Ljós og skuggar vega salt

by Feb 2, 2020Blogg, Forsíðufrétt, Prédikun

Guðspjall:
Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“
Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“
Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan.
Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“
(Matt.17:1-9)


1. FJALLIР   

Kæru vinir, ég heilsa ykkur í Jesú nafni.       
Guðspjallstexti dagsins, Ummyndunin á fjallinu, staðsetur Jesú í samhengi við gyðinglega hefð, í samhengi við Móse sem táknmynd lögmálsins og Elía sem táknmynd spámannanna. Lögmálið og spámennirnir fullkomnast í persónu Jesú, í honum birtist Kristur, birta og ljós, of skært til að geta verið aðeins af þessum heimi. Textinn gegnir því hlutverki að undirstrika hlutverk Jesú og að með honum hefjist nýr veruleiki.        
Fjallið hafði og hefur ríkt táknrænt hlutverk í trúarmenningunni.    
Á fjallinu ertu nærri Guði.                 

Það er mikilvægt fyrir okkur að geta fundið og ræktað þessa vídd sem fjallið stendur fyrir.    
Í gær ræddi ég við mann sem á það sameiginlegt með mér að tónlist hefur reynst honum uppspretta sköpunar, hvíldar, leikgleði, já, tækifæri til að finna þennan samhljóm innra með okkur sem skiptir svo miklu máli að lifa í tengslum við.    
Sanna tilfinningu um að ,,vera heima.” Kannist þið við að fá gæsahúð við að hlusta á lag?    
Vitiði, ég get alltaf heimsótt minninguna af því þegar ég samdi fyrsta lagið mitt; það var sunnudagur, við vorum nýkomin heim fjölskyldan úr sumarbústað. Ég var 10 ára og lagið var sömu fjórar nóturnar, aftur og aftur.         
Hvaða stað átt þú? Hvert er þitt fjall, hver eru þín úrræði, hvar finnur þú þig tengda sjálfri þér og Guði, þar sem þú finnur birtuna skína, hvar ertu nærri Kristi?        

2. SAMHENGI          

Hvernig guðspjallstexti dagsins staðsetur frásögnina af lífi og starfi Jesú í samhengi við trúarmenningu samtíma Jesú er einnig góð áminning fyrir okkur – við erum alltaf hluti af samhengi. Við komumst ekki undan því, við erum ekki til í tómi.       

Okkur á Íslandi er þetta augljóst, við erum alltaf að fást við þá staðreynd að við tilheyrum hvort öðru. Þegar ég spyr ,,hverra manna ert þú?” er ég ekki aðeins að spurja hvaðan þú kemur, ég er að spyrja hvernig við tengjumst.      
Við getum fundið í því hlýju og nánd, við getum líka fundið hvað það er vandasamt; í jafn nánu tengslarými og hér á landi þurfum við að vera vakandi og ábyrg. Við verðum að vanda okkur.       

Að tengja saman, þetta er einnig hlutverk trúarbragðanna.   
Latneska orðið religio þýðir að tengja aftur. Það felur í sér að mynda einingu, heild.
Hlutverk trúarbragða ætti þannig ekki að vera að fá okkur til að hunsa eða afneita þessum heimi eins og hann er – heldur aðstoða okkur við að tengjast honum, meðtaka hann, tilheyra honum, að mynda tengipunkt fyrir bæði veraldlegar og andlegar víddir okkar.         
Trúarlíf okkar varðar ekki aðeins okkur sjálf – það snertir ekki aðeins innri veruleika okkar sem einstaklinga, heldur einnig ytri – samhengi okkar og samfélag.     
Hlutverk trúarbragða er að leitast við að hjálpa okkur öllum upp á fjallið, saman.

3. EYÐIMÖRKIN     

En hlutverk trúarbragða er ekki aðeins að hjálpa okkur upp á fjall, heldur einnig að gefa okkur hugrekki til að halda út í eyðimörkina.
Mun fyrr í Matteusarguðspjalli en þar sem við lesum í dag heldur Jesús á annan stað, þegar hann dvelur í eyðimörkinni í fjörutíu daga og fjörutíu nætur.            
Þar mætir hann freistingum mannlegs lífs, öllum skuggunum sem við getum þurft að mæta. 
Í sögu Jesú erum við stöðugt að sjá þroskamunstur birtast, til að kannast til fulls við birtuna sem í okkur býr þurfum við að hafa hugrekki til þess að horfast í augu við og þekkja skuggana í okkur.    

Eyðimörkin spyr okkur þessarar spurningar; hvaða myrkur, hvaða brestir, hvaða grimmd, býr mögulega í mér, rétt eins og hverjum öðrum?           

Þetta á einnig við um samhengi okkar og samfélag. Þegar við sjáum skuggalegar hliðar samfélagsins birtast okkur, þegar við heyrum fréttir af hernaðarátökum, spillingu og arðráni, ólýsanlegum ofbeldisverkum,            
þegar við heyrum af stöðugum brotum á barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, hvað sem það kann að vera sem fær okkur til að svíða, þá má vera að rétt sé að staldra við og spurja sig:    
Hvaða ótti og hvaða brestir í mér hafa tekið eða gætu tekið þátt í þessu?           
Og hvað hvetur mín besta vitund mig nú til þess að gera?   

Nýverið var sýnd á RÚV heimildarmyndin “the Last Survivors”. Hún fjallar um síðustu eftirlifendur Helfararinnar, sem búsettir eru á Bretlandi. Í myndinni segir einn þeirra:        

,,Stundum finnst mér ég ekki geta sagt hvað er hræðilegt við mannkynið, vil frekar segja það sem fólk vill heyra, um vonina. Markmið mitt núna er að lifa þau fáu ár sem ég á eftir án of mikils sársauka fyrir mig, fjölskylduna og heiminn almennt. Ég hef á tilfinningunni að það sé of stór ósk.”

Eitt af því sem við getum gert er að gleyma ekki, heldur halda áfram að muna og horfast í augu við söguna.   

Það var eftir seinni heimsstyrjöldinni sem stefna kristins realisma kom fram.   
Einn af helstu guðfræðingum þessarar stefnu var Reinhold Niebuhr, en hann lagði áherslu á hve mikilvægt væri fyrir hinn trúaða að horfast í augu við breyskleika mannlegs eðlis og gangast við takmörkunum manneskjunnar.         
Æðruleysisbæn Niebuhr þekkjum við mörg, en hún hefst svona:                 

Guð gefi mér æðruleysi,
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt,
og vit til að greina þar á milli.    
       

Við þurfum að horfast í augu við skugga mannlegs lífs, en á sama tíma er mikilvægt að minnast þess að það er nefnilega ljósið, sjálf birtan, sem gerir okkur kleift að sjá, meðhöndla og sættast við skuggana.  

Í sögunni Fífukveikur eftir Guðmund Friðjónsson frá Sandi er þetta fallega bænavers að finna:     

Maríusonur, mér er kalt,          
mjöllina af skjánum taktu,     
yfir mér einnig vaktu.
Lífið bæði og lánið er valt,    
ljós og skuggar vega salt,      
við lágan sess á ljóstýrunni haltu.      

4. EYÐIMÖRKIN, SAMHENGIÐ, FJALLIÐ.

Ljós og skuggar vega salt.     

Janúar 2020 var átakasamur og um margt erfiður mánuður hér á landi. Áföll gengu yfir landið okkar undanfarin mánuð, sem snerta líf landsmanna, sum hver á sárari hátt en fært verður í orð.      
Í skugga þessara sáru atburða hefur alltaf brotist fram mikið ljós.   
Samkennd og stuðningur fjölskyldna og vina, fólk að halda utan um fólk.    
Þetta ljós hefur birst í krafti og kærleiksverkum björgunarsveitarmanna landsins, sem virðast óþreytandi í störfum sínum. Við sáum heilt þorp, Blönduós, taka höndum saman og umvefja unga fólkið okkar eftir rútuslys. Eftir snjóflóð á Flateyri mátti sjá á forsíðu eins af dagblöðunum stór hjörtu úr snjó, sem börn höfðu mótað til áminningar um að kærleikurinn hjálpar okkur í gegnum allt.            
Nú varir trú, von og kærleikur.          

Albert Einstein, sagði eitt sinn eitthvað á þessa leið:
,,Það eru einungis tvær leiðir til að lifa lífinu. Ein leiðin er eins og ekkert sé kraftaverk. Hin er eins og allt sé kraftaverk.”        

Kristur hvetur okkur til samfylgdar með sér til móts við kraftaverk daglegs lífs.    
Í Jesús frá Nasaret birtist okkur enn myndin af Guði sem gerist maður. Mynd sem sýnir að Guð er ekki háttupphafið fjarlægt afl sem á ekki snertiflöt við veruleika daglegs lífs okkar.    
Guð umvefur daglegt líf okkar, undirliggjandi bassatónar tilverunnar eru kærleikur Guðs og þeir halda áfram að hljóma – líka þegar atburðir verða sem koma þvert á þá. 

Enn í dag horfum við til Jesú frá Nasaret og í fæðingu hans, lífi og starfi, dauða og upprisu, finnum við leiðarvísi.         
,,Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið” segir Kristur.         
Vegur okkar liggur í eyðimörkina – í ríki skuggana.
Vegurinn liggur upp á fjallið, þar sem við finnum birtu Krists, finnum okkur nær Guði.
Vegurinn liggur í samfélag og samhengi, þar sem við erum hvert með öðru.  
Þar sem við göngumst við því að vera hvort öðru háð, höldum sjálfum okkur og hvort öðru ábyrgu, horfumst í augu.          

Megir þú mæta Kristi í eyðimörkinni.           
Megir þú mæta Kristi á fjallinu.        
Megir þú mæta Kristi í samfélaginu.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Amen.         Prédikun flutt í Laugarneskirkju 2. 2. 2020

Deila: