Til hamingju með afmælið elsku Laugarneskirkja.

Það eru að verða 20 ár síðan ég rataði á fjörur Laugarneskirkju, þá nýinnritaður guðfræðinemi. Ég hafði heyrt af blómlegu starfi kirkjunnar úr mörgum áttum og ákvað að gefa kost á mér til sjálfboðaþjónustu. Ég mætti því á dyrnar hjá prestinum sem tók mér vel og fyrr en varði var ég kominn til liðs við Laugarneskirkju.

Á þeim fimm árum sem ég tók þátt í safnarstarfi Laugarneskirkju, fékk ég að máta mig í öllum þáttum kirkjulegrar þjónustu og lauk jafnframt starfsþjálfun hjá prestinum. Það er óhætt að fullyrða að ég hafi í Laugarneskirkju lært það göngulag sem ég hef síðan tamið mér í þjónustu við kirkju og kristni.

Það yrði of langt mál að nefna allt það fólk sem hafði varanleg áhrif á mig í starfi Laugarneskirkju en flest eru þau vinir mínir í dag og til hinna hugsa ég hlýlega og sakna. Það er þó þrennt sem ég vil nefna sem var mér sérlega lærdómsríkt og hefur mótað afstöðu mína til kirkjulegrar þjónustu.

Fyrst vil ég nefna samfélagið í Hátúni, en guðsþjónusturnar þar og mannflóran kenndi mér meira um manneskjur en nokkurt háskólanám getur. Í Hátúni býr dýrmætt fólk, sem á það sameiginlegt að líta lífið einstökum augum, og í gegnum starfið þar lærðist mér að samfélag kirkjunnar er fyrir alla. Hugsjón Jesú um fagnaðarerindi sem á erindi við alla aldurs-, þjóðfélags- og heilsufarshópa, birtist þar í sinni fegurstu mynd.

Annað sem ég lærði var, að í Laugarneskirkju er alltaf rými fyrir börn. Presturinn var aldrei of upptekinn eða of spariklæddur fyrir „fallin spýta” og ég heyrði ekki nokkurn mann segja að kirkjurýmið væri of fínt, hreint eða brothætt fyrir börn. Jesús er afgerandi í boðun sinni um að leyfa börnum að koma til sín en mér lærðist í Laugarneskirkju jafnframt að í leik með börnum nær maður í skottið á Guði.

Loks vil ég nefna, að þegar hyllti undir námslok hvatti kennari minn mig til að taka leyfi frá sunnudagaskólakennslu og sækja guðsþjónustur samfleytt í heilt kirkjuár. Það ár lærði ég að njóta andardráttar messunnar með söfnuði Laugarneskirkju og ég hef síðan haft þá mynd að presturinn sé jafningi safnaðarfólks í samfélagi trúaðra. Það er enda ekki hægt að miðla því sem maður hefur ekki sjálfur þegið. Ég hef þjónað öðrum kirkjum og öðrum söfnuðum ­– en Laugarneskirkja er og verður mín trúarlega uppeldisstöð. Takk fyrir það elsku alma mater.