Kirkja, hús, gjarnan gamalt og hvað svo meira. Ég ólst upp við að fara í messu á jólum, klukkan tvö á jóladag. Já og svo ferming, skírn og einstaka jarðaför – þær eru bara svo erfiðar að ég fer bara þegar ég verð að fara.

Ég er nú greinilega ekki gjaldgengur í messuþjónustu og hvað þá sóknarnefnd eða nokkuð annað sem „kirkjufólk“ gerir, eða hvað? 
Líklega er ég ekki eins „mikið trúaður“ og hinir en hvernig er þetta mælt? Ég hef reyndar grun að þetta sé ekki mælt, það er að aðeins ég geti mælt þetta. 

Eftir að ég byrjaði nýlega að vinna með þessum góða hópi fólks í Laugarneskirkju sé ég betur og betur að ég passa bara vel inn.  Ég trúi á æðri mátt og hef gert frá barnsaldri og þá sérlega frá því um þrítugt. 
Mér þykir almennt vænt um fólk og reyni að vera umburðarlyndur og auðmjúkur.  Ég segi nú gjarnan að ég hafi þennan hátt á, aðallega fyrir mig – ég er svo sjálfselskur.  Ég hef prófað að vera neikvæður, öfundsjúkur og almennt á vondum stað í lífinu og það er endalaust púl.

Líklega er ég bara eins og fjölmargir aðrir í kringum mig, trúaður á minn hátt. Ég hef þó gengið lengra en margir í því að viðurkenna upphátt að Laugarneskirkja og sá hópur fólk sem er að vinna þar gerir mjög gott fyrir samfélagið, á afslappaðan hátt og án tilætlunarsemi.  Við getum sótt styrk í kirkjuna, á okkar forsendum, án upphópana, bara labbað þar inn (t.d. á þriðjudagskvöldum), sest niður og slappað af og jafn vel átt hljóðlaust samtal við okkar Guð, eða æðri mátt, eða hvern þann sem við viljum sækja styrk til á fallegan, látlausan hátt.

Kveðja

Kalli