Samfélag & Þakklæti – 1. pistill: Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir

by Mar 17, 2020Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir, Pistill

Þetta líður hjá

Á páskum fyrir tæpu ári var ég stödd ásamt fjölskyldunni minni í París.
Við áttum saman yndislega daga, fórum á söfn, í göngutúra í sólinni, versluðum og nutum þess að vera saman. Á laugardeginum fyrir páskadag höfðu hinir svokölluðu gulvestungar boðað til mótmæla í borginni.
Við vorum búin að ákveða að sinna ýmsum erindum þann dag að lokinni dásamlegri morgunskoðunarferð með íslensku Parísardömunni sem þar býr, skiptum því liði og sumir fóru að versla á meðan aðrir skoðuðu sig um. Við hjónin leigðum okkur rafmagnshlaupahjól, brunuðum í gegnum París og sáum bregða fyrir allskonar fólki; vel klæddu pari sem stormaði í gegnum mannþröngina með lítinn hund og hóp af ungmennum með bakpoka sem eltu enskumælandi leiðsögumann, einnig sáum við útigangsmann sem var búinn að koma sér vel fyrir undir göngubrú og sat í gatslitnum hægindastól við hlið rúmstæðis sem var upp við vegg alsettum ljósmyndum af sennilega ástvinum hans.
Ein dætra minna fór fyrst heim á hótel og sendi okkur skilaboð um að það væru mikil mótmæli, eldar og óeirðir rétt við hótelið.
Við urðum öll óróleg og ég man að á sama tíma og ég fann fyrir óttatilfinningu þá var velferð barnanna minna mér efst í huga og ég vildi hafa þau nálægt mér. Þennan eftirmiðdag dvöldum við saman í litlum bakgarði hótelsins, smökkuðum allskonar makkarónur sem við höfðum keypt um morguninn, töluðum um ýmislegt sem varðaði tengsl okkar, rifjuðum upp dýrmætar minningar, fundum öll hve við skiptum hvert annað miklu máli og smátt og smátt fundum við að óttinn leið hjá samhliða því sem samkenndin milli okkar jókst.

Mér hefur verið hugsað til þessa dags undanfarið, hvernig óttinn sem ég fann til vakti þörf fyrir öryggi. Öryggið í París í apríl 2019 fólst í að hafa fjölskylduna mína hjá mér.

Í mars 2020 finn ég að samfélagið hefur hægt á sér og að viðbragðið við óttanum sem hefur hreiðrað hér um sig er öryggið sem samkenndin færir; þessi tilfinning um að við erum öll í þessu saman.
Við áttum okkur á hve litlu við í raun og veru höfum stjórn á og aðstæður sem við ráðum engu um geta á andartaki breytt sýn okkar á verðmæti. Hlutir, fermetrar eða önnur veraldleg gæði eru hjóm eitt í samanburði við kærleikann, sem er það verðmætasta í lífinu.
Á tímum hlutlægrar fjarlægðar við annað fólk er ég þakklát fyrir huglæga nálægð, sem við getum notið vegna tækninnar og í gegnum samfélagsmiðla. Segjum ástvinum okkar að við elskum þau, sýnum náunga okkar kærleika, verum til staðar hvert fyrir annað og hlúum að okkur sjálfum.

Þetta líður hjá.

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir