Guðspjall: Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi en það féll eigi því það var grundvallað á bjargi. En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll og fall þess var mikið.“ Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu varð mannfjöldinn djúpt snortinn af orðum hans því að hann kenndi eins og sá er vald hefur og ekki eins og fræðimenn þeirra. (Matt 7.24-29)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Mig langar að byrja á yfirlýsingu sem ég veit að einhverjum á eftir að finnast yfirlætisleg og jafnvel hrokafull. Jafnvel kynnu einhverjir að segja að ég væri bara að fóðra tröllin með því að slá henni fram. Yfirlýsingin er svona: Ég held að það sé ekki hægt að vera með öllu trúlaus.

Það að trúa ekki á yfirnáttúrulegar verur, guði, kraftaverk, æðri máttarvöld eða yfirhöfuð neitt yfirskilvitlegt er aðeins trúleysi á yfirnáttúrulegar verur, guði, kraftaverk, æðri máttarvöld og hið yfirskilvitlega. Það er samkvæmt skilningi trúarinnar ekki trúleysi. Það er nefnilega ekki þar með sagt að viðkomandi trúi ekki á neitt.

Allir hafa eitthvað leiðarljós í lífinu, einhvern sannleika sem þeir aðhyllast og reyna að fylgja, hvort sem það er meðvitað ekki. Sá sem stoltur segist ekki trúa á neitt svona kjaftæði heldur lifir bara sínu lífi án tillits til nokkurs trúarboðskapar og reynir að gera gott úr því með brjóstvitið eitt að vopni, hann trúir.

Hann  trúir á sjálfan sig, brjóstvit sitt, skynsemi og eigið ágæti svona almennt.

Helgisögur mannkynsins hafa persónugert nánast hverja einustu trú sem menn aðhyllast í reynd og myndgert þær í merkingarþrungnu táknmáli. Narkissus varð svo hugfanginn af eigin mynd að það varð honum að bana og það er enginn skortur af samtímafólki sem fylgja fordæmi hans fremur en Jesú Krists, fólki sem myndi þó aldrei gangast við því meðvitað, aðspurt um trú sína, að vera narkissistar.

Samfélag okkar er fullt af mammonsdýrkendum, bakkusarsinnum, erosarfylgjendum og narkissistum.

Villutrú

Kristindómurinn á orð yfir þetta sem ekki er mikið í tísku núna. Orðið er „villutrú“. Orðið merkir ekki „önnur trúarbrögð en mín“. Það merkir trú sem fer villur vegar, trú sem leiðir okkur í villu. Trú sem villir okkur sýn á það sem raunverulega skiptir máli í lífinu.

Því staðreyndin er sú að það er afar fátítt, ef ekki beinlínis algerlega óþekkt, að fólk iðrist þess á dánarbeðinu að hafa ekki eytt meiri tíma í vinnunni, að hafa ekki sængað hjá fleirum eða að hafa ekki drukkið meira áfengi eða notað meira af eiturlyfjum. Nei, fólk iðrast þess yfirleitt að hafa ekki verið betri við fólkið sitt, að hafa ekki eytt meiri tíma með sínum nánustu. Að hafa tekið það sem mölur og ryð frá grandað fram yfir hin raunverulegu verðmæti lífsins. Að hafa ekki áttað sig á því hver þau voru fyrr en tíminn til að njóta þeirra var að þrjóta.

Það er ekki hægt að fara út í lífið án þess að hafa nokkra trú í brjóstinu, engin gildi, engin viðmið, engan sannleika. Og það sem meira er: Ef maður ímyndar sér að svo sé um mann sjálfan er ansi hætt við að ítarleg skoðun myndi leiða í ljós að það sem maður aðhyllist, það sem maður í raun telur satt og rétt, það sem maður trúir á, eigi ekkert skylt við mannúð og kærleika, samhygð eða hinar göfugri víddir mannsandans.

Dæmisagan sem Jesús segir okkur í dag er niðurlag mikillar ræðu, Fjallræðunnar, sem tíundar öll kjarnaatriðin í boðskap hans. Og lokaorðin … sem síðan er hnykkt á með dæmisögunni um mennina tvo, hinn hyggna og hinn heimska eru þessi: „Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.“ (Matt 7.21)

Með öðrum orðum: „Það sem þú gerir sýnir hverju þú trúir í raun, ekki það sem þú segir.“

Skuldbindingin

Þegar barn er borið til skírnar álíta sumir að með því sé ómálga hvítvoðungur að undirgangast skuldbindingu sem hann hefur engan þroska til að skilja í hverju felst. Enda tíðkast ungbarnaskírn ekki í sumum söfnuðum og er þá gjarnan vísað til þess að sjálfur hafi Jesús verið fullorðinn maður þegar hann tók skírn samkvæmt sinni eigin upplýstu ákvörðun.

En þá bendi ég á að í skírninni segir barnið ekki já eða amen við neinu sem fram fer. Barnið er aðeins að þiggja kærleika Guðs við lind hjálpræðisins. Skuldbindingin er foreldranna. Með því að bera barnið sitt til skírnar eru þeir að lýsa því yfir að þeir ætli að leitast við að ala barnið sitt upp í kristinni trú, að það fari út í lífið sem kristin manneskja þegar það kemst til vits og ára og verndarhendi foreldranna sleppir, að það byggi líf sitt á grundvallarsannindum kristinnar trúar.

Þetta er ákvörðun sem ekkert foreldri getur komist hjá því að taka. Hvernig ætla ég að ala barnið mitt upp? Hvaða gildi ætla ég að innræta því í uppvextinum?

Það að bera barn til skírnar er auðvitað engin trygging fyrir því að barnið verði kristin manneskja, þ.e.a.s. að það komi fram við aðra eins og það vill að komið sé fram við sig, að það líti svo á að því beri að elska Guð og náungann, að það líti svo á að það, hvernig það kemur fram við sína minnstu bræður og systur, sé eini marktæki vitnisburðurinn um það hvaða mann það hafi í raun að geyma. Ekki frekar en að það að hrópa „Drottinn, Drottinn!“ þýði að viðkomandi sé að gera vilja föður okkar á himnum.

Þar kemur annað til.

Veganestið

Barn sem er alið upp við að snjallsíminn njóti meiri athygli foreldranna en það, lærir að trúa því að ímynd þess á samfélagsmiðlum sé mikilvægari en samband þess við sína nánustu og að sálarheill þess sé í því fólgin að fá nógu mörg læk og hjörtu á facebook og instagram.

Barn sem er alið upp við vanrækslu vegna brauðstrits lærir að trúa að það skipti ekki máli. Því barni er hætt við, þegar það vex upp, að leita samþykkis og viðurkenningar annarra með hætti sem ekki er góður fyrir sjálfsvirðingu þess og sálarheill.

Barn sem er alið upp við vanrækslu vegna auðsöfnunar, að dýrar gjafir og utanlandsferðir komi í stað nærandi samvista og kærleika, lærir að trúa á mammon.

Barni, sem er alið upp við ofbeldi, andlegt, líkamlegt eða hvort tveggja, er hætt við að leita huggunar og skjóls í náðarfaðmi Bakkusar og bræðra hans um leið því er það kleyft.

Barn sem er alið upp við að foreldrarnir láti vaða með fúkyrðum og persónusvívirðingum í hvert skipti sem einhver tjáir skoðun opinberlega, sem foreldrarnir fallast ekki á, lærir aðeins fullkomið virðingarleysi fyrir náunganum.

Barn sem er alið upp við útlendingahatur og rasisma, hómófóbíu og aðra mannfyrirlitningu lærir ekki að elska náungann.

Skóli lífsins

Í uppvextinum er lagður grunnur að þeim gildum sem við förum með út í lífið … þeim gildum sem við í raun trúum á – alveg óháð því hvort okkur er kennt að hrópa líka „Drottinn! Drottinn!“ á sunnudögum og stórhátíðum.

Allt þetta er hægt að aflæra. Það er hægt að sjálfmennta sig og endurmennta í grunngildum. Það er hægt að yfirgefa söfnuði Bakkusar og Mammons. Það er hægt að vaxa og þroskast upp úr smásálarlegum viðhorfum til meðbræða og systra af öðrum hörundslit, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, kynhneigð eða hverju sem gerir þau ólík manni sjálfum að einhverju leyti.

Þetta er grunnurinn sem við byggjum líf okkar á.

Og það kemur steypiregn. Vatnið mun flæða. Stormar munu blása og bylja á húsi okkar … á lífi okkar. Það er nú bara einu sinni þannig sem lífið virkar.

Og þá kemur í ljós úr hverju grunnurinn var gerður. Var húsið byggt á bjargi eða sandi? Það verður ekki parkettið eða innréttingarnar, það hvort innbúið var keypt í Epal (með fullri virðingu fyrir vandaðri hönnun og handverki) eða Ikea, sem mun ráða úrslitum um það hvort húsið okkar stendur eða fellur. Það hve margir rekkjunautar hafa gist í þessu húsi eða hvað vínskápurinn er vel byrgur mun ekki hafa nein áhrif á það hvort húsið okkar stendur af sér storminn eða ekki.

Orð og gjörðir

Nei, það sem ræður því er það hvort við séum í grunninn almennilegar manneskjur eða ekki. Hvort við höfum helgað líf okkar og starf og lagt sálarheill okkar að veði fyrir fjársjóði sem mölur og ryð frá grandað, hégóma og eftirsókn eftir vindi, auð, völd, vinsældir og metorð eða hvort við eigum æðri og dýpri sannleika í hjartanu á okkur en þann sem mældur er í hjörtum og þumlum á samfélagsmiðlum, innistæðum á bankareikningum, verðmiðum á innanstokksmunum, útsendingarmínútunum eða dálksentímetrunum sem lögð eru undir okkur.

Hvort við eigum gefandi og nærandi samband við Guð og menn eða hvort þar á milli ríkir aðeins æpandi sambandsleysi.

Hvort við gerum vilja föður okkar á himnum eða hvort við látum okkur nægja að hrópa „Drottinn! Drottinn!“ þegar það passar inn í etíketturnar þar sem við erum stödd hverju sinni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 15. September 2019