Gamla testamentið galopnað

by Feb 4, 2020Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir

GLUGGAÐ Í MISSKILDUSTU BÓK MANNKYNSSÖGUNNAR

Í febrúar og mars verður boðið upp á áhugaverða röð fræðslukvölda í safnaðarheimili Laugarneskirkju. Þau verða á miðvikudögum kl. 20 og hefjast 5. febrúar. Miðað er við að hver samvera taki u.þ.b. eina til eina og hálfa klukkustund. Heitt verður á könnunni, allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Á þessum fræðslukvöldum verður rýnt í Gamla testamentið, leyndarhjúpnum svipt af ýmsu varðandi það og gerð grein fyrir fjölmörgu af því óvænta sem rannsóknir og rýni fremstu spekinga heims hafa leitt í ljós á undanförnum áratugum. Fræðslan verður sérstaklega miðuð við almenning, enga þekkingu á efninu þarf til að hafa gagn og gaman af.

Um fræðsluna sér sr. Davíð Þór Jónsson, en sér til fulltingis fær hann fremstu guðfræðinga þjóðarinnar, hvern á sínu sviði. Dr. Gunnlaugur A. Jónsson fjallar um Davíðssálmana, sögu þeirra og ekki síst áhrifasögu. Dr. Jón Ásgeir Sigurvinsson fjallar um Spámannsritin og spekihefðina, en spekirit Gamla testamentisins og Sálmarnir eru gjarnan talin með aðgengilegasta efni þess. Spádómsritin geyma aukinheldur marga þeirra texta sem kristinir menn hafa túlkað sem spádóma um fæðingu Jesú. En er endilega víst að svo sé? Loks greinir Sr. Ninna Sif Svavarsdóttir frá rannsóknum sínum á stöðu og hlutverki kvenna í Gamla testamentinu.

Margir hafa horn í síðu Gamla testamentisins, enda geymir það margar mjög ljótar frásagnir og löggjöf sem á ekkert erindi í nútímasamfélag. En af hverju er það enn þann dag í dag hluti af helgiritasafni kristinna manna? Hverjir skrifuðu það, hvenær, fyrir hverja og til hvers? Og hvernig varð þetta safn af sögum, lagatextum, ljóðum og lífsspeki að bókinni sem við þekkjum í dag sem Gamla testamentið?

Svörin við þessum spurningum verða vonandi veitt á þessum fræðslukvöldum þannig að fólk fari heim, ef ekki sáttara við þessa misskildustu bók mannkynssögunnar þá að minnsta kosti fróðara um hana.

Dagskráin er svona:

5. febrúar

Hverjir skrifuðu Gamla testamentið, hvenær og hvers vegna? Sr. Davíð Þór Jónsson.

12. febrúar

Sköpunin og maðurinn. Sköpunarsögur Fyrstu Mósebókar. Sr. Davíð Þór Jónsson.

19. febrúar

Saga og bókmenntir Hebrea. Sagan sem sögð er og af hverju hún er sögð svona. Sr. Davíð Þór Jónsson.

26. febrúar

Tilbeiðslusamfélagið. Davíðssálmar og áhrifasaga þeirra. Dr. Gunnlaugur A. Jónsson.

4. mars

Tignun spekinnar. Spekirit Gamla testamentisins.Dr. Jón Ásgeir Sigurvinsson

11. mars

Spámannshefðin. Hlutverk og mikilvægi spámannanna. Dr. Jón Ásgeir Sigurvinsson

18. mars

Hlutverk kvenna í feðraveldinu. Konur í Gamla testamentinu. Sr. Ninna Sif Svavarsdóttir

DAGSKRÁIN HEFST KL. 20:00