Snertingin

by Jan 26, 2020Blogg, Forsíðufrétt, Prédikun


Guðspjall: Nú gekk Jesús niður af fjallinu og fylgdi honum mikill mannfjöldi. Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: „Drottinn, ef þú vilt getur þú hreinsað mig.“ Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni. Jesús sagði við hann: „Gæt þess að segja þetta engum en far þú, sýn þig prestinum og færðu þá fórn sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar.“ (Matt 8.1-3)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Kirkja er á vissan hátt afleitur staður til að kynnast Biblíunni og þeirri frásögn sem hún geymir af lífi og starfi Jesú frá Nasaret. Jújú, vissulega heyrum við glefsur af því sem hann tók sér fyrir hendur. Þennan sunnudag er sagt frá þessum atburði eins og þetta guðspjall segir frá honum og annan sunnudag er sagt frá einhverju öðru eins og eitthvað annað guðspjall greinir frá því. Og þannig tínast smám saman til upplýsingar um frelsarann, glefsu fyrir glefsu, sem hægt og rólega geta raðast upp eins og mósaíkverk og búið til einhvers konar mynd í huga okkar.

En einmitt í því liggur meinið líka. Við heyrum glefsur, teknar úr samhengi við flæði frásagnarinnar í ritinu þar sem þær standa. Og hætt er við því að það hafi enga merkingu fyrir okkur hvort guðspjallið skrifaði guðspjallamaðurinn Matteus, Markús, Lúkas eða Jóhannes, rétt eins og þeir hafi ekki hver fyrir sig sinn eigin stíl, einkenni og guðfræðilegar áherslur.

Þess vegna er ágætt þegar við heyrum sögu eins og þá sem guðspjall dagsins geymir að „súma“ aðeins út og setja hana í samhengi við þar hvar við erum stödd í atburðarásinni til að reyna að skilja hvaða tilgangi einmitt þessi saga þjónar á einmitt þessum stað í henni.

Hvað hefur gerst hér? Í hvaða samhengi erum við stödd? Er þessi saga kannski beint framhald af því sem á undan fór, jafnvel niðurlag þess eða klifun – stef til að hnykkja á því sem guðspjallamaðurinn var að enda við að segja?

Ofan af fjallinu

Upphafsorðin gefa okkur vísbendingu: „Nú gekk Jesús niður af fjallinu.“

Hvaða fjalli? Hvað hafði Jesús verið að gera á fjallinu?

Jú, Jesús hafði verið að halda fjallræðuna. Þetta er það fyrsta sem gerist eftir að hann hefur lokið máli sínu.

Fjallræðan er einn besti vitnisburðurinn um boðskap Jesú. Þar eru kjarnaatriði þess sem við getum kallað grunngildi kristindómsins dregin saman. Niðurlag hennar er sagan um mennina tvo sem byggðu sér hús, annar á bjargi en hinn á sandi.

Hver var munurinn á þeim annar en sá að annar var hygginn og hinn heimskur? Hann var sá að annar heyrði orð Jesú og breytti eftir þeim, hinn heyrði þau en lét þau sem vind um eyru þjóta. Munurinn var ekki sá að annar hefði heyrt en ekki hinn. Þeir heyrðu báðir.

Síðan segir: „Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu varð mannfjöldinn djúpt snortinn af orðum hans því að hann kenndi eins og sá er vald hefur og ekki eins og fræðimenn þeirra.“ Þessu næst labbar Jesús niður af fjallinu og saga dagsins í dag á sér stað.

Hann er nýbúinn að segja að sönn trú sé ekki spurning um orðavaðal heldur birtist hún í verkum okkar. Trúin verður að sjást í framgöngu okkar og framkomu hvert við annað. Og þetta segir hann eins og sá sem valdið hefur.

Því næst kemur hann fram eins og sá sem valdið hefur.

Hinn ósnertanlegi

Til hans kemur maður haldinn ólæknandi sjúkdómi. Hann var holdsveikur. Holdsveiki var hluti af umhverfi þeirra sem þessi saga er skrifuð fyrir. Áheyrendurnir vissu eitt og annað sem okkur er hulið – til allrar hamingju. Holdsveiki hafði verið landlæg í þessum heimshluta öldum saman eins og rit Gamla testamentisins bera vitni um. Þar er hvað eftir annað talað um holdsveiki sem bölvun.

Holdsveiki var það versta sem hægt var að hugsa sér. Hún var dauðadómur og hún var ljót og áberandi. Henni var ekki hægt að leyna.

Hinir holdsveiku voru á vissan hátt lifandi dauðir. Eftir að prestur hafði staðfest holdsveikitilfelli var hinum sjúka meinuð þátttaka í samfélaginu. Það mátti ekki snerta hann. Þegar einhver nálgaðist hann varð hann að hrópa að hann væri óhreinn. Hann mátti ekki dvelja innan borgarmúranna. Auðvitað var honum meinað aðgengi að musterinu þannig að hann var líka útilokaður frá Guði.

Og hvað gerir Jesús þegar einstaklingur af þessum jaðri samfélagsins mætir honum? Og við skulum hafa hugfast að hinn holdsveiki gerðist brotlegur við þær kvaðir sem sjúkdómur hans lagði á hann samkvæmt lögmálinu. Honum bar að halda sig fjarri. Það má ímynda sér hann smjúga í gegn um múginn sem fylgdi Jesú, fólk hefur forðað sér til að komast ekki í snertingu við hann. Það hefði jú ekki verið hægt að stöðva hann án þess að koma við hann.

En þessi óhreini maður krýpur frammi fyrir frelsaranum í fullvissu þess að hann geti gert hann hreinan. Hann trúir að Jesús hafi vald til þess. Og það hefur hefur hann. Spurningin er hvort hann vilji það.

Hvort hann vilji aflétta bölvuninni af honum. Og það vill Jesús.

Og Jesús brýtur lögin. Enn og aftur virðir hann fyrirmæli lögmálsins gersamlega að vettugi. Þessi síbrotamaður, því það er það sem hann var, réttir út höndina og snertir holdsveikan mann, sem var alveg stranglega bannað.

Kærleikurinn trompar lögmálið

Við skulum setja okkur í spor hins sjúka. Jesús snerti hann. Þessi maður hafði sennilega ekki upplifað mannlega snertingu árum saman.

Kærleikurinn trompar lögmálið.

Og presturinn sem var á bakvakt þennan dag hefur lent í fáheyrðri uppákomu. Hann hefur þurft að fletta upp í fjórtánda kafla Þriðju Mósebókar þar sem eru leiðbeiningar um helgihald í tilefni að hreinsun holdsveikra. Texti sem við getum ímyndað okkur að hafi ekki verið í mikilli notkun, ef þess voru þá einhver dæmi að reynt hefði á hann.

Þetta er sagan sem er sögð.

Jesús hreinsar mann sem samfélagið útilokaði. Hann snertir hinn ósnertanlega.

„Sælir eru hógværir, sælir eru miskunnsamir, sælir eru hjartarhreinir,“ segir hann. Þannig byrjar hann fjallræðuna. Hann minnist ekkert á undirgefni við lögmálið, við lög og reglur samfélagsins. Lög og reglur sem útiloka og útskúfa. Og hann minnist ekkert á trúarbrögð. „Sælir eru trúræknir og sælir eru löghlýðinir,“ eru setningar sem hvergi koma fyrir í Fjallræðunni.

Og inngangurinn að sögunni sem hann klykkir út með, þessari um mennina tvo, þann hyggna og þann heimska, er á þessa leið: „Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum,“ segir hann.

Að elska er að gera.

Að elska er að snerta þá ósnertanlegu.

Jesús snertir

Og það gildir enn þann dag í dag. Um þig og mig.

Við erum sem betur fer uppi á dögum þar sem holdsveiki hefur verið útrýmt úr samfélagi okkar.

En hinir ósnertanlegu er enn á meðal okkar.

Og við eigum sjálf stundir þar sem okkur finnst við vera ósnertanleg, óhrein.

En Jesús snertir okkur samt. Hann vill það. Það eina sem við þurfum að gera er að ganga á fund hans og biðja hann um það í trausti þess að hann geti það.

Í einlægri trú á að máttur okkur æðri geti gert okkur heil, geti gert okkur hrein að nýju.

Og það er engin þjóðsaga. Það er lifandi raunveruleiki í lífi fjölmargra bræðra okkar og systra. Máttur trúarinnar er raunverulegur.

Við erum öll þessi holdsveiki maður. Við þráum það öll að vera samþykkt, að vera viðurkennd. Og Jesús samþykkir okkur. Hann snertir okkur. Snertir okkur með hætti sem við höfum aldrei verið snert á áður.

Og þegar við höfum verið snert af honum stendur musteri Guðs okkur opið. Okkar bíður líf í gnægðum, reist og frjáls.

Jesús var ekkert að bulla þarna á fjallinu. Þegar hann gengur niður af því er hans fyrsta verk að sýna það í verki.

Og það má ímynda sér að hinn holdsveiki hafi setið álengdar og heyrt hvert orð, að minnsta kosti ber framganga hans í kjölfarið vott um það að hann hafi heyrt og sé að breyta í samræmi við það sem hann heyrði. Hann sé að byggja hús sitt á bjargi.

Og við sitjum eftir með spurninguna: „Heyrðir þú?“ Og ef svarið er já er næsta spurning óhjákvæmileg: „Hvað ætlarðu að gera í því?“

Ætlarðu að ganga fram fyrir Jesú í trausti þess að hann geti og vilji gera þig heilan? Og vera snertur á hátt sem þú hefur aldrei verið snertur á áður?

Eða ætlarðu að fara með þessa flís heim og setja hana í flísasafnið þitt sem þú kannski einhvern tímann kemur því í verk að púsla saman í sundurlausa mósaíkmynd af því hvernig þér sjálfum finnst þægilegast að sjá Jesú Krist?

Dýrð sé Guði föður og syni og helögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 26. 1. 2020