Tilkynning vegna samkomubanns

by Mar 15, 2020Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt

Vegna samkomubanns sem sett hefur verið á vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar verður töluverð röskun á starfi Laugarneskirkju a.m.k. næstu fjórar vikurnar. Þar ber helst að nefna þetta:

1. Að tilmælum biskups og prófasts fellur hefðbundið helgihald niður, þ.e. guðsþjónustur á sunnudögum, þar með talinn sunnudagaskóli, frá og með 22. mars og fram yfir páska. Kyrrðarbænir okkar á þriðjudagskvöldum kl. 20 (kirkjan opnar kl. 19:30) munu þó áfram fara fram, enda treystum við okkur til að virða að fullu fyrirmæli sóttvarnalæknis um mannfjölda, snertingu, fjarlægð á milli einstaklinga og hreinlæti við þær.

2. Síðustu tveim samverum fermingarbarna og þar með fermingarviðtölum verður frestað fram yfir páska. Sem stendur er miðað við að næsta samvera fermingarbarna verði þriðjudaginn 14. apríl á venjulegum tíma, þ.e. 15:15 til 16:45. Áætluðu fræðslukvöldi með fermingarbörnum og foreldrum þeirra, sem ætlunin var að halda 25. mars, verður einnig frestað fram yfir páska. Vonir standa til að ekki þurfi að aflýsa því með öllu, en það verður auglýst með eins miklum fyrirvara og unnt er þegar það liggur fyrir.

3. Fermingarathöfnum sem ætlað var að halda á pálmasunnudag, 5. apríl, og sumardaginn fyrsta, 23. apríl, hefur verið aflýst. Þeirri fyrrnefndu vegna þess að þá stendur samkomubannið enn yfir, hinni vegna þess að þá verður svo stutt liðið frá því að samkomubanni lauk að enginn tími verður til nauðsynlegs undirbúnings fyrir athöfnina. Fermingarbörnum sem ætluðu sér að fermast þá daga verður boðið að fermast þess í stað við athöfn í kirkjunni annað hvort 30. ágúst eða 6. september, eftir því hvort hentar þeim betur. Fjölskyldurnar þyrftu að hafa tilkynnt okkur um ákvörðun sína í þeim efnum fyrir lok maí. Enn er fyrirhugað að halda áætlaðar fermingarathafnir 3. maí og 6. júní. Verði þróun mála með þeim hætti að nauðsynlegt verði að aflýsa þeim líka verður fjölskyldum viðkomandi fermingarbarna tilkynnt það með eins miklum fyrirvara og kostur er. Þá yrði fermingarathöfnum haustsins jafnframt fjölgað sem því nemur.

4. Því miður neyðumst við til að leggja allt barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar niður á meðan samkomubann stendur yfir þar sem við treystum okkur ekki til að standa að því með þeim hætti sem fyrirmæli sóttvarnalæknis kveða á um. Vonir okkar standa þó til að hægt verði að bjóða börnum á grunnskólaaldri upp á einhverjar samverur sem standast þær takmarkanir sem um slíkt gilda á meðan samkomubann stendur yfir. Þær verða auglýstar sérstaklega.

5. Aðrar samkomur sem fyrirhugaðar hafa verið, s.s. fræðslukvöld um Gamla testamentið 18. mars og Stjörnustríðs-maraþon á föstudaginn langa, verða samkvæmt áætlun, enda hægur vandi að virða fyrirmæli sóttvarnalæknis um mannfjölda, snertingu, fjarlægð á milli einstaklinga og hreinlæti við þær. Stjörnustríðsmaraþonið verður auglýst sérstaklega þegar nær dregur.

Við biðjum alla að hafa í huga að hver og einn verður að gæta að ábyrgð sinni og gera það upp við sig með hliðsjón af kringumstæðum sínum hvort hann eða hún eða barn hans eða hennar ætti að taka þátt í þeim fáu samkomum sem þó verður leitast við að standa fyrir. Þau sem eru í náinni umgengni við fólk í áhættuhópum eða tilheyra þeim sjálf ættu að vera sérstaklega vör um sig hvað það varðar.

Þessi áætlun miðar við það sem fyrir liggur þegar hún er gerð, 15. mars 2020. En þróun mála er í senn hröð og ófyrirsjáanleg þannig að viðbúið er að hún breytist. Allar breytingar á þessum fyrirætlunum verða kynntar á heimasíðu Laugarneskirkju og biðjum við alla að fylgjast vel með því sem þar fer fram.

Loks minnum við á að þessir vályndu tímar gera þær kröfur til okkar sem samfélags að við stöndum saman um að verja þá sem eru sérstaklega berskjaldaðir fyrir þessum vágesti með því að sýna ábyrgð og skynsemi og fara í einu og öllu að ráðleggingum okkar færustu sérfræðinga sem um þessar mundir leggja nótt við dag að verja líf og heilsu landsmanna. Við viljum líka minna á að í því sambandi er nauðsynlegt að sýna yfirvegun og stillingu og gæta þess að láta óttann ekki ná tökum á sér. Meðal okkar eru ungar og viðkvæmar sálir sem óttinn getur líka leikið illa.

„Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.“ (Sálm 23.4)

Rétt er að fram komi að við, prestar Laugarneskirkju, erum að sjálfsögðu til allrar þjónustu reiðubúnir, til viðtals og sálgæslu, næstu fjórar vikurnar sem endranær.

Í Guðs friði,

Davíð Þór Jónsson, s: 898 6302, davidthor@laugarneskirkja.is

Hjalti Jón Sverrisson, s: 849 2048, hjaltijon@laugarneskirkja.is