Seg þú það, meistari.“
„Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?“
Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“
Jesús sagði við hann: „Þú ályktaðir rétt.“ Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ Síðan sagði hann við hana: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“
Þá tóku þeir sem til borðs voru með honum að segja með sjálfum sér: „Hver er sá er fyrirgefur syndir?“
En Jesús sagði við konuna: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“

1.

Ég man eftir því þegar Laufey systir mín var skírð. Laufey er 10 árum yngri en ég og þegar kom að skírn hennar höfðu foreldrar mínir beðið mig um að halda á henni og segja nafnið.     
Ég hafði gengist við þessu verkefni en þegar kom að stóru stundinni baðst ég undan, ég treysti mér ekki í þetta.   
Ég var nefnilega hræddur við að klúðra þessu. Ég var hræddur við að gera mistök.   

Mér finnst gaman að rifja þetta upp því í dag starfa ég meðal annars við að skíra börn. 

Ef ég á að segja ykkur alveg satt var ég lengi ekki viss hvort ég gæti orðið prestur.  
Meðal annars því ég var svo hræddur við að vera kannski of tilfinninganæmur.      
Ég man eftir því að hafa fyrir nokkrum árum síðan lesið status á Facebook sem prestur einn, sem er mér fyrirmynd, skrifaði. Í statusnum talaði hún um að það hefði eitthvað gerst eftir að hún hefði orðið amma, nú færi hún alltaf að gráta í fermingarathöfnum. Ég las þennan status, þá ekki orðinn þrítugur og ekki orðinn prestur og svo sannarlega ekki orðinn amma – og ég tengdi við tárin.          

Mest af öllu var ég, eins og við velflest á einhverjum tímapunkti í lífinu, hræddur við að vera ekki nógu góður, ekki nógu sterkur og ég var enn hræddur við að gera mistök.  
Við getum verið svo hrædd við að gera mistök – og þó er það eitt af fáu sem er tryggt í þessu lífi:
Ef við lifum því af heilum hug og hjarta, þá munum við gera mistök.           

Félagsfræðingurinn Brené Brown hefur lýst því að eitt af hennar helstu verkefnum hvað viðkemur því að þroska eigin leiðtogahæfileika- og annarra sé fólgið í því að láta af hugsuninni að mistök séu möguleg, þau séu eitthvað sem geti kannski orðið; byrja að treysta því og gangast við því að okkur mun öllum mistakast.         
Okkur mistekst öllum. Oft.    

2.

Í guðspjalli dagsins er talað um syndina.      
Syndin er að ruglast og mistakast og nútímamaðurinn er afskaplega lítið hrifinn af syndinni. Við skiljum hana ekki, en vitum samt að okkur finnst hugmyndin um hana óþægileg.           
En syndin er ósköp eðlilegur hluti mannlegrar reynslu.        

Syndin er sundrungin í lífi okkar, það sem sundrar okkur; fjarlægir okkur sjálfum okkur, öðrum og Guði. Hún er varnarhættirnir sem við grípum í þegar það er okkur ofviða, of sárt og erfitt að vera einlæg, berskjölduð, viðkvæm.          
Hún er hrokinn og óttinn sem verður þess valdandi að ég get ekki og vil ekki sjá önnur sjónarmið en mín eigin.    
Hún er hrokinn og óttinn sem gerir það að verkum að ég megna ekki að fyrirgefa sjálfum mér fyrir það.         
Fyrir mér er syndin þetta tætta ástand sem gerir að verkum að fólk gerir hluti sem er í andstöðu við gildi þess, dygðir og heilindi.    
Syndin þolir ekki dagsljósið, vill hvíla í skugga og skúmaskotum.  
Þess vegna elskar hún baktal og einangrun; því syndin er afl sem getur talið okkur trú um að þar geti við fundið öryggi.      
 
3.

Konan í guðspjalli dagsins brýtur sér leið úr einangrun og til tengsla. Hún tekur raunar mikla áhættu.

Þessi sena verður tækifæri til kennslustundar. Jesús segir við fariseann: Símon, ég hef nokkuð að segja þér. Og Símon svarar: Seg þú það meistari. Með því að kalla Jesús meistara er fariseinn að gefa leyfi: Kenndu mér, leiðbeindu mér.            

Í guðspjöllunum birta farisearnir vídd sem við eigum líklega öll til, ættum ekki að dæma en sannarlega að vera gagnrýnin á. Þetta er vídd hins falska öryggis, sem fólgið er í því að reyna að hólfa niður heiminn, hið falska öryggi sem fólgið er í flokkadráttum.       
Við getum séð pólariseringuna birtast í samfélagi okkar; þar sem sumir hópar eru réttlátari á meðan aðrir eru ranglátir. Í síðustu viku var farið að skipta og skilgreina í flokka kjötætur annars vegar og grænkera hinsvegar. Við erum stöðugt að skapa hópa; við tölum um ,,góða fólkið”, við tölum um ,,virka í athugasemdum”, áfram mætti telja. 
Auðvitað er þetta mennsk tilhneiging; við erum að reyna að koma reiðu á heim sem er í eðli sínu óreiðukenndur, en flokkadrættir eru varhugaverðir því þeir afmennska svo auðveldlega og Jesús frá Nasaret neitaði að afmennska fólk.     

Það er afar óalgengt í guðspjöllunum að persónur sem koma fyrir í einni senu séu nafngreindir.
Allajafna eru farisearnir ekki nafngreindir, þeir eru einfaldlega farisear og geta gegnt hlutverki sem ákveðnar staðalmyndir í textanum.      
Okkur þykja staðalmyndir þægilegar.           
Þær hafa ekki andlit, ekki nöfn, eru kannski bara tölur í tölvukerfi. Þetta sjáum við enn í dag.   

En Jesús kallar fariseann með nafni: Símon.
Það er svo margt í nafninu. Nafnið ávarpar alltaf manneskjuna sjálfa, persónuna. Þegar við notum nöfn hvors annars undirstrikum við persónuleg tengsl.      

Jesús notar nafnið sem tæki í samskiptum sínum við fariseann. Á þessari stundu er hann að segja:
Símon, ég sé þig sem manneskju, óháð því hvernig hægt væri að skilgreina þig með flokkunarkerfum samfélagsins. Á sama hátt sé ég þessa konu hér sem manneskju.        
Ég megna og ég ætla að sjá ykkur og heyra í ykkur. 
Þetta er það sem Jesús er að kenna.   

4.

Jesús sér og heyrir í konunni sem mætir sér á þennan berskjaldaða hátt og hann hafnar ekki tilfinningasemi hennar heldur viðurkennir hana fyrir að hafa leyft sér þá áhættu að finna mikið.       
Að hafa ekki valið flóttaleiðina sem fólgin er í að afneita tilfinningum sínum og deyfa þær niður.

Ábyrgt tilfinningalíf er fólgið í því að gangast við tilfinningum sínum og vera með þeim í liði, finna þær en láta þær ekki drottna yfir sér eða öðrum eða afneita tilveru þeirra yfirhöfuð og bæla þær niður.         
Ábyrgt tilfinningalíf felur í sér að leitast við að verða læsari á tilfinningar sínar og geta deilt þeim án þess að ætla að gera aðra ábyrga fyrir þeim.      
Ábyrgt tilfinningalíf felur í sér að játa að við getum öll orðið rofin og tætt, okkur verður á í messunni (stundum bókstaflega!), við gerum mistök.           
Þegar við förum með syndajátninguna á eftir þá erum við að játa þetta, við gerum það ekki því við ætlum að lifa í skömm, ófær um frelsi og sanna iðrun. Við játum syndir okkar því við treystum því að geta átt líf í frelsi, fær um að iðrast, skammast okkar… og halda áfram.          
Okkur mun öllum mistakast.
Erum við tilbúin að fyrirgefa sjálfum okkur og öðrum mikið eins og Kristur hvetur okkur til í guðspjalli dagsins? Erum við tilbúin til þess að elska sjálf okkur og aðra mikið á sama hátt og Kristur hvetur okkur til?      

5.

Hér í upphafi guðsþjónustunnar bað ég ykkur um að gefa ykkur örlitla stund til að hugsa um hæfileika og gjafir þeirra sem sitja hér inni. Nú langar mig að biðja okkur öll um að gefa okkur stutta stund til að hugsa á ný til þeirrar manneskju sem kemur upp í huga ykkar.      
Mig langar að bjóða ykkur að íhuga með mér:         

Manneskjan sem kom upp í huga minn hefur líkama og hug… rétt eins og ég.
Þessi manneskja hefur tilfinningar og hugsanir… rétt eins og ég.    
Þessi manneskja hefur upplifað sorg, reiði og ringlun… rétt eins og ég.            
Þessi manneskja hefur upplifað líkamlegan og tilfinningalegan sársauka og þjáningu… rétt eins og ég.         
Þessi manneskja þráir að vera frjáls frá sársauka og sundrungu… rétt eins og ég.      
Þessi manneskja hefur upplifað gleði og hamingjustundir… rétt eins og ég.      
Þessi manneskja óskar sér þess að vera heilbrigð, elskuð og eiga farsæl sambönd… rétt eins og ég.    
Þessi manneskja óskar sér hamingju… rétt eins og ég.         

Nú langar mig að bjóða ykkur að íhuga með mér ósk og bæn um velferð, að við bjóðum fram kærleika okkar.
Ég óska manneskjunni sem kom upp í huga minn þess að hún eigi styrk og úrræði til að takast á við erfiðleika þar sem hún kann að mæta þeim í lífinu.           
Ég bið að þessi manneskja megi vera frjáls frá þjáningu og sundrungu.            
Ég óska þessari manneskju hamingju.           
Því hún er mennsk… rétt eins og ég.

Að endingu vil ég bjóða okkur að skapa rými í hjarta okkar og huga fyrir hverja einustu manneskju hér inni og hverja þá manneskju sem leitar á huga okkar og hjörtu.

Megum við öll hér í messunni, hér í sunnudagaskólanum, hér í Laugarneskirkju, gera mistök og meistaraverk, vera frjáls frá þjáningu og sundrungu og lifa í friði.   
Megi fjölskyldur okkar og vinir vera hamingjusöm, gera mistök og meistaraverk, megi þau vera frjáls frá þjáningu og sundrungu og megi þau lifa í friði.
Megi vinnufélagar okkar og samverkafólk vera hamingjusöm; megi þau gera mistök og meistaraverk, vera frjáls frá þjáningu og sundrungu og megi þau lifa í friði.          
Að lokum biðjum við: Megi ég vera hamingjusöm manneskja, megi ég gera mistök og meistaraverk, frjáls frá þjáningu og sundrungu og megi ég lifa í friði.  

Drottinn, miskunna þú oss. Kristur, miskunna þú oss. Drottinn, miskunna þú oss.       

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda, svo sem var í upphafi, er og verður, um aldir alda.
Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju, 1. september 2019