Þurrbrjósta þjóðfélag

by Jan 21, 2020Blogg, Forsíðufrétt, Prédikun

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Guðspjall dagsins segir frá fyrsta kraftaverki Jesú og um leið sennilega því kraftaverki sem mest hefur verið haft í flimtingum í gegnum tíðina og auðveldast er að spauga með. Að breyta vatni í vín, það væri nú munur að geta það.

Mér er ævinlega minnisstætt atvik frá því ég var unglingur og var í byggingarvinnu ásamt einum vini mínum. Verkstjórinn kom þá til okkar og var eitthvað grínast, gott ef það var ekki föstudagur og kominn fiðringur í mannskapinn. Hann klykkti út með þessari fullyrðingu: „Það væri nú aldeilis munur að hafa mann í vinnu hjá sér sem gæti breytt vatni í vín.“ Þessi vinur minn er einhver mest praktískt þenkjandi maður sem ég hef kynnst. Hann svaraði að bragði: „Væri ekki betra að eiga vél sem gæti gert það? Þá væri hægt að nota manninn í annað.“

Því auðvitað er enginn vandi að breyta vatni í vín. Til þess þarf bara ger og sykur … og smátíma. Þá gerist það sjálfkrafa.

Vínguðinn Jesús

Við skulum hafa það hugfast að guðspjallamaðurinn Jóhannes talar aldrei um kraftaverk. Það orð fyrirfinnst ekki í orðaforða hans. Hann talar um „táknin“ sem Jesús gerir og í því er lykillinn að því að skilja hvað hann er að segja okkur. Við verðum að setja upp eyru þeirra sem Jóhannes er að ávarpa, alþýðu manna fyrir botni Miðjarðarhafsins á fyrstu öld okkar tímatals þar sem kristindómur var ekki ríkjandi trúarbrögð og í raun að berjast fyrir tilveru sinni. Hvernig skildi það fólk þessa sögu og táknin sem hún er hlaðin?

Jesús breytir vatni í vín. Í hinum helleníska menningarheimi fyrstu aldarinnar gerði annar áberandi guð einmitt það: Díónýsus. Vínguðinn sem Rómverjar kölluðu Bakkus. Hann var tilbeðinn í miklum blótum þar sem vín flaut og ýmislegt annað var iðkað til að koma fólki í annarlegt ástand og fjarlægja hömlur. Þeir sem jaðarsettir voru af samfélaginu – konur, þrælar og útlendingar – gátu fundið til frelsis og léttis á Díónýsusarblótum, fengið útrás fyrir þrár sínar og hvatir, án þess að eiga á hættu fordæmingu og útskúfun. Enda voru þau vinsæl.

Víngarðurinn – og afurð hans, vínið – eru klassísk tákn fyrir lýð Guðs í spámannsritum Gamla testamentisins. „Víngarður Drottins er Ísraels hús og Júdamenn ekran sem hann ann,“ (Jes 5.79) segir spámaðurinn Jesaja.

En kerin standa tóm. Andinn er urinn. Trúararfurinn er liðinn undir lok. Þá fyllir Jesús kerin af miklu betra víni. Hann veitir veislugestum nýjan anda.

Við getum horft með vanþóknun á svallveislur Díónýsusarblótanna, en þau voru tilraun til brjótast undan hömlum og höftum og slíta af sér hlekkina sem öftruðu fólki frá því að lifa lífi sínu til fullnustu. Hedónísk, holdleg tilraun til þess … en á bak við hana var heiðarleg og einlæg þrá eftir frelsi og sálarfró.

Jesús er ekki vínguð … nema í því samhengi þegar vínið er tákn fyrir líf í gnægðum og frelsi: Tákn um nýjan anda. Jesús er kominn til að veita fólki miklu betra vín en nokkur Díónýsusarblót buðu upp á. Hann er kominn til að brjóta af okkur hlekkina sem meina okkur að lifa lífi í gnægðum reist og frjáls, ekki bara í algleymi einnar kvöldstundar heldur ævina á enda og um alla eilífð.

Stormurinn í fangið

Eins og annar heilagur sannleikur á þessi saga sístætt og eilíft erindi við okkur. Hún varðar ekki bara þjóðfélagslegar kringumstæður í framandi menningarheimi fornaldar í fjarlægum heimshluta. Hún varðar okkur hér og nú. Og við skulum líta í kringum okkur og spyrja: „Hvar standa hin tómu steinker samtímans? Á hvaða sviðum er samfélag okkar gersamlega þurrbrjósta?“

Má benda á kirkjuna? Sitjum við hér í tómu steinkeri? Er heilagur andi upp urinn í samfélaginu sem kennir sig við hann?

Af stefnum og straumum í opinberri umræði mætti ætla að svo væri. Svo dæmi sé tekið þá birtist nýlega pistill í dagblaði með slíkum hrærigraut af rangfærslum og ómaklegum árásum á kirkjuna að hefði það ekki verið Þjóðkirkjan sem var til umfjöllunar heldur til dæmis samfélag múslima á Íslandi hefði greinin þegar í stað – með réttu – verið úthrópuð sem stæk og óverjandi íslamófóbía. En svona liggja línurnar í rétthugsun samtímans. Það er ekki í tísku að hafa samúð með kirkjunni. Hinn samfélagslegi þrýstingur er ekki inn í hana heldur frá henni.

Þeim mun hjákátlegra finnst mér það þegar ég heyri að það beri á einhvern hátt vott um skort á sjálfstæðri hugsun vilja tilheyra kirkjunni. Að það að játa Jesú sem frelsara sinn beri vott um einhvers konar hjarðhegðun nú á dögum. Að það að vera uppsigað við kirkju og trúarbrögð sýni að viðkomandi sé óhræddur við að storka ríkjandi og viðteknum skoðunum, rétt eins og það séu trúleysingjarnir og kirkjuhatararnir sem séu með storminn í fangið í opinberri umræðu í samfélagi okkar. Svo er ekki. Það er kirkjan sem er með storminn í fangið.

Tindur normalkúrfunnar

Sá sem hreykir sér af trúleysi sínu nú á dögum er að hreykja sér á tindi normalkúrfunnar. Ekki svo að skilja að þar sé ekki margt ágætt fólk. Fólk er upp til hópa vel innrætt og vill vel og tindur normalkúrfunnar væri ekki tindurinn ef þar væri ekki hlutfallslega mest af því indæla fólki sem við manneskjurnar erum upp til hópa í hjarta okkar, þótt við getum síðan bitist eins og hundar og kettir um ágreiningsefni okkar. Það er ekkert að því að vera trúlaus ef maður er góð manneskja.

En að það beri vott um ónæmi fyrir jafningjaþrýstingi er fráleitt.

Þess vegna dáist ég að ungmennunum sem eru virk í kristilegu starfi, taka lifandi þátt í æskulýsstarfi kirkjunnar. Árlega koma hundruð unglinga af öllu landinu saman á landsmóti Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar og er það aðeins lítill hluti þeirra sem sækja starfið af kappi. Af hverju gera þessir krakkar það? Af því að það er svo hipp og kúl? Af því að það þykir almennt svo töff að vera kristinn? Af því að það er svo líklegt til vinsælda í hópi jafnaldranna?

Spyrjum okkur sjálf: Hvort skyldi vera líklegra til að hafa neikvæð áhrif á félagslega stöðu ungmenna, að hafna trúnni, hæðast að trúarbrögðunum og gera lítið úr starfi kirkjunnar eða að koma út úr skápnum sem kristin manneskja sem játar Jesú Krist sem leiðtoga lífs síns? Í hvora áttina er jafningjaþrýsingurinn sem er svo sérstaklega áhrifamikill einmitt á þessu mikla mótunarskeiði unglingsáranna? Hvor er töffarinn og hvor á á hættu að vera álitinn eitthvað skrýtinn? „Jesúhoppari“ eða jafnvel „trúarnöttari“? Hvor er að taka félagslega áhættu? Hvor er að standa með sjálfum sér og hvor er að fylgja straumnum?

Andinn í kirkjunni

Það skortir ekki andann í kirkjunna. Ef svo væri hefði hún lagt upp laupana í því mótlæti sem mætir henni um þessar mundir. Á hverjum degi iða kirkjur landsins af lífi og starfi. Börn, unglingar og eldri borgarar sækja í uppbyggjandi og andlega nærandi samveru undir þaki hennar. Fólk á öllum aldri sækir huggun og sálgæslu til presta hennar sem flestir fara í hverri viku víða um sókn sína að vera með helgistundir hjá þeim sem eiga erfitt með að sækja helgihaldið í kirkjunni, á sjúkrastofnanir, hjúkrunarheimli eða ýmiss konar sambýli. Og fólk sem á undir högg að sækja í samfélagi okkar, fólk sem býr við skort og neyð hér í landi allsnægtanna, leitar til kirkjunnar eftir aðstoð og fær hana. Eitt lítið inneignarkort í Bónus frá Laugarneskirkju gerði það að verkum að sorglega margir hér í þessari sókn gátu haldið jól. Og samskot sóknarbarna í messum voru líka nýtt til að hjálpa þeim sem á því þurftu að halda að leysa út nauðsynleg lyf sem fólk hafði ekki efni á.

En stöldrum nú við.

Hið tóma steinker

Álpaðist ég ekki akkúrat í þessum töluðum orðum beint ofan í stærsta tóma steinkerið í samfélagi okkar?

Af hverju er kirkjan að leysa út geðlyf fyrir fólk sem er með greiningu og uppáskrift frá lækni upp á að það þurfi á þeim að halda til að geta liðið nokkurn veginn sæmilega vel? Hversu gríðarlega mikil ónauðsynleg þjáning á sér stað, bæði fyrir hina veiku og aðstandendur þeirra, hve mikil vanlíðan og sálarkvalir sem hægt væri að koma í veg fyrir, af því að hinir veiku eru ekki aflögufærir um þessa þúsundkalla sem það kostar að leysa lyfin út – á sama tíma og ráðamenn þjóðarinnar verða uppvísir að því að koma milljörðum af sínu eigin fé úr landi með vafasömum hætti, innherjaupplýsingum og jafnvel skjalafölsunum, án þess að það hafi neinar afleiðingar fyrir þá?

Hvenær verður samfélag okkar með þeim hætti að læknar þurfi á leið sinni í vinnuna að klofa yfir lík fólks sem látist hefur úr auðlæknanlegum sjúkdómum af því að það hafði ekki efni á aðhlynningunni? Kannski finnst einhverjum ég vera að draga upp langsótta hryllingsmynd, en að mínum dómi er það öðru nær. Þróunin er í þessa átt og ef henni verður ekki snúið við er það ekki spurning um hvort þetta verði veruleikinn heldur hvenær.

Hversu margir í samfélagi okkar ná ekki að lifa lífi sínu til fullnustu vegna þess að þegar kemur að þeim er samfélag okkar þurrbrjósta, andi mannúðar og náungakærleika er ekki til staðar?

Það er ekki í kirkjunni sem andinn er urinn.

Tómu steinkerin okkar eru annars staðar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 19. 1. 2020