Kirkjan á tímum Covid-19

by Mar 7, 2020Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt

Eins og ekki hefur farið fram hjá neinum standa þjóðir veraldar nú frammi fyrir nýrri vá sem er útbreiðsla Covid-19 veirunnar, en læknavísindin eru enn sem komið er ráðþrota gagnvart henni. Nú er svo komið að lýst hefur verið yfir neyðarástandi hér á landi og er sjálfsagt og eðlilegt að bregðast við því með ábyrgum hætti.

Á meðan ekki er lýst yfir samkomubanni verður messað í Laugarneskirkju eins og áætlun gerir ráð fyrir. Hins vegar hafa þau tilmæli borist frá biskupi að altarisgöngur verði ekki viðhafðar að svo stöddu og verður orðið við því. Kirkjugestir verða ekki heldur kvaddir með handabandi eftir athöfn eins og venjan er. Við vekjum athygli á því að handspritt er í brúsum í anddyri kirkjunnar og hvetjum við kirkjugesti til að nýta sér þá.

Annað safnaðarstarf, s.s. fræðslusamkomur og barna- og æskulýsstarf, verður líka eins og auglýst hefur verið uns annað verður ákveðið.

Hvað fermingarnar, sem eru framundan, varðar þá á það sama við um þær og helgihald og annað starf kirkjunnar. Á meðan ekki er samkomubann munu þær fara fram eins og áætlað er, en án handabands og altarisgöngu. Leitast yrði þá við að altarisgangan færi fram síðar. Þannig má hugsa sér að í upphafi næsta vetrar verði fermingarbörn vorsins boðin til kirkju og altaris. Það yrði ákveðið í samráði við fermingarbörn og fjölskyldur þeirra.

Við í Laugarneskirkju förum að fyrirmælum sóttvarnarlæknis og annarra sem leggja okkur línurnar í þessum efnum. Við biðjum jafnframt fyrir þeim öllum sem búa við mikið álag við að fyrirbyggja vá og vakta stöðuna almenningi til heilla.

Við minnum á að í samfélagi okkar eru aldraðir ástvinir og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Nú er það okkar allra að vernda þessa samferðamenn okkar sem eru í sérstökum áhættuhópi með því að sýna ábyrgð.

„Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ (Matt 25.40)

Kær kveðja,

Davíð Þór Jónsson

Sóknarprestur í Laugarnessprestakalli