Verðmiðinn á Himnaríki

by Oct 21, 2019Blogg, Forsíðufrétt, Prédikun


Guðspjall: Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“ Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“ Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir. Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“ Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn. Þá sagði Pétur: „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér.“ (Mrk 10.17-28)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í guðspjalli dagsins grípur Jesús til myndlíkingar sem er býsna langsótt, nánast súrrealísk. „Auðveldara er úlfalda að fara inn um nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki,“ segir hann.

Hvaðan kemur þetta? Af hverju úlfalda og nálarauga – af öllum þeim líkingum sem hann hefði getað gripið til? Hvað hefur þetta hvort með annað að gera?

Sennilegasta skýringin, að mínu mati, er sú að hér hafi eitthvað skolast til. Það er varla tilviljun að gríska orðið „kamilos“ merkir úlfaldi en orðið „kamelos“ – með e-i – merkir reipi. Enda stendur þarna „reipi“ en ekki „úlfaldi“ í mörgum yngri handritum. Eldri rithátturinn er þó hafður til grundvallar í vönduðum Biblíuþýðingum, enda líklegra að hann sé upprunalegur. Gildir þá einu hvort eftir á geti læðst sá grunur að einhverjum að um stafsetningarvillu í frumhandritinu hafi verið að ræða, eins og virðist hafa átt sér stað við einhverjar afritanir. Það styður við þessa kenningu að á móðurmáli Jesú, aremeísku, merkir orðið „gamla“ bæði „reipi“ og „úlfaldi“, sennilega vegna þess að reipi voru alla jafna úr úfaldahári. Það er því ekki ósennilegt að upphaflega hafi Jesús frá Nasaret verið að tala um að þræða nál með kaðli – sem er ekki alveg eins langsótt myndmál.

En það breytir þó ekki því að við verðum að halda okkur við úlfaldann, einfaldlega vegna þess að í ritningunni stendur „úlfaldi“. Aukinheldur má það kannski einu gilda hvort Jesús vara að tala um skepnuna sjálfa eða kaðal úr hárum hennar – hvorugu kemur maður í gegn um nálarauga.

Leiðirnar framhjá boðskapnum

Þessi texti er svo óbilgjarn, krafan svo miskunnarlaus, að í gegn um söguna hefur verið gripið til ýmissa ráða til að milda boðskap hans. Í einu fornu handriti segir til dæmis ekki „auðmaður“ heldur „þeim sem treysta á auðinn“. Það er þannig ekki auðurinn sem slíkur heldur afstaðan til hans sem torveldar hinum auðuga að verða hólpinn. En þetta er ekki áreiðanlegur ritháttur.

Auðmönnum er tvímælalaust líkt við úlfalda og í samanburði við úlfaldann er sáluhjálpin nálarauga. Hvergi er minnst á að það sé auðveldara fyrir góðhjartaða og trúrækna auðmenn að fá hlutdeild í Guðs ríki en samansaumaða nirfla. Textinn setur alla auðmenn undir sama hatt.

Á níundu öld greip einn ritskýrandi meira að segja til þess ráðs að skálda upp skemmtilega skýringu sem er í því fólgin að á borgarmúrum Jerúsalem hafi verið hlið sem kallað var „Nálaraugað“ og um það hlið  hefði ekki verið hægt að koma úlfalda nema taka af honum allar klyfjarnar. Úlfalda mátti troða þar í gegn, en hann gat ekki haft neitt með sér.  Margir – ekki síst þeir sem eitthvað áttu undir sér – hafa eflaust varpað öndinni léttar við þessa útlistun og sjálfsagt hljómar hún líka vel í eyrum okkar hér uppi á Íslandi á  21. öldinni sem erum upp til hópa – á mælikvarða sögutíma Nýja testamentisins að minnsta kosti – auðkýfingar.

En þessi skýring er bull. Engar áreiðanlegar heimildir eru til um slíkt hlið. Jesús var ekki að tala um borgarhlið, hann var að tala um nálarauga og Kristur ritningarinnar um spendýrið úlfalda, camelus dromedarius. Pælingar um hvort það sé síðan rétt haft eftir hinni sögulegu persónu eru vissulega skemmtileg dægradvöl, en þær breyta engu um þá staðreynd.

Jafningjasamfélagið

Hvað gerum við þá við þennan texta? Förum við og seljum allar eigur okkar í trausti þess að kvittunin fyrir þeim gildi sem aðgöngumiði að himnaríki? Og bendum svo fordæmandi fingri á alla sem ekki gera það sæl í þeirri sannfæringu okkar að við séum á siðferðilega æðra plani en annað fólk?

Jesús gerði það ekki.

Ríki maðurinn átti samúð hans alla. Jesús horfði á hann með ástúð, enda sá hann að manninum var einlæg alvara með spurningu sinni. Jesús efaðist ekki um að hann segði satt, að hann væri góðhjartaður og guðrækinn maður sem leitaðist við að lifa lífi sínu í samræmi við boðorð Guðs.

En hann var í þeirri stöðu að hann gat aldrei orðið einn af lærisveinum Jesú. Kærleikssamfélagið er jafningjasamfélag og maður sem átti miklar eignir var ekki jafningi alþýðufólksins sem fylgdi Jesú.

Lærisveinar Jesú höfðu yfirgefið allt, skilið allt eftir til að fylgja honum. Og það varð ríki maðurinn líka að gera ef hann ætlaði að verða hluti af þessu samfélagi á jafningjagrundvelli. En það var erfiðara fyrir hann að segja skilið við auðævi sín en það var fyrir Símon Pétur, svo dæmi sé tekið, að yfirgefa eitt hásetapláss – sem var allt og sumt sem hann hafði haft að að hverfa.

Verðmiði á himnaríki

En það er nauðsynlegt að við lesum áfram. Sagan er ekki búin þegar ríki maðurinn hverfur á braut dapur í bragði yfir því að vera ekki fær um að verða við kröfu Jesú, að geta ekki orðið einn af fylgjendum hans – af því að það kostaði of mikið. Samtal Jesú og lærisveinanna skýrir hvað átt er við.

Þessi spurning: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ lýsir því viðhorfi klassísks gyðingdóms, sem reyndar var á undanhaldi á tímum Jesú, að auðlegð væri merki um velþóknun Guðs. Ef þeir, sem Guð blessaði með ríkidæmi, gátu ekki gengið að himnaríki sem vísu … hvaða möguleika áttu þá guðsvolaðir fátæklingar?

Jesús segir að enginn maður geti áunnið sér himnaríki. Hvorki ríkir né fátækir. Það gildir einu hvort þú yfirgefur eitt aumt hásetapláss á skipskænu á Genesaretvatni eða blómstrandi gróðafyrirtæki – hvorugt er aðgangsmiði að himnaríki.

Af því að ef svo væri ekki þá væri kominn verðmiði á Himnaríki. Og þá má einu gildi hvort á verðmiðanum stendur „allt sem þú átt“ eða „megnið af því“, „fimmtíu prósent“ eða jafnvel bara „tíund“. Það væri samt verðmiði. Það væri samt yfirlýsing um að hin æðstu andlegu verðmæti fáist keypt fyrir það sem sem mölur og ryð frá grandað.

Svo er ekki.

Jesús bætir því við að Guði sé ekkert um megn. Ekkert. Það þýðir að Guð getur komið úlfalda í gegnum nálarauga … að ekki sé nú minnst á kaðal.

Það þýðir að ef það er verðmiði á himnaríki þá stendur á honum „náð“.

Það er aðeins fyrir náð Guðs að við verðum hólpin.

Af hverju að vera góð?

Við kaupum okkur ekki sáluhjálp með þúsundköllunum eða tíuþúsundköllunum sem við látum renna til góðgerðarmála; barnahjálpar, mannréttindabaráttu, landgræðslu eða hvaða göfuga málstaðar sem það er sem stendur hjarta okkar næst.

Ekki misskilja mig. Það er góðra gjalda vert að láta gott af sér leiða og í raun aðeins sjálfsagt að við verjum hluta af auðæfum okkar til að bæta og göfga samfélag manna og reikistjörnuna sem okkur er falið að annast. En við gerum það ekki til að vinna okkur inn prik hjá Guði.

Því ef við gerum það erum við búin að setja verðmiða á Guðs ríki.

Við gerum það af kærleika.

Ef við gerum það til að fá eitthvað í staðinn er það ekki kærleikur. Þá búa eigingjarnar hvatir þar að baki og kærleikurinn er ekki eigingjarn. Hann leitar ekki síns eigin, segir Páll postuli. Kærleikurinn er góðviljaður. Það er er ekki flóknara.

Ef við reynum að vera gott fólk bara af því að við væntum einhvers í staðinn þá erum við ekkert sérstaklega gott fólk. Ef við reynum að láta gott af okkur leiða af ótta við afleiðingar þess að gera það ekki, erum við ekki góð heldur hrædd.

Við leitumst við að gera veröldina að kærleiksríkari og betri stað af því að það er það minnsta sem við getum gert í þakklætisskyni fyrir náð Guðs sem hann í kærleika sínum úthellir yfir okkur án verðskuldunar. Eða svo vitnað sé í þá góðu bók, Góða dátann Svejk, þar sem segir: „Það er ekki til mikils mælst ef manni er gefin hæna að hann gefi af henni hælbeinið.“

Uppgjörið

Jesús kallar okkur til fylgdar við sig. Hann kallar okkur ekki til efnalegrar örbirgðar. En hann kallar okkur til uppgjörs við gildismat okkar. Og hann varar okkur við því sem villir okkur sýn. Í dæmisögunni um sáðmanninn bendir hann á að „áhyggjur heimsins, tál auðævanna og aðrar girndir“ (Mark 4.19) kæfi orð Guðs í hjörtum okkar. Og ungi maðurinn er þar. Hann er í raun ekki sjálfs sín herra, heldur þræll eigna sinna. Eigur hans eiga hann.

Það er tál auðævanna.

Og það er úr þessum þrældómi sem Jesús vill frelsa hann.

„Losaðu þig við það sem þú hefur dæmt þig til að þjóna og gakktu til liðs við okkur sem fullkominn jafningi – sem frjáls maður,“ segir hann.

Og þótt Jesús kalli okkur ekki til örbirgðar þá kallar hann okkur til þessa sama uppgjörs enn þann dag í dag.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 20. 10. 2019