Það er aðfaranótt 28. júní 2016.
Vekjaraklukkan hringir kl. 02.00 eftir um það bil þriggja klukkustunda svefn. Margur hefði haldið að stefnan væri tekin á Keflavíkurflugvöll í leit að ævintýrum, en raunveruleikinn er annar. Stefnan er tekin í Laugardalinn. Nánar tiltekið í Laugarneskirkju. Á þessum tíma var ég í starfsþjálfun þar hjá sr. Kristínu Þórunni Tómasdóttur, en hafði um nokkurt skeið starfað við kirkjuna við hin ýmsu störf. Ég hóf störf þar áður en ég ákvað að verða prestur, en það var einmitt þegar ég kynntist Laugarneskirkju og því starfi sem þar fer fram, að ég sá hvað þetta væri merkilegt, áhugavert og ekki síst mikilvægt starf og ákvað að verða prestur.

Þessa nótt hafði sr. Toshiki Toma, prestur innflytjenda, og sr. Kristín Þórunn sóknarprestur ákveðið að láta á það reyna að skjóta verndarskjóli yfir svo íraska drengi, meðal annars 16 ára dreng, sem senda átti úr landi þessa sömu nótt.

Við vissum sennilega öll innst inni að þetta myndi ekki virka, en vildum sýna þeim allan þann stuðning og styrk sem hægt var. Við þekktum aðstæður þeirra og vissum hvað myndi bíða þeirra ef þeir yrðu sendir aftur heim. Lögreglan sótti þá með valdi rétt fyrir fimm og það var átakanlegt að horfa uppá það. Lögreglan var bara að vinna vinnuna sína, en lögin í landinu voru meingölluð og líf alvöru fólks í húfu.

Þegar ég fékk að starfa með sr. Toshiki í starfi hans með hælisleitendum og fólki á flótta lærði ég að landamæri eru ekki til í raun og veru, að við erum öll eitt undir himninum. Við eigum öll eitthvað sameiginlegt og að við eigum öll jafnan rétt til lífs og öryggis.

Í Laugarneskirkju kynntist ég mörgu fólki sem kom til landsins í leit að öryggi og betra lífi. Okkur kom vel saman og þeim kom vel saman. Margir fengu að vera áfram og eru hér enn, fengu tækifæri, lærðu íslensku og eru hluti af okkar fjölbreytta fjölmenningarsamfélagi í dag.

Það var fallegt að sjá hvernig kirkjan veitti þessu fólki öruggan stað til þess að koma saman og tjá tilfinningar sínar, gaf þeim ástæðu til þess að fara út og kynnast öðru fólki, og veitti því stuðning þegar ekkert virtist ætla að ganga upp. Hvernig trúin hjálpaði þeim að lifa einn dag í einu, í því trausti sem trúnni fylgir.

Í Laugarneskirkju áttaði ég mig á mikilvægi þess að standa upp fyrir fólki sem getur ekki staðið upp fyrir sér sjálft, og hvað náungakærleikur er sterkt afl. Það er samfélagsleg ábyrgð okkar að hafa augun opin fyrir neyð náungans, sama hverrar þjóðar, hverrar trúar, kynþáttar eða kynhneigðar hann/hún er, og sama hvað klukkan er eða hvaða dagur er!

Takk Laugarneskirkja!


Þuríður Björg Wiium Árnadóttir