Ha? Fáið þið borgað?

by Feb 9, 2020Blogg, Forsíðufrétt, Prédikun

Guðspjall: Jesús sagði þessa dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og húsbónda einn sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: Farið þið einnig í víngarðinn og ég mun greiða ykkur sanngjörn laun. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gerði sem fyrr. Og á elleftu stundu fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þið hér iðjulausir allan daginn? Þeir svara: Enginn hefur ráðið okkur. Hann segir við þá: Farið þið einnig í víngarðinn. Þegar kvöld var komið sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn? Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“ (Matt 20.1-16)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Tölvuöldin hefur alið af sér nýtt tjáningar- eða listform, svokallað „mím“. Það eru myndir eða myndskeið, vísanir í dægurmenningu, afþreyingu eða stjórnmál, sem hafa skírskotun útfyrir sig og tengjast eitthverju öðru í daglegu lífi, mannlegu hlutskipti eða samfélagsmálum. Eitt slíkt „mím“ kom upp í huga minn þegar ég skoðaði guðspjall dagsins, vegna þess að það dregur fram svo snaran þátt í eðli okkar.

Það er úr sjónvarpsþáttum sem nefnast We‘re the Millers þar sem Jennifer Aniston er í stóru hlutverki. Aðalpersónurnar eru eiturlyfjasmyglarar sem leika hamingjusama fjölskyldu til að hylja athæfi sitt. Í einu atriðinu kemst hin meinta eiginkona að því að ágóðanum er ójafnt skipt og hrópar á höfuðpaurinn, sem leikur eiginmanninn: „Græðirðu 500.000 dali á þessu og borgar mér bara 30.000?“ Sú sem leikur dótturina æpir þá: „Þrjátíu þúsund? Ég fæ þúsund!“ Þá segir sonurinn undrandi: „Ha? Fáið þið borgað?“

Í guðspjalli dagsins er ekki svindlað á neinum, ekki frekar en hjá Millers fjölskyldunefnunni. Staðið er við alla samninga og allir una glaðir við sitt … þangað til þeir fara að bera sig saman við manninn við hliðina á sér. Þá finnst þeim þeim gert rangt til.

Og við getum auðveldlega sett okkur í spor þeirra. Þarna hafa þeir þrælað allan daginn og fá sömu laun og hinir sem unnu bara í klukkutíma. Auðvitað er það ósanngjarnt. En við getum líka spurt: Hverju hefðu þeir verið bættari með því að hinir hefðu fengið minna?

Samanburðurinn

Samskiptamiðlarnir, með öllum þeim hægðarauka sem þeir hafa í för með sér, gera þennan samanburð okkar við náungann enn auðveldari og nánast ósjálfráðan. Þar sjáum við það sem vinir og kunningjar og jafnvel fólk sem við þekkjum ekki neitt kýs að deila með umheiminum af lífi sínu. Við sjáum veislumat og utanlandsferðir, útskriftar- og brúðkaupsveislur, uppgerð hús og nýjar eldhúsinnréttingar svo eitthvað sé nefnt. Og við drögum þá ályktun að svona sé daglegt líf fólks í kringum okkur og okkur fer að finnast líf okkar sjálfra ósköp ómerkilegt í samanburði. Við hugsum ekki út í að þetta fólk deilir kannski ekki ljósmyndum af sér nývöknuðu og grúttimbruðu, af útbrotunum sínum eða skallablettunum, óhreinatauskörfunni og mánudagssoðningunni. Við erum að bera okkar heildarmynd saman við mynd sem er samsett úr brotum af því besta hjá hundruðum annarra.

Ég er ansi ánægður með bílinn minn, en ég verð að viðurkenna að þegar ég settist upp í Audi jeppann með bakkmyndavélinni og aksturstölvunni, sem einn vina minna á, þá fannst mér ósköp lítið til suzuki jepplingsins míns koma. Ég var ansi ánægður með að hljómsveitin mín skyldi hálffylla Bæjarbíó í Hafnarfirði, en ég verð að viðurkenna að þegar Bubbi Morthens troðfyllti það skömmu síðar fannst mér munurinn óþægilegur. Þetta er í eðli okkar og er ekkert til að skammast sín fyrir.

En hverju væri ég bættari með að vinur minn væri aðeins verr bílandi eða að Bubbi Morthens væri ekki alveg svona vinsæll?

Sjálfsmatið

Við lítum í kringum okkur, leggjum mat á fólkið í umhverfi okkar, hag þess og stöðu til þess að geta betur staðsett okkur sjálf í félagslegu samhengi. Ég er tekjulægri en þessi ákveðni vinur minn, eins og reyndar allur meginþorri þjóðarinnar líka. Og ég á minni aðdáaendahóp en Bubbi Morthens, eins og reyndar hver einasti núlifandi Íslendingur, leyfi ég mér að fullyrða.

Hvað erum við eiginlega að bera okkur saman við? Hve óraunhæfar kröfur gerum við til okkar sjálfra með þessum samanburði? Og við dæmum okkur sjálf harðar en við myndum dæma nokkurn annan. Við lítum ekki niður á alla sem ekki aka um á glænýjum Audi-jeppum. Við lítum ekki niður á alla aðra en vinsælustu dægurlagasöngvara þjóðarinnar.

Af hverju ætti ljúffengi þorskhnakkinn minn að verða eitthvað ólystugri við það að maðurinn á næsta borði fær sér humar? Hefði hann orðið girnilegri ef hann hefði fengið sér pylsu? Af hverju ætti sumarfríið mitt austur á Fljótsdalshéraði að verða ómerkilegra af því að maðurinn í næsta húsi fer til Balí? Hefði ég orðið ánægðari fyrir austan ef hann hefði bara haldið sig heima hjá sér?

Af hverju er svona erfitt að una glaður við sitt og vera ekki alltaf að vega það og meta í sambanburði við aðra? Hvað fáum við út úr því?

Dæmisagan

Ekki svo að skilja að vinnuveitandinn í dæmisögunni sem við heyrum í dag komi ekki svívirðilega fram. Hann gerir það, við skulum alveg hafa það á hreinu. Að borga sömu laun fyrir langan vinnudag og fyrir einnar klukkustundar vinnuframlag er auðvitað með öllu óverjandi og skýlaust brot, ekki bara á allri vinnulöggjöf heldur allri sanngirni líka.

Þess vegna skulum við líka hafa það alveg á hreinu að þessi saga er ekki um vinnulöggjöf. Hún er ekki um mannaráðningar og launamál. Hún er ekki innlegg í kjaradeilur dagsins í dag.

Þetta dæmisaga um náð Guðs. Jesús sagði sjálfur hvað hún þýddi. Herra víngarðsins er Guð, víngarðurinn veröldin og við mannfólkið erum líkt og verkamennirnir kölluð til ólikra verka á ólíkum tímum. Náð Guðs er til allra manna jafnt. Henni er ekki úthlutað eftir vinnuframlagi. Við erum kölluð til mismunandi starfa á mismunandi tímum og við uppskerum náðina öll jafnt, hvert sem okkar framlag var. Guð setur líf okkar ekki upp í excel skjal sem reiknar út hvað hver og einn verðskuldar mikið af náð í skiptum fyrir hvað hann var góður. Gæska hans er óendanleg.

Víngarðurinn er veröldin og við erum öll verkamenn í honum. Við erum öll kölluð til starfa í honum. Gríska orðið sem notað er í þessari sögu um vinnu verkamannanna er „leitourgia“. Það er sama orð og „liturgía“ sem við notum um helgisiðina okkar. Merking þess er „þjónusta“. Þess vegna notum við orðið „guðsþjónusta“ um það þegar við komum saman og iðkum helgisiðina okkar. Við erum að þjóna Guði.

Guðsþjónustan

En þessi saga minnir okkur á það að þjónustan okkar við Guð, „litúrgían“ okkar, er ekki bundin við þessar samverustundir okkar innan kirkjuveggjanna. Starf okkar úti í veröldinni á að vera „litúrgía“… guðs-þjónusta, þjónusta við Guð og náungann, við það sem gott er og fallegt, helibrigt og heilagt. Þjónusta við kærleikann. Og það er aldrei of seint að elska.

Okkur kann að virðast það ósanngjarnt að við – og nú tala ég í kaldhæðni, athugið það – sem allt okkar líf leituðumst við að vera gott kristið fólk og gerðum aldrei nein mistök, skulum ekki fá eitthvað meira að launum en hinir sem vöknuðu ekki til vitundar um skyldur sínar við Guð og náungann fyrr en eftir dúk og disk. Aðeins meiri náð.

Aðeins eilífara líf.

En það er ekki hægt. Eilífðir geta ekki verið misstórar. Brotabrot af eilífðinni er heil eilífð. Því ef við myndum skilgreina eitthvað X hlutfall af eilífiðinni værum við með því búin að skilgreina eilífðina alla og þá væri hún ekki lengur eilíf.

Náð Guðs er eilíf. Af því leiðir að lítill hluti af henni er jafnstór og stór hluti hennar og jafnvel hún öll.

Guð spyr ekki hvenær við mættum heldur hvar við vorum þegar vinnudegi lauk.

Og það kann að virðast ósanngjarnt að ungur og hraustur maður, sem vinnur langan vinnudag og afkastar meira en sá gamli eða veikburða sem starfar við hlið hans hluta úr degi, beri ekki meira en hann úr býtum. En við erum ólík, hreysti okkar er misjöfn og hæfileikar okkar eru á ólíkum sviðum. Við erum ekki öll með sömu spil á hendi. Við förum út í lífið með ólíkt veganesti að heiman. Það geta verið óteljandi ástæður fyrir því að sumir mæta seinna en aðrir og afkasta minna.

En ef eini hvatinn fyrir því að sá ungi og hrausti mætti snemma var sá að bera meira úr býtum en hinir veikburða og hægfara, þá var hann ekki að þjóna kærleikanum heldur sjálfum sér.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 9. febrúar 2020